07.05.1938
Neðri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

57. mál, eftirlit með skipum

*Jón Pálmason:

Ég hefi leyft mér að bera fram eina brtt. á þskj. 447, að laun skipaskoðunarstjóra og aðstoðarmanns séu ákveðin af ráðh.. þar til launalög eru sett, en skrifstofukostnaður og annar kostnaður vegna aðstoðar og eftirlitsferða skuli ákveðinn í fjárlögum. Ég hefi fylgt þeirri reglu að undanförnu, þar sem ég hefi haft aðstöðu til að hafa áhrif á, að það væri ekki fastbundið með sérstökum lögum, hvað laun hjá þessum og þessum starfsmanni væru. Og í samræmi við þá reglu hefi ég flutt þessa till. Ég held því fram, að þegar verið er að setja inn þessi lög hér á þing, þá sé algerlega rangt að fastbinda með slíkum lögum, hvað starfsmannalaunin séu. Því að náttúrlega á það svo að vera, og hlýtur að verða, að sett verði launalög nú innan skamms, og þá munu slíkar lagaskorður með einstökum lögum verka til örðugleika við setningu slíkra laga. Auk þess er í þessu tilfelli athugandi, að samkvæmt frv., eins og það er og kom frá n., er gert er ráð fyrir því, að laun aðstoðarmanns séu eins há og laun forstjóra, og það vænti ég, að allir menn sjái, að ekki er eðlilegt. Um það skal ég ekki ræða frekar að sinni. Vænti ég, að hv. þm. sjái og fallist á, að þessi till. eigi fullan rétt á sér.