30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

118. mál, sælgætisvörur blandaðar fisklýsi og jurtaefnum

Frsm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti ! Mér þykir hlýða að segja örfá orð út af ræðu hv. 8. landsk. Hann gaf þær upplýsingar, að það firma, sem hér er um að ræða, væri ekki starfandi, eða m. ö. o., að hér væri falskt mál á ferðinni. En eftir þeim upplýsingum, sem iðnn. hefir fengið, er firmað starfandi. Við brögðuðum meira að segja á vörunum, og okkur þótti þær góðar. Ég veit ekki betur en að firmað sé í firmaskrá, enda hefi ég séð frá því allglæsilegar auglýsingar. Þetta eru þær upplýsingar; sem n. hafði um, að firmað væri til.

Það er alveg rétt, sem hv. 8. landsk. sagði, að það rignir yfir okkur einkaleyfisbeiðnum í þessa átt. Og það má auðvitað bollaleggja, hvort yfirleitt er rétt að fara inn á þá braut að veita slík einkaleyfi. En með hliðsjón af því, að þingið er að afgreiða einkaleyfisbeiðnir á öðrum sviðum, vill iðnn. ekki leggja á móti þessari beiðni, því að hér er um nýmæli að ræða, einkum það, að nota fjallagrös til smekkbætis. Það eru um það upplýsingar í grg., að erlendar fabrikur noti þetta — má vel vera, að það séu skrumauglýsingar, en allt um það hefir þeim hugkvæmzt, að þetta gæti verið agitation fyrir vörunni. Því fremur ættu ísl. firmu að fá að nota sér þetta til að auka umsetninguna erlendis. Það er ekki ólíklegt, að þarna mundi heppnast að koma upp dálitlum iðnaði í landinu. Firmað býðst til að láta taka af sér leyfið á 3. ári, ef það verður þá ekki búið að flytja út vörur fyrir 70 þús. kr. Ég skil ekki, að mennirnir, sem að þessu standa, séu slíkir heimskingjar, að þeir hafi ekki athugað sitt mál. Einkaleyfið er miðað við 5 ár, og er varla hugsanlegt að miða það við skemmri tíma, þar sem mikill tilkostnaður er samfara framkvæmdum í þessu efni.

Hv. 8. landsk. fannst óþarft að veita einkaleyfi. En þegar verið er að brjótast í einhverju nýmæli varðandi útflutning á innlendum iðnaði, þurfa menn að fá þetta aðhald, að þeir geti haft vald á hlutunum um visst árabil. Einkaleyfi eru alltaf takmörkuð við 5 og upp í 20 ár. Hér er farið fram á lágmarkstíma. enda hafa leyfisumsækjendur gert sig ánægða með það.