26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Vilmundur Jónsson:

Ég mun nú reyna að fella af þessar þýðingarlausu umræður, og það því fremur sem mjög bráðlega gefst tækifæri til að halda umræðum um málið áfram fyrir miklu fleiri áheyrendum en hér eru viðstaddir. Ég til aðeins segja hv. 5. landsk. það, að það er alveg rétt, að ekki hefir verið mikið rætt um, hvaða réttarbætur eru fengnar íslenzkum verkalýð með þessari löggjöf. Það verður gert betur siðar. Til þess að fella rétta dóma um þær réttarbætur, er nauðsynlegt að athugað sé, hver réttarstaða verkalýðsins og samtaka hans er nú að löggjöfinni ósettri. Og þá kemur í ljós, að sá réttur er í raun og veru enginn. Það er því ekki úr háum söðli að detta. Og ef athugað er gaumgæfilega, ætla ég að bert verði — enda skal það verða sýnt —, að hér er um þýðingarmikinn aukinn rétt að ræða. Ég ætla að nefna aðeins eitt, sem hv. þm. og fleiri hafa minnzt á, stjórnarskrána og félagsréttinn. Rétt eiga menn á, samkv. stjskr., að stofna félög í löglegum tilgangi. Nánar er þetta ekki skilgreint. Og það er í fyrsta skipti í þessum l., að því verður slegið föstu, að verkalýðsfélögin séu félög stofnuð í löglegum tilgangi. það hefir fallið dómur í Danmörku, — en þar er samskonar ákvæði í stjskr. — þar sem verkalýðsfélag var dæmt ólöglegt. Og hér þarf nú ekki nema tilsvarandi hæstaréttardóm til að leysa upp verkalýðsfélögin, þrátt fyrir ákvæði stjskr. Þetta er aðeins lítið atriði, sem ég bið hv. þm. að taka vel eftir.

Þá er þessi sami hv. þm. haldinn af sérkennilegri hjátrú um það, að ákvæði um tiltekinn aukinn meiri hl. til gildra samþykkta undir vissum kringumstæðum sé einhver sérstök árás á lýðræðið. Þetta er hin mesta fjarstæða. Slík ákvæði eru viða sett einmitt til þess að tryggja lýðræðið. það er enginn lýðræðislegur réttur í því fólginn, að mjög lítill hluti af stóru félagi geti gert þýðingarmiklar ákvarðanir fyrir félagsheildina. Það er t. d. áskilið í brtt., sem hv. 3. þm. Reykv. flytur. að meiri hl. af 20% af meðlimum verkalýðsfélags, saman kominn á fundi, geti ákveðið verkfall, þ. e. a. s. liði. 10% af félagsmönnum. Meira að segja gæti þó nokkur hluti af þessum 20 c setið hjá, eins og gengur og gerist. Er þá e. t. v. hægt að ákveða hið þýðingarmesta verkfall með atkv. 5–6% félagsmanna. Þetta er slíkt ákvæði, að ég geri ekki ráð fyrir, að nokkurt félag gengi þannig frá l. sínum, þó að leyft væri. Mætti þá að vísu segja, að ákvæðið spillti engu, félögin myndu gæta sin sjálf. En það er ekki aðeins vandalítið, heldur þýðingarlítið að setja h, ef ekkert er skeyt um, hvort ákvæði þeirra hafa nokkur áhrif eða engin, að ég ekki ræði það, sem sumir hv. þm. tala nú hátt um í sambandi við þetta mál, og þó að þeir hafi nokkurra ára þingreynslu að baki, að mestu skipti að bera fram till. til að sýna vilja sinn, en láta sig hitt minna varða, hverju hægt er að koma fram, og kann þetta að vera góð latína fyrir kommúnista. — Þá vil ég fræða hv. þm.. sem hér eru tiltölulega nýir, um það, að svo „hlægileg“ ákvæði eru í þingsköpum Alþingis, að 2/3 atkv. þarf til að samþ. lög í Sþ. (EOl: Bara undir sérstökum kringumstæðum). Það talar heldur enginn um, að aukinn meiri hl. ráði, nema undir sérstökum kringumstæðum. t. d. þegar fundarsókn er mjög litil, en kveða skal á um þýðingarmikil atriði.

Hv. 5. landsk. hugði (sem ég ætla hann hafi nokkuð fyrir sér í 1, að þeir menn, sem af hæstarétti yrðu skipaðir í félagsdóm, mundu yfirleitt fremur vera líklegir til að halla á verkamenn og verkamannasamtökin en atvinnurekendur í þeim dómum, sem þeir fella. En hér hendir hv. þm. það sama og oft áður. Hann talaði um þetta út af fyrir sig, en bar ekki að neinu leyfi saman við það ástand, sem ríkir, áður en þess 1. koma til. Eru dómarar, sem hæstiréttur tilnefnir, ásamt dómurum, sem m. a. Alþýðusambandið tilnefnir, líklegri til að halla meir á verkalýðinn heldur en hæstiréttur sjálfur? Það, sem þessi félagsdómur á að dæma um, eru meðal annars mál, sem annars gætu farið til hæstaréttar. Að því slepptu, að verkalýðurinn hér myndi oft vegna kostnaðar ekki treysta sér til að freista að leita réttar síns með því að skjóta máli til hæstaréttar. En með félagsdómi verður slíkt með öllu kostnaðariaust. Enn fremur hefir það í mörgum tilfellum höfuðþýðingu, að slíkur málarekstur ljúkist án tafar, sem vel er séð fyrir með ákvæðunum um félagsdóm.

Sami hv. þm. sagði, að dómarar ættu að dæma eftir bókstaf l., og hann hefði aldrei heyrt þess getið, að túlkun laga í meðferð Alþingis hefði haft áhrif á dómsúrslit. Ég skal fræða hann um það, að bókstaf l. er stundum erfitt að skilja, og þá fara allir dómarar þá leið. að leita eftir skilningi löggjafans. Er þá einmitt fyrst leitað í þingskjölum, grg., nál. og ræðum, sem haldnar hafa verið hér á hv. Alþingi, þegar málið var flutt. Ætla ég í rauninni, að mesta þýðingu hafi, hvað frsm. segir fyrir hönd meiri hl. n. En það mun líka hafa ekki litla þýðingu, — og þess vegna vil ég ráðleggja hv. þm. ... (EOl: Látið þið framsögumanninn tala varlega; hann talar eintóma þvælu.) Ég hygg að það hafi nokkra þýðingu, ef þeir, sem tala máli þess aðilja, sem I. yrðu frumkvæmd gegn, verða staðnir að því að hafa lagt þann skilning í h, sem þeim aðilja er hættulegur. (HV: Þetta á að verða til að kæfa gagnrýnina!) Það, sem ég skoða mitt hlutverk, er að mótmæla allri þessari túlkun. allri þessari verkalýðnum fjandsamlegu túlkun á ákvæðum l. hjá kommúnistum í þessari hv. deild og hv. 3. þm. Reykv. Gagnrýni þeirra er ekki sprottin af því, að þeir leiti að réttum skilningi á þessu lagafrv. Það er þvert á móti þeirra hlutverk að snúa út úr og afflytja sem allra mest. Og fyrir það, að þetta kemur svo ljóslega fram og því er mótmælt, vænti ég, að ekki verði hægt að nota þeirra afstöðu til ofsóknar á verkalýðinn, sem við þessa löggjöf á að búa. En það er þeim að þakkalausu.

Því miður er hv. þm. Snæf. farinn af fundi, svo að ég get lítið minnzt á ræðu hans. En af því að hann brá mér mjög um ókurteisi fyrir að hafa lesið úr þingtíðindunum ummæli látins þm.. verð ég að fá leyfi til að segja, að vandlifað er hér á hv. Alþ., ef ekki má snerta við að lesa ræður látinna þm. Er hætt við, að þá yrði að innsigla nokkuð marga árganga þingtíðindanna. ef ekki má eiga á hættu að lenda einhvern tíma á slíkum ræðum. Hv. þm. Snæf. myndi ég hafa sagt, hefði hann verið viðstaddur, að þá fer afstaða hv. sjálfstæðismanna til vinnulöggjafarinnar að verða nokkuð grunsamleg, ef ærumeiðandi er fyrir framliðna heiðursmenn að láta heyrast, hvað þeir hafa sagt, þegar þeir hafa verið að flytja vinnulöggjafarfrv. Sjálfstæðisflokksins hér á hv. Alþingi.

Þá vil ég mótmæla því, að ég hafi neitað að skrifa undir nál., og er nokkuð bíræfið að segja það, þar sem nál. hefir komið hér fram með minni undirskrift. Þessu er snúið þannig við að það voru sjálfstæðismenn, sem neituðu um undirskrift sína. Þeir fólu framsögumanninum að ganga frá nál. án nokkurs fyrirvara. Ég áskildi mér hinsvegar að gera sérstaka grein fyrir minni afstöðu, sem ég þegar gerði. En þegar þeir sáu nál., sem meiri hl. n. fylgir og hafði ekkert að athuga við, neituðu sjálfstæðismennirnir að skrifa undir það, og kostaði þetta talsverða rekistefnu. Þeir vildu eftir á bæta inn í nál., en það var ekki hægt nema þeir, sem undir það áttu að skrifa, sæju hvað þeim var ætlað að skrifa undir. Þannig liggur í því máli.

Því vil ég til fróðleiks fyrir sagnaritara mótmæla því, að ég hafi aldrei komið nálægt kaupdeilu. Ég er líklega svo söguleg persóna. að ég stjórnaði einu fyrsta eiginlega verkfallinu hér á landi, og fékk af því nokkuð mikla og að ýmsu leyti sérkennandi reynslu. Ég ætla að þetta hafi verið mörgum árum áður en hv. 3. þm. Reykv. kom nálægt slíkum málum. (HV: Hvenær var það?) 1915 að ég hygg. (HV: O, þá hafði ég verið í vekfalli!) Og það hygg ég ekki hafi verið.

Í þessu sambandi get ég svo minnzt á það, sem hv. 5. þm. Reykv. tileinkaði mínum hugsunarhætti, og ég mótmæli að öllu leyti, sem hverri annari fjarstæðu, og er það í rauninni svívirðilegur áburður, að ég sé á móti öllum samtökum. hað er nokkurn veginn sama sem að segja, að ég væri hreinn villimaður eða verra en það.

Þá kem ég að því, að ég átti ekki að hafa leyfi til að vitna til alþýðusambandsþingsins í sambandi við vinnulöggjöfina, þar sem ég hefði ekki átt sæti þar sem fulltrúi. Það er alveg satt, að ég hefi litið borið mig eftir fulltrúastörfum þar sem annarsstaðar. Að ég hefi þó stundum verið fulltrúi manna. hefir verið fyrir það, að aðrir hata sótt eftir mér til þess starfs meira en ég eftir því, og er það kannske öfugt við suma, sem maður hefir unnið með. Mín heimild um Alþýðusambandsþingið eru þingtíðindin, og svo náinn kunnugleikur við marga fulltrúa, þar á meðal ekki sízt hv. 3. þm. Reykv. Og ég hefi meira af upplýsingum frá þessu sambandsþingi. Afstaða hv. 3. þm. Reykv. þar til þessa máls var nokkuð sérstakleg. Því að hún var hvorki annað né minna en það, og hann barðist fyrir því, að þingmenn Alþfl. og alþýðusambandsstjórnin fengju fullt og ótakmarkað umboð til að afgreiða vinnulöggjöf sína. Og hann vildi alls ekki. að málið yrði borið undir verkalýðsfélögin. Þetta var af skiljanlegum ástæðum. Það var af því, að í verkalýðsfélögunum, einu og öðru, eru ákveðnir andstæðingar Alþfl., sem vitað var um, að myndu af pólitískum ástæðum afflytja hverja þá vinnulöggjöf, sem A1þfl. væri á einhvern hátt við kenndur. Í verkalýðsfélögunum eru bæði kommúnistar og íhaldsmenn, og jafnvel nazistar. Og fundasókn í þessum félögum er sú, ekki sízt einmitt fyrir háttalag þessa fólks, að mjög margt af félagsmönnum hefir lagzt frá að sækja fundi. Hv. 5. þm. Reykv. vissi vel af dýrkeyptri reynslu, að það var oft og tíðum undir hælinn lagt, hvernig atkvgr. gæti fallið um slíkt mál, ef æsingum og skvaldri yrði beitt og þeim vinnubrögðum við atkvgr.. sem of oft á sér stað í þessum félögum, þar sem það fólk, sem hefir tíma til þess, lætur móðan mása fram á nótt, þangað til búið er að flæma flesta vinnandi verkamenn burt, og þá rokið til atkvgr., þegar bezt gegnir fyrir þessa óróaseggi. (HV: Var þetta ekki Baldur á Ísafirði nýlega?) Hv. 3. þm. Reykv. þarf ekki að vera með nein látalæti frammi fyrir hv. þdm., og sízt að mér áheyrandi. Ég hefi svo oft hitt hann hart leikinn af þessum lýð. Og hann verður að fyrirgefa mér, þó að ég beri svona hæfilega „respekt“ fyrir mörgum þeim samþykktum, sem fengnar eru á þennan hátt í félögunum.

Þá vil ég leiðrétta það (það er sjálfsagt mín sök, að ég hafi borið of fljóti á og ekki verið nógu skýr í máli) er hv. 3. þm. Reykv. bar á mig, að ég hefði sagt, að við fylgdum vinnulöggjöf af því, að við styddum ríkisstjórnina, eða eitthvað slíkt. Ég hefi aldrei sagt neitt í þá átt. Ég minntist á það, að afstaða okkar til þessarar vinnulöggjafar væri kunn, bæði af því, að Alþfl. hefði átt þátt í undirbúningi frv., og að það væri kunnugt, að ríkisstjórnin, sem nú situr, hefði tilkynnt það, þegar hún tók sætið, að hún legði áherzlu á það að fá afgreidda vinnulöggjöf á grundveili þessa frv. Og meira að segja, það er ekki laust við, að hv. 3. þm. Reykv. og kommúnistar hér í hv. deild hafi í því sambandi tekið einkennilega afstöðu til ríkisstjórnarinnar, ef þetta lagafrv. er í þeirra augum svo háskalegt, eins og þeir nú láta í veðri vaka. Hvernig stendur á því, að þessir menn, sem kalla þetta þræla- og kúgunarlög, fá sig ekki upp í það, þegar stj. leitar eftir trausti og segir, að vinnulöggjöfin verði sitt fyrsta mál, er hún muni láta samþ. þegar á þessu þingi, — hvernig stendur á því að þeir fá sig þá ekki upp í það, að greiða atkv. með vantrausti á slíka stj.? Nei, þeir láta sig hafa það að sitja hjá. Meiri áherzlu lögðu þeir ekki á andstöðu sína gegn vinnulöggjöfinni. Þessi afstaða getur ekki skilizt öðruvísi en þannig, að þeir eftir atvikum geti sætt sig við vinnulöggjöfina, og hlutleysi þeirra verður að skiljast svo, að þeir séu hlutlausir gagnvart þessari vinnulöggjöf.

Þá spurði hv. þm. um það, hvaða ástæða væri til þess fyrir mig, ef ég óskaði eftir því, að frv. væri breytt þannig, að það gengi lengra til móts við óskir verkalýðsins, að flytja þá ekki slíkar brtt. Ástæðan er sú, að mér þykir ekki mikið atriði í þessu sambandi, úr því að vinnulöggjöf verður afgr. frá þessu þingi, að flytja við frv. brtt., sem engin von er um að fá samþ. Það geta þeir gert hinir ábyrgðarlausu menn, eins og hv. 3. þm. Reykv. og kommúnistar. Aðalatriðið fyrir mér er, hvaða breyt. er hægt að koma fram til hagsbóta fyrir verkalýðinn. Nú get ég frætt hv. þm. um það, að hér er ekki eingöngu um það að ræða, hvort slíkar breyt. komast á eða ekki. Hér er hvorki meira né minna en um það að ræða, að eini möguleikinn til þess, að ekki verði hér afgr. verri vinnulöggjöf, ef til vili stórum verri en þó að þetta frv. yrði samþ. óbreytt, er það, að samstarf geti haldizt um afgreiðslu þessa máls milli Alþfl. og Framsfl., og ég veit vel, hvaða áhrif það hefir á úrslit málsins, ef Sjálfstfl. fær nokkuð um það að segja.

Hv. þm. talar hér eins og ég sé í Framsfl., er geti látið mig gera, hvað sem honum þóknast, en í hinn orðinu talar hann eins og Framsfl. sé í mér, og ég geti látið hann gera, hvað sem ég vil. „Hvernig stendur á því“, segir hv. þm., „að þetta er ekki haft svona og svona, fyrst hv. þm. N.-Ísf. vill það?“ Þá er ég allt í einu orðinn hæstráðandi yfir Framsfl. Ég vil bara geta þess, að hvorugt af þessu á sér stað, að ég sé í Framsfl. né að Framsfl. sé í mér. Hitt er sönnu nær, að ekki sé gott að greina, hvort hv. 3. þm. Reykv. er í Kommfl. eða Kommfl. í honum.

Hv. 3. þm. Reykv. taldi mig gera of mikið úr sér, þegar ég skrifaði á hans reikning, hver mótstaða hefði fengizt í ýmsum verklýðsfélögum móti þessu frv. Nei, ég geri ekkert mikið úr honum, því að eins og ég sagði áðan, þá vita menn, að í Dagsbrún. sem hv. þm. segir, að svo að segja hver einasti verkamaður í bænum sé kominn í, þar er svo og svo mikið af verkamönnum. sem eru í ýmsum öðrum flokkum en Alþfl., jafnvel í fl., sem ekki kenna sig við verkalýðssamtökin. Fyrir utan kommúnista eru þar allmargir sjálfstæðismenn og þó nokkrir nazistar. Mér er sagt, að í þessu félagi, undir stjórn hans, sé nú í fyrsta sinn búið að stofna til pólitískrar íhaldsstarfsemi. Og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá þarf ekki mikinn bóg, þegar svona er ástatt, til að gera þar nokkurt skurk, til fjandskapar við Alþfl., meðan menn hafa ekki almennilega áttað sig á, hvað er að gerast.

Hv. þm. spurði, hvers vegna ekki væri látin fara fram allsherjaratkvgr. í öllum félögum um vinnulöggjöfina. Þessi sami hv. þm. barðist á móti því með oddi og egg á alþýðusambandsþinginu 1936, að vinnulöggjöfin væri borin undir nokkurt verklýðsfélag. Alþýðusambandsstjórnin og alþm. áttu að ráða fram úr því. Og hefir hann fengizt til að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu í Dagsbrún?

Ég þarf ekki margt að segja við hv. 5. þm. Reykv. um afstöðu hans til þessa máls. Ég ætla, að hann skilji hana illa sjálfur. Það er ekki alltaf sem bezt samræmi í ræðum hans, sem eru þó haldnar hér með stuttu millibili, að ég ekki tala um, ef eitthvað líður á milli umr. Ég tók þó nokkuð eftir ræðu hans við 1. umr. málsins. Þá sagði hann og lýsti því beinlínis yfir sem grundvallarstefnu Kommfl., að hann væri alveg skilyrðislaust á móti hverskonar vinnulöggjöf, og í fyrstu ræðu sinni í dag, eða réttara sagt í nótt, undirstrikaði hann þetta. Við 1. umr. sagði hann meira en þetta, því að hann tók beinlínis dæmi um, að ekkert þýddi að setja lög fyrir verkalýðinn, því að hann væri alltaf svikinn um framkvæmdirnar. Og niðurstaðan var þessi: Þegar verkalýðssamtökin eru nógu sterk, þurfa þau ekki neina aðstoð í l., en þegar þau eru of veik, gagnar þeim ekki aðstoð l., því að þau eru þá svikin um hana.

Þá á ég aðeins eftir að minnast á það, sem hv. þm. sagði um, hvaða verkföll yrðu heimil, eftir að vinnulöggjöfin yrði sett, og vildi túlka ákvæði frv. svo, að ef brotið væri á móti atriði, sem heyrði undir félagsdóm, þá mætti ekki stofna til verkfalls út af því. Það má vel vera. En það er alveg sérstakur skilningur á verkföllum, ef það á að vera út af fyrir sig eftirsóknarvert að fá að gera verkfall, jafnvel þó að það sé óþarfi. Ef í samningi er eitthvert tvímælalaust ákvæði um atriði, sem dómurinn getur ekki dæmt nema á einn veg, þá virðist ekki þörf á að gera verkfall út af því atriði. En ef verkalýðsfélag óskar ekki eftir að binda hendur sínar með ákvæði í samningi, um atriði, er það vill ekki, að heyra skuli undir félagsdóm, þá setur það ekki slík ákvæði í samning. Ef verkalýðsfélag álítur, að mótaðili hafi brotið ákvæði samnings, þá er betra að geta vísað til félagsdóms en að þurfa að leggja út í verkfall út af því, því að það er ekki eins og verkföllin út af fyrir sig séu eftirsóknarverð. — Auk þessa get ég frætt hv. þm. um, að til er nokkuð, sem heitir neyðarréttur. Þannig er í Danmörku um allt, er að þessu lýtur, miklu strangari reglur en í ráði er að setja hér, t. d. