03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1939

Thor Thors:

Herra forseti, góðir áheyrendur! Ég hefi aðeins 4 mín. til umráða. — Út af margendurteknum ásökunum vegna rekstrarkostnaðar S. Í. F. vil ég geta þess, að launagreiðslur eru þar 0,75% af umsetningunni, en hjá ríkiseinkasölunum um 5%. Laun forstjóra hafa verið lækkuð um 25% og eru eins og laun meðal framsóknarmanna með viðeigandi bitlingum. Hv. 1. þm. N– M. hefir áreiðanlega hærri laun en forstjórar S. Í. F. — Hv. þm. Seyðf., HG, talar um sparnað. Hann framkvæmdi víst sparnað í tryggingarstofnuninni, tróð sér þangað inn, þó að hann sé þar alóþarfur maður. Hv. þm. blundaði allan daginn, á meðan hann var í ráðh.sessi. Hann segir, að tekizt hafi að bjarga sjávarútveginum. Það er rétt. Þrátt fyrir hv. þm. Seyðf., HG, hefir sjávarútvegurinn bjargazt.

Hv. 5. þm. Reykv., EOl, ætti að skilja töp á útgerð, síðan forstjóra síldareinkasölunnar tókst að hafa allt andvirði síldarinnar af sjómönnum.

Grobbi hv. þm. N.- Ísf. þarf ég engu að svara. Hann má lifa sæll í ljómanum af sinni sjálfsaðdáun fyrir mér.

Umr. þessar sanna, hversu margklofnir hinir svonefndu verkalýðsflokkar eru og hversu innilegt er hatrið á milli forsprakkanna. Aðaláhugamál þessara manna er að svívirða hver annan. Slíkir menn bjarga aldrei þjóðinni úr voða.

Þá kem ég að hæstv. fjmrh. Honum finnst allt vera í lagi! Hann talar um blekkingar í sambandi við skuldaaukninguna. En samkv. opinberum skýrslum hafa skuldirnar við útlönd hækkað um allt að 30 millj. kr. Þetta er frá áramótum 1933, en ráðh. vill ekki tala um nema 2–3 síðustu ár. Til samanburðar skal ég geta þess, að í stjórnartíð sjálfst.manna lækkuðu skuldirnar við útlönd um 17,4 millj. En á þessum síðustu 10 árum, sem Framsfl. hefir farið með fjármálastj., hafa skuldirnar hækkað um 55 mill. kr. Þetta eru talandi tölur. Nú í ár þarf nær 14 millj. til greiðslu vaxta og afborgana af skuldum erlendis. Þetta stendur fast. Það mun hæstv. ráðh. reka sig á.

Jómfrúræðu hæstv. atvmrh. þarf ég ekki að svara. Hann lætur það sennilega verða sitt hlutverk í ríkisstj. að hrifsa bein og bitlinga frá gírugum flokksmönnum sínum! Vongóður maður, hæstv. atvmrh.!

Fyrri ræðu hæstv. fjmrh. vil ég svara þannig, að tollar og neyzlugjöld hafa aukizt úr 6,5 millj. kr. 1933 upp í 9,5 millj. kr. 1937. Þjóðin finnur líka til þessara álaga, hvað svo sem hæstv. ráðh. segir. Ég vil minna hann á, að stefnur stjórnmálaflokkanna voru þrautræddar við vantraustsumræðurnar nýlega. Ég vil loks vekja athygli á því, að skuldir ríkisins og þjóðarinnar hafa aukizt. Skattar og tollar hafa stórhækkað, og atvinnuleysið hefir aldrei verið sárara en nú.

Útlitið er dapurt, en þó skal ekki gefizt upp. Það þarf að breyta um stjórnarstefnu.

Að lokum aðeins þetta: Það hefir verið hinn rauði þráður í afskiptum stjórnarflokkanna af atvinnumálunum að draga úr athafnafrelsi manna, skapa bönn, ófrelsi og fjötra. Sjálfstfl. vill gerbreyta um stefnu. Það er framar öllu öðru hugðarefni Sjálfstfl. að færa aukið fjör og framtak í atvinnulíf þjóðarinnar. Takmarkið er, að atvinnuvegirnir verði einfærir um að veita allri þjóðinni vinnu og brauð, að atvinnuvegirnir rísi undir menningarlífi sjálfstæðrar og hamingjusamrar þjóðar. Vér viljum ná þessu marki með því að auka frelsi manna og veita þeim hvöt til heilbrigðrar framsóknar og framtaks. Saga íslenzku þjóðarinnar sýnir það meginstöfum, að aukið frelsi hefir ætíð fært þjóðinni auknar framfarir.

Sjórnmálabaráttan snýst um hagsmuni manna, einstaklinga, stétta og þjóðarinnar í heild. Sjálfstæðisstefnan sér öllum þessum hagsmunum bezt borgið. Hún er vitund og játning þess, að orka hvers þjóðfélags er fólgin í hugum og höndum fjölda einstaklinga. Einstaklingarnir verða að eiga sér frjálsræði til athafna. Við það skapast auðurinn, sem er hyrningarsteinn hvers þjóðfélags. Auðsöfnun verður síðan næsta viðfangsefnið. Auðjöfnun stjórnarflokkanna miðar niður á við, að því að drepa þá efnaðri án þess að auðga þá efnaminni — að því að gera alla jafnsnauða. auðjöfnun sjálfstæðismanna miðar upp á við, að því að fá sem flestum beina hlutdeild í arði og stjórn stöðugt vaxandi atvinnulífs og þar með að veita sem flestum landsmönnum vorra batnandi afkomu og betri lífskjör.

Tími minn er á enda. Góðir sjálfstæðismenn og konur um land allt! Verið viðbúin til baráttu, hvenær sem það kall kemur, verið einnig viðbúin til hollráða fram úr ógöngum liðandi stundar.

Að lokum vil ég óska öllum áheyrendum þess, að þeirra lífsbarátta megi á nýbyrjuðu sumri verða háð í sólskini batnandi tíma. Verið þið sæl!