26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Einar Olgeirsson:

Það var hv. þm. Barð., sem var að ræða hér í d. áðan um kröfur okkar kommúnista, og hann komst svo að orði, að ýmsar af þessum kröfum okkar kæmu í bága við tilgang frv. Það getur vel verið, að hv. þm. Barð. finni ýmislegt í kröfum okkar, sem kemur í bága við þann tilgang, sem þessu frv. er ætlað að ná. Því er ætlað að verða verklýðshreyfingunni og verkamannasamtökunum til tjóns. En við kommúnistar ætlumst til þess með þeim brtt., er við berum fram, að frv. tryggi verklýðshreyfingunni að einhverju leyti betri afstöðu en nú er. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að þessar brtt. séu frekar slæmar frá sjónarmiði þessu hv. þm. Hinsvegar er það auðvitað misskilningur hjá honum, þegar hann talaði um, að hjá okkur kommúnistum komi fram skilningsleysi á því, hver tilgangur frv. sé. Það er þvert á móti. Vegna þess að við skiljum, hver tilgangur þess er, berum við fram svona brtt. Tilgangur þessa frv. er sá, að fjötra verkamannasamtökin og skerða rétt verkamanna. Við kommúnistar berum fram brtt. við frv. til þess að reyna að hnekkja þeim tilgangi. Hv. þm. Barð. var að tala um 5. gr. þessa frv. og um að samkomulag milli aðilja, verkamanna og atvinnurekenda, yrði að vera byggt á samningum. Hann telur það vitanlega alveg fráleitt, sem við kommúnistar förum fram á, að gefa verkamönnum rétt til þess að auglýsa kauptaxta, ef atvinnurekandi neitar að semja. Hér er að ræða um það, að þessi hv. þm. hefir ekki áttað sig á málinn, því að hann hefir ekki hugsað það út í æsar. Hvernig er yfirleitt hægt að skapa samninga, ef annar aðilinn neitar að tala við hinn, og hvaða þýðingu hefir það fyrir verklýðsfélögin að gera lögformlega samninga, ef atvinnurekendur geta neitað að tala við þá aðilja, sem að samningunum standa af hendi verklýðsfélaganna? Þess vegna er í þessari brtt. okkar kommúnista eingöngu farið fram á, að svo framarlega sem atvinnurekendur neita að tala við fulltrúa verklýðsfélaganna eða semja vil, félögin, geti þessi félög auglýst kauptaxta, sem gildi jafnt og samningur. Það á því aðeins að koma til greina að annar aðili vilji ekki semja.

Hv. þm. Barð. sagði, að við 3. umr. þessa máls myndi gefast kostur á að ræða meira um þetta frv. Við 3. umr. málsins gefst kostur á að tala við fólkið í landinu, en við 2. umr. er aðallega tækifæri til þess ef hugsanlegt væri að reyna að sannfæra einhverja þm. um eitthvað. (Rödd af áheyrendapöllum: Þeir eru svo margir hér!), Já, það er kannske eins gott, að reyna að sannfæra stólana, sem þeir sitja á, eins og þá sjálfa.

Ég var að sýna fram á það í minni ræðu, að það væri hægt að fara í kringum hvert einasta af þessum ákvæðum frv. fyrir atvinnurekendur. Ég held, að þessi hv. þm. ætti að kynna sér, hvað mörg verkbönn hafa yfirleitt verið hér á Íslandi. Atvinnurekendurnir framkvæma vinnustöðvanir sínar yfirleitt ekki með verkbönnum. Það eru bara kallaðar vinnustöðvanir eða eitthvað slíkt. Annars ætla ég ekki að eyða meiri tíma í þennan hv. þm.

Þá kem ég að hv. þm. N.-Ísf. Það er alltaf gaman að heyra hann tala. Það skín svo út úr honum tilfinningin um hans miklu vitsmuni og yfirburði. Þetta kemur hvað bezt í ljós, þegar hann er að tala um eitthvað, sem er næst því að vera ósannindi. Og það er þessi ró, sem yfir honum hvílir, og hvað hann mælir hægt og stillilega, eins og hann ætlist til, að það gefi orðum hans sem mestan trúverðugleika, þegar þau eru sem fjærst sannleikanum. Þegar hann var að tala um afstöðu okkar kommúnista, eftir að við höfum gefið um hana skýrar yfirlýsingar, þá fer hann að koma með hinar og þessar hugleiðingar út af því. Hann fer að „spekúlera“ í því, að við höfum verið að tala um styrkleika samtakanna, hvað hann þýddi og hvað áhrifavald þeirra væri. Þar af leiðandi, sagði hann, að við hefðum komizt að þeirri niðurstöðu, að öll löggjöf væri einskisverð. Eitt af því, sem hann reyndi að rökstyðja þetta með, var það, að við hefðum sagt, að þó að okkar brtt. yrðu samþ., þá greiddum við samt atkv. á móti frv. Þessi hv. þm. er sérstaklega sniðugur í því að rugla saman. Og ég hefi grun um, að hann geri það eins mikið viljandi eins og óviljandi. Það, sem ég sagði áðan, var það, að brtt. okkar mundu eyðileggja allan þann tilgang, sem í frv. fælist. Hv. þm. ruglaði saman því, sem ég sagði um brtt. 3. þm. Reykv. Um þær sagði ég, að við kommúnistar mundum greiða atkv. með þeim, þótt við greiddum atkv. gegn frv. í heild, líka þótt þær yrðu samþ. Hinsvegar var það gefið mál, að svo framarlega sem okkar brtt. yrðu samþ., þá yrðum við með frv. Þess vegna er allt, sem hv. þm. N.-Ísf. var að fara hér með, helberar blekkingar og útúrsnúningur. Viðvíkjandi því, sem þessi hv. þm. var að tala um anarkisma, þá vil ég segja það, að ég er hissa á honum að vera að ásaka okkur fyrir það, að við séum anarkistar, því að það er enginn hv. þm., sem hefir eins miklar tilhneigingar í þessa átt eins og elnmitt hann sjálfur. En þetta er atriði, sem virkilega er þess vert að koma inn á. Það er spursmál, sem allir sósíalistar þurfa að gera sér grein fyrir, — hvað það er, sem fyrir verkalýðnum liggur, og hvaða áhrifavald hann hefir. Það, sem ég hefi lagt áherzlu á, er það, að sú löggjöf, sem sett sé, öðlist því aðeins gildi, að hún sé ekki sett á móti vilja þeirra aðilja, sem við hana eiga að búa. Ég fullyrði þess vegna, að það þýðir ekkert að setja vinnulöggjöf, sem verkalýðurinn er á móti. Við höfum fyrir okkur hræðileg dæmi um það, hvernig hægt er, með því að teygja l. eins og hrátt skinn, að eyðileggja bæði þingræði og lýðræði, svo framarlega sem máttur verkalýðsins ekki er þess megnugur að hindra það. Reynslan sannar þetta. En ég veit, að hv. þm. N.- Ísf. treystir lítið á þetta vald verkalýðsins. Hann lítur niður á þessi samtök. Ég þykist vita, að þetta stafi af því, að hann hefir aldrei lifað með í þessum samtökum og veit ekki, hvaða kraftur felst í þeim. Ég veit, að þessi hv. þm. trúir miklu meira á það, sem hægt sé að gera með samkomulagi við hina og þessa foringja annara fl., þar sem hægt sé að makka um hitt og þetta og kaupa með hinum og þessum fríðindum. Ég veit, að hann leggur miklu meira upp úr þessu. En þetta getur verið of dýru verði keypt. Það er ekki trúin á hrossakaupin, sem tryggir afkomu og frelsi verkalýðsins. Það er áreiðanlega fyrst og fremst skilningurinn á því valdi, sem felst í verkalýðssamtökunum. Þegar verið er að tala um það hér, bæði af þessum hv. þm. og öðrum, að Íhaldið gæti gert ýmislegt, ef það væri hér í meiri hl., þá vil ég bara mínna á það, að Íhaldið kom líka fram með ríkislögreglufrv. 1925, og það fekk það ekki samþ. vegna þess, að það mætti svo harðvítugri mótspyrnu í landinu. Við sáum það greinilega þá, hvað mótspyrnan utan þings hafði að segja. Það er fjarri því, að við kommúnistar viljum ekki reyna að nota löggjafarvaldið til að koma á kjarabótum fyrir verkalýðinn. Annars værum við ekki að slást fyrir því að komast á Alþ. og bera þar fram frv. og reyna annað eins og það, að sannfæra suma hv. þm., eins og það er nú dæmalaust vandræðamál, um það, að sumt af þessum frv. sé nokkuð gott. Hv. þm. endaði með því að segja, að kommúnistar ættu ekkert á þing að gera. Það hefir nú lengi verið ósk þessa hv. þm., að þeir mundu aldrei þangað komast, en samt er ég nú hræddur um, og ég vona það, að hann eigi eftir að sjá þá fleiri hér en nú er.

Hv. þm. minntist sérstaklega á ákvæðin í 15. og 16. gr. Það er mjög nauðsynlegt, að það komi skýrt fram sú túlkun, sem höfð er á þessari gr. Ég vil sérstaklega beina því til þessa hv. þm., og hefi ég þar fyrir mér það, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að ef t. d. er í einum vinnusamningi tekið fram, að kaup skuli greiðast í peningum og annað slíkt, þá er það vitanlegt, að það mundi heyra undir félagsdóm að úrskurða um deilur út af slíkum samningsatriðum og því óheimilt að gera vinnustöðvanir út af því. En það er einmitt slíkt, sem er algengt, að séu gerðar vinnustöðvanir út af, ef t. d. ekki er borgað kaup eða ef slæmur útbúnaður er á vinnutækjum o. s. frv. Það er þess vegna svo, eins og hv. þm. Seyðf. réttilega tók fram, að ef verkamenn vilja hafa rétt til að gera skyndiverkföll út af þessum og þvílíkum atriðum, þá mega þeir ekki setja nein ákvæði um þessa hluti í vinnusamningana. Eftir því sem meira er tekið fram um réttindi verkamönnum til handa í vinnusamningi, eftir því útiloka þeir sig meira frá því, að geta gert skyndiverkföll, því að þá heyrir það undir félagsdóm að úrskurða það.

Þá kem ég að 17. gr., sem er mikið deilt um. Hv. þm. N: Ísf. var að ásaka okkur fyrir, að við værum að leggja verri skilning í þessa gr. en í henni væri. Þetta er ekki rétt. Við erum einmitt að reyna að sýna fram á, hvað hættulegt sé í henni, og reyna að koma í veg fyrir, að menn loki augunum fyrir því. Hv. flm. frv. hefir skýrt ákvæði 17. gr. frv. þannig, að öll pólitísk verkföll séu bönnuð eftir þeim. Ég gerði aths. við þetta og sagði, að það næði ekki nokkurri átt að leggja þennan skilning í ákvæði 17. gr. Eftir henni væri leyfilegur allur fjöldinn af pólitískum verkföllum. Ég óskaði eftir skýrum svörum um þetta frá flm., en þau hafa ekki komið.

Ég hefi ekki enn fengið skýringu á því hjá hv. þm. N. Ísf., hvort hann með orðinu „stjórnarvöld“ á bara við ríkisstjórnina eða hvort hann með því á líka við bæjarstjórnir t. d. Þessi hv. þm. talaði um það, að í raun og veru væru þau verkföll, sem nú væri hægt að beita gegn ríkisstj., ólögleg. Hv. 3. þm. Reykv. hefir sýnt fram á, að þessi túlkun nær ekki nokkurri átt, bara vegna þess að mönnum er heimilt að leggja niður vinnu, hvenær sem er.

Svo er það annað, sem ég vildi minnast á. Við skulum segja t. d., að verkfall væri hafið til að knýja stj. til að framkvæma ekki einhver l.. sem Alþ. hefði sett, þá þýðir það ekki sama og verið sé að knýja stj. til að brjóta l., heldur er tilætlunin sú, að fá hana til að setja ný l. um viðkomandi efni. Það er ekkert sjaldgæft í þessu þjóðfélagi, að ríkisstjórnin neyðist til að setja bráðabirgðalög, og það hefir jafnvel komið fyrir, að slík l. hafa verið sett rétt eftir að Alþ. hefir verið slitið. Það er þess vegna alger vitleysa, að verið sé að eiga við einhverja uppreisn, þegar um er að ræða verkfall á móti ríkisstjórninni. Annars verð ég að geta þess, að það er stundum deilumál, hvað stjórnarvöld séu. Vildi ég gjarnan fá skýringu á því hjá hv. þm. N.-Ísf., hvað voru stjórnarvöld hér í landi í apríl 1931, hvort það var konungur eða meiri hl. þings, ef gert hefði verið allsherjarverkfall af miklum krafti, eins og mikið var um hugsað þá, og hvort slíkt verkfall hefði verið ólöglegt eða ekki.

Þá var hv. þm. að tala um það, að ekki lægi neitt fyrir um meiri hl. gagnvart þessu frv. frá verkamannasamtökunum. Eg vildi skora á alþýðusambandsstjórnina að láta allsherjaratkvæðagreiðslu fara fram í verkalýðsfélögunum um þetta frv. og sjá, hver árangurinn yrði. Þessi hv. þm. var að draga sem allramest úr því, sem verkamannafélögin hafa samþ.; þau hefðu að vísu óskað eftir einhverjum breyt. á frv. En sannleikurinn er sá, að fjöldinn af þeim setti sem skilyrði, að svo og svo miklar breytingar yrðu á því gerðar, ef þau ættu að mæla með því. Það er ekki nokkurt spursmál, að meiri hl. af verkalýðsfélögunum í sambandinn er algerlega andstæður þessu frv.

Ég vil svo að síðustu endurtaka það, sem ég hefi sagt nokkrum sinnum áður, og er það sú síðasta aðvörun til hægri manna Alþfl. hér á þingi, að þeir aðgæti, hverskonar verk þeir eru að vinna. Ég er viss um, að þegar þessir hægri menn eru búnir að hjálpa Íhaldinu og Framsókn til þess að koma þessari vinnulöggjöf í gegn, þá er komið að þeim tíma fyrir þá, að þeim verður sparkað. Og ég vil alveg sérstaklega mæla það til hv. þm. N.-Ísf., að ég er ansi hræddur um, að hann reynist í þessu máli eins og hann hefir stundum reynzt áður, of vitur. Hann treystir of mikið á sín sniðugheit. Hann heldur, að hann geti snúið framsóknarmönnum og jafnvel sjálfstæðismönnum inn á hitt og þetta með allskonar sniðugum lögskýringum, og með því að þetta frv. verði götótt. En ég vil bara vara hann við þessu. Þegar þessi vinnulöggjöf er komin í framkvæmd, þá breyta þessir sömu menn löggjöfinni. Ég viðurkenni, að ýms göt eru á þessari löggjöf. sem við getum notað okkur, og verður óspart gert. En ég er jafnviss um það, að ekki bíður lengur en til næsta þings, að Íhaldið og Framsókn stoppa í götin. Við sjáum hvernig gengur um l. um atvinnu við siglingar og l. um iðnaðarmenn o. fl. Við sjáum, að þegar einhver l. eru sett til góðs fyrir verkalýðinn, þá er í byrjun næsta þings byrjað að skemma þau. Hvað verður þá um þessi? Þess vegna er betra fyrir hv. þm. N.-Ísf. að hugsa ofurlítið um framtíðina í sambandi við þetta, — að athuga ekki bara yfirstandandi þing, ekki bara samninga viðvíkjandi tryggingarstofnunum og banka, heldur hvernig líta mun út um vinnulöggjöfina á næstu þingum, þegar búið er að koma þessum grundvelli á. Þá þurfa hvorki framsóknarmenn né íhaldsmenn að halda á stuðningi þessara hægri manna í Alþfl. Þá geta þeir komið hverju sem þeir vilja í gegn af eigin rammleik. Nú þurfa þeir stuðning, — ekki vegna þingmeirihlutans, heldur vegna verkamannasamtakanna, til þess að hafa einhvern hluta verkamannasamtakanna með sér. Íhaldsmeirihlutinn hefir sagt það í sinni grg. fyrir vinnulöggjafarfrv. því, sem hann flytur, og einnig stundum í ræðum, að ekki sé hægt að setja vinnulöggjöf á móti vilja verkamannasamtakanna. Og það er vitanlega ekki hægt, ef þau standa sameinuð á móti. Þess vegna er spursmálið um það einmitt nú á þessu augnabliki, hvort hægt er að hindra vinnulöggjöf á Íslandi eða ekki. Ef verkalýðshreyfingin stendur sameinuð á móti því, þá mundi það ekki verða gert. Það er ég sannfærður um. Hinsvegar, þegar búið er að brjóta þetta skarð með þessari löggjöf, þá er hægt að gera hana verri og verri með hverju ári. Og það er það, sem hv. þm. N.-Ísf. og hans menn ættu að hugsa um. Þeir sjá fyrir sér breyt., sem gerðar voru á síldarbræðslulögunum á síðasta þingi, breyt., sem nú er verið að gera á l. um atvinnu við siglingar. l. um iðnaðarnám, l. um verkamannabústaði. Öll þessi 1. er verið að gera verri. Og þetta sama vofir yfir þessari löggjöf. Og þess vegna er það, að nú gætu hægri menn unnið alveg afgerandi stórt verk fyrir íslenzka verkalýðshreyfingu með því að standa á móti þessari löggjöf. Það er þeirra tækifæri nú. Seinna munu þeir ekki ráða neitt við þetta. Þá eru þeir líka — það er ég sannfærður um — búnir að vinna það verk, sem Íhaldið og afturhaldið í Framsókn ætlar þeim, og þá verður þeim líka sparkað af sinum flokki, þá verður íhald og Framsókn búin að mynda stjórn og gera þá vinnulöggjöfina ennþá margfalt verri en þessi er. Þess vegna er það augnablik, sem nú er, svo dýrmætt, ef verkalýðurinn vildi standa sameinaður á móti. Þess vegna er það óheillaverk, sem seint eða aldrei verður bætt, ef hægri menn halda fast við að knýja þessa vinnulöggjöf fram.