26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Thor Thors:

Ég vil fyrst geta þess, að samvinna hefir verið sæmileg um þetta mál í allshn. Frv. hefir verið rætt þar og lesið af nm., og einstök atriði þess rannsökuð, og var n. öll sammála um það, að frv. yrði samþ. Var því hnigið að því ráði, sem almennt er í n., að gefa út sameiginlegt nál., þegar hún vill flytja eitthvert mál fram. En hv. þm. N.-Ísf., sem er fulltrúi Alþfl. í allshn., sá einhverja sérstaka ástæðu til þess að koma fram með aths. frá eigin brjósti í nál. allshn. Og hann hefir gert það á þann ósmekklega hátt, að vera með hnútur í garð sinna meðnefndarmanna út af afgreiðslu þessa máls. Ég get vel skilið, að þessum hv. þm., eins og öðrum þm. Alþfl., sé dálítið órótt út af þessu máli. En það er vissulega ekki okkur sjálfstæðismönnum að kenna, þó að svo sé ástatt fyrir þeim, heldur þeirra fortíð sjálfra í þessu máli. Fyrir þá sök að þm. Alþfl. tóku ekki vinnulöggjöfinni með skynsemi og réttsýni í upphafi, þá eiga þeir nú sjálfir í þeirri erfiðu aðstöðu, að þurfa sjálfir að kveða niður þann óþægilega draug, sem þeir sjálfir hafa vakið upp í þessu máli með því í öndverðu að leyfa sér að viðhafa orð eins og „þrælalög“ og önnur slík ókvæðisorð um þær sanngjörnu till. í þessum málum, sem við sjálfstæðismenn lögðum fram, sem byggðust í einn og öllu á því, sem þeir menn á Norðurlöndum, sem þessir menn telja flokksbræður sína, hafa lögfest hjá sér. Till. okkar sjálfstæðismanna áttu því rót sína að rekja til nákvæmlega þess sama sem þetta frv., sem þeir nú berjast fyrir, byggist á. Þess er rækilega getið í tili. mþn., sem skipuð var fulltrúum sósíalista og framsóknarmanna, að þeir hafi miðað sínar till. við gildandi löggjöf á Norðurlöndum. En slíkt hið sama höfðum við sjálfstæðismenn óvefengjanlega líka gert. Það er því næsta mannlegt, að hv. þm. N.-Ísf. hafi hvöt til þess að reyna að þvo hendur sínar, eins og Pílatus forðum; en slíkt er ekki stórmannlegt. Við óskuðum í allshn. að skrifa undir sameiginlegt nál. með þessum meðnm. okkar eins og öðrum nm. En hann vildi ekki. Við getum þess í nál. okkar, að við mótmælum ummælum þeim, sem þessi hv. þm. við hefir, sem ég gat um. (VJ: Hverjum sérstaklega?). Sérstaklega þeim ummælum, að mikil hætta sé á því „að breytingar, stórhættulegar verkalýðnum og samtökum hans (samanber till. sjálfstæðismanna, sem liggja fyrir þinginu, og þar á meðal brtt. þær, sem minni hl. n., GÞ og TT, gera ráð fyrir að flytja við þetta frv.), verði gerðar á frv., ef ekki tekst að hindra það með samkomulagi á milli Alþfl. og Framsfl.“ — Ég vil harðlega mótmæla því, að okkar till., sjálfstæðismanna, séu að nokkru verulegu leyti hættulegar fyrir verkalýðinn, heldur þvert á móti. Ef í okkar frv. felst einhver hætta fyrir verkalýðinn, þá staðhæfi ég, að nokkur hætta muni þá einnig felast fyrir verkalýðinn í þessu frv., sem hv. þingmenn Alþfl. berjast fyrir hér á Alþ. Við látum þess getið, hv. 8. landsk. og ég, að við teljum frv. það um vinnudeilur. sem við höfum flutt á undanförnum þingum, fullkomnara en þetta frv. En þar sem þetta frv. fellur í meginatriðum saman við okkar frv. og till., þá fögnum við framkomu þess og leggjum til, að það verði samþ. En við berum fram við það þær brtt., sem ég nú vil leyfa mér að lýsa. Þær eru á þskj. 330.

Fyrsta brtt. er um það, að alstaðar í frv. sé orðið „verklýðsfélag“ notað í staðinn fyrir orðið „stéttarfélag“. Í aths., sem fylgdi þessari gr. frá mþn., er sagt, að orðið „stéttarfélag“ sé notað í frv. aðelns um félög, sem stofnuð eru í þeim tilgangi að gæta hagsmuna þeirra manna, sem hafa lífsviðurværi sitt af því, að selja vinnu sína gegn ákveðnu kaupgjaldi. Í venjulegri merkingu nær hinsvegar orðið stéttarfélag til félaga allra stétta. Það er þó ekki tilætlun n., sem samdi þetta frv., að frv. sé svo víðtækt. En í 1. gr. þess er svo sagt, að rétt eigi menn á „að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verklýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt.“ Þetta mun samkvæmt almennri venju eingöngu eiga að taka til verklýðsfélaga. En það er hinsvegar bersýnilegt, að þetta frv. getur alls ekki náð til félaga einstakra stétta, eins og t. d. Prestafélags Íslands og Læknafélags Íslands. En ,þessi félög eru þó tvímælalaust stéttarfélög; en þau lúta allt öðrum reglum en stéttarfélög almennt, því að starfsmönnum þess opinbera er bannað að gera verkföll samkv. 1. nr. 33 1915. Hinsvegar eru öll verklýðsfélög látin öðlast verkfallsrétt með nokkrum takmörkunum. Það er bersýnilegt, að orðið stéttarfélag er of víðtækt orð eftir því, sem tilætlun löggjafans og tilgangur málsins er.

2. brtt. er einnig orðabreyt., að í stað „atvinnurekenda“ komi: vinnuveitendum og vinnuveitenda, því að það leiðir einnig af eðli málsins, að frv. á eingöngu að ná til þeirra, sem veita öðrum vinnu. En það eru margir atvinnurekendur, sem ekki hafa aðra menn í þjónustu sinni.

Þá er 3. brtt., við 9. gr., að upphaf gr. orðist svo: „Á hverri vinnustöð, þar sem a. m. k. 5 menn vinna, hafa þeir menn, sem á stöðinni vinna, rétt til þess að tilnefna 2 menn til trúnaðarmannsstarfa úr þeirra hópi.“ Við teljum eðlilegra, að það sé fólkið sjálft, sem við vinnuna á að búa, sem ráði því, hverjir verða trúnaðarmenn þess á vinnustöðinni. Það er kunnugra en stjórnir verklýðsfélaganna úti í bæ, sem eru bundnar við allt önnur störf og hafa litla þekkingu á högum verkalýðsins og gera sér lítið far um að kynnast því. Þær stjórnir skipa oftast óviðkomandi menn, óviðkomandi nema um pólitískar kosningar. Við viljum veita fólkinu sjálfu réttinn og lofa svo atvinnurekendum að ryðja öðrum manninum. Það er miklu tryggara fyrirkomulag. — Þá er önnur brtt. við sömu gr., um, að þessi réttur skuli ekki ná til áhafna skipa. Slíkt mundi brjóta í bág við gildandi reglur siglingalaga og getur ekki samrýmzt þeirri afstöðu, sem er á hverri fleytu á milli yfirmanna og undirmanna. Enda er það svo, að áhöfn skips hefir allt aðra réttaraðstöðu og meiri en almennir verkamenn. Þær eru á margan hátt verndaðar af ákvæðum siglingal. — 3. og 4. brtt. við þessa gr. eru svo til samræmis því, sem ég hefi rakið.

4. brtt. er við 12. gr. og hljóðar svo: „Nú vanrækir trúnaðarmaður störf sín samkv. lögum þessum, samkv. dómi samverkamanna sinna á vinnustöðinni, og skal þeim þá heimilt að svipta hann umboði sínu og tilnefna trúnaðarmenn samkv. ákvæðum 9. gr.“ Það leiðir af því, að verkafólkið tilnefnir trúnaðarmenn, að það hefir rétt til að segja þeim upp, ef þeir rækja ekki skyldur sínar.

5. brtt. er til samræmis því, sem ég sagði áðan, að þessi kafli ætti að fjalla eingöngu um verkalýðsfélög. Skv. frv. á fyrirsögn I. kafla að vera: „Um réttindi stéttarfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda.“ Þetta er ekki réttnefni á efni kaflans. Vilji menn halda þessu orði, stéttarfélag, virðist nauðsynlegt, að kaflinn héti: „Um réttindi og skyldur stéttarfélaga — — o. s. frv., því að ýms ákvæði fjalla og um skyldur verkalýðsfélaganna, svo sem í 8. gr., um að stéttarfélög eða verklýðsfélög beri ábyrgð á samningsrofum.

Þá er 6. brtt. Hún er við 16. gr. og er á þessa leið: „Ákvörðun um vinnustöðvun ber að tilkynna sáttasemjara og Vinnuveitendafélagi Íslands, eða Alþýðusambandi Íslands, ef sá, sem vinnustöðvun beinist gegn, er í þeim félögum, en að öðrum kosti beint til aðilja. 10 sólarhringum áður en tilætlunin er, að hún hefjist.“ Það er 7 sólarhringa frestur fyrir tilkynningu um vinnustöðvun samkv. frv. Við viljum færa hann upp í 10 daga og teljum það nauðsynlegt, til þess að jafnan sé hægt að nota frestinn til hins ýtrasta til þess að koma á sætt. — Ég skal geta þess í þessu sambandi, að í Danmörku hefir þessi frestur verið 14 dagar nú í 40 ár, síðan septembersættin gekk í gildi, en hún er samkomulag aðilja í vinnudeilum frá 1899 og einskonar stjórnarskrá í vinnudeilumálum þar.

7. brtt. er síðan um, að ekki sé heimilt að beita vinnustöðvun til fullnægingar á úrskurðum vinnudómstóls. Það er svo ákveðið í 65. gr., að dómar og úrskurðir séu aðfararhæfir eins og er um venjulega dómstóla. Það leiðir af því, að til að leita fullnægingar, verður aðili að fara löglega leið með milligöngu yfirvaldanna, eins og þegar um venjulega dóma er að ræða, enda þarf oft við fullnægingu dóms úrskurð fógeta um það, hvernig fullnægingin skuli framkvæmd að ýmsu leyti. Slíka úrskurði geta bara lögleg yfirvöld gefið. Hin brtt., við II. gr., er til frekari skýringar, enda segir svo í grg. mþn., að sú upptalning, sem hún gerir, sé ekki tæmandi.

8. brtt. er um, að atvmrh. skuli gefa sáttasemjara erindisbréf, þar sem m. a. sé ákveðin aðstaða ríkissáttasemjara til héraðssáttasemjara. Það er nauðsynlegt að kveða skýrt á um það og sjállfsagt, að atvmrh. gefi þeim öllum sérstakt erindisbréf.

9. brtt. er um, að atvmrh. geti skipað sérstaka sáttasemjara, eða, ef mikið liggur við, nefnd manna til að framkvæma sáttartilraunir í einstökum vinnudeilum. Í frv. er engin heimild fyrir atvmrh. til að skipa sérstaka sáttasemjara, heldur aðeins n., ef sérlega mikið liggur við. Nú á t. d. svið ríkissáttasemjara í Rvík og Hafnarfirði að ná frá Vestur-Skaftafellssýslu og norður í Dalasýslu, að báðum sýslum meðtöldum. Það gefur að skilja, að þessi eini maður getur ekki á öllum tímum sinnt öllum vinnudeilum, sem samtímis kunna að gjósa upp á þessu mikla svæði. Það geta t. d. verið margskonar vinnudeilur hér í Rvík og svo samtímis austur í Vík í Mýrdal. Þegar svo stendur á, er eðlilegt, að atvmrh. geti skipað sérstakan mann á staðnum til að vinna að sáttum.

Þá er 10. brtt. og leggur auknar skyldur á ríkissáttasemjara, þær, að hann skuli kynna sér nákvæmlega horfur og ástand atvinnulífsins á öllu landinu, einkum allt, sem að vinnudeilum lýtur, en héraðssáttasemjurum skal aðeins skylt að fylgjast með öllu slíku í sínu umdæmi. Það er vitanlega nauðsynlegt, að ríkissáttasemjari, sem hefir þó nokkurt vald, hati sem ríkasta skyldu til að fylgjast með öllu í atvinnulífi þjóðarinnar.

11. brtt. miðar að því, að herða á skyldu manna til að mæta hjá sáttasemjara til viðtals eða fundar. Í frv. er ákvæði um, að mönnum sé skylt að mæta á fundi hjá sáttasemjara, en það er nauðsynlegt, að aðili hafi skyldu til þess einnig þegar sáttasemjari aðeins þarf að hafa tal af honum.

Nú kem ég að 12. brtt., og er hún veigamest. Hún er á þá leið, að vinnustöðvun megi aldrei gera fyrr en liðnir séu 4 sólarhringar frá því, að tilkynning kom í hendur ríkissáttasemjara og ennfremur, að sáttasemjara sé í einstökum tilfellum skylt að banna vinnustöðvun, þar til sáttatilraun hafi farið fram. En þetta bann má aldrei standa lengur en 5 + 2 sólarhringa, sem sé 7 sólarhringa. Samskonar ákvæði eru í Noregi, en þar er miklu lengra gengið en við gerum, því að fresturinn, sem sáttasemjara er veittur, er 10+4 dagar, en við leggjum til helming þess. En við teljum það verulegan galla á frv., að sáttasemjara er ekki veitt þessi skylda eða heimild til að banna vinnustöðvun. Það hlýtur að vera höfuðtilgangur vinnulöggjafar að reyna að tryggja vinnufriðinn í landinu. En til þess, að þeim aðaltilgangi verði náð, teljum við nauðsynlegt, að sáttasemjari megi banna vinnustöðvun.

Þá er 13. brtt., um að útkljá megi deilur í fleiri en einni atvinnugrein í einu lagi, ef sáttasemjari telur það rétt.

14. brtt. er um, að atkvæðatölur í félögum séu miðaðar við atkvæðisbæra félagsmenn, en ekki aðeins atkvæðisbæra menn, en það gæti skilizt svo, að eingöngu væri átt við fundarmenn, en svo er að sjá á 2. málsgr. 32. gr., að mþn. ætlist til, að um félagsmenn sé að ræða, því að þar stendur: „Umboðsmenn aðilja gefa sáttasemjara skýrslu um, hve margir félagsmenn eru atkvæðisbærir.“ Sést þar, að n. ætlast til, að við félagsmenn sé miðað.

15. brtt. er við 39. gr., um skipun félagsdóms. Hann skal vera skipaður 5 mönnum, og er í frv. gert ráð fyrir, að 2 séu skipaðir af aðiljum, þriðji af atvmrh. og 2 af hæstarétti. Við viljum, að 2 menn séu skipaðir af aðiljum, en 3 af hæstarétti. Við teljum ekki rétt, að pólitískur aðili, eins og ráðh., ráði um skipunina. Það gæti orðið til að auka á tortryggni gagnvart dómnum, en ekki til annars. Við teljum og rétt, að hæstiréttur tilnefni forseta og varaforseta dómsins.

1 7. brtt. er við 44. gr. Þar er nokkuð nánar tiltekið verkefni félagsdóms, þar sem honum er gert að dæma um, hvort löglegt geti talizt verkbann eða verkfall, sem boðað hefir verið, og hvort ófullnægðar kröfur, sem slíkar ráðstafanir eru byggðar á, séu löglegar, en það leiðir af eðli málsins, að félagsdómur er sá eini, sem um slíkt ætti að fjalla. Ég hugsa, að við sjálfstæðismenn munum við 3. umr., án tillits til, hvernig fer um þessa till., bera fram sérstakar brtt. um málsmeðferð fyrir héraðsrétti, sem bara fjalla um meðferð málanna, en eru ekki efnisbreyt. Mér finnst ekki ákvæðin um héraðsdóma vera eins nákvæm og var í okkar frv. á undanförnum þingum og viljum við gera þau fyllri.

Það má segja um 2 síðustu kafla frv., um sáttatilraunir og um vinnudómstól, að efnislega eru þeir líkir till .okkar sjálfstæðismanna, enda var þess getið í Alþýðublaðinu af tveimur fulltrúum Alþfl. í mþn., að þetta væri léleg uppskrift af till. okkar sjálfstæðismanna. En þó að alþýðuflokksmennirnir hafi kallað þetta svo, ræður kaldhæðni örlaganna því, að þeir bera fram þessar sömu lélegu till. Þegar athuguð er fortíð þeirra, er engin furða, þó að sumum þeirra verði órótt, eins og grg. hv. þm. N.-Ísf. sýnir.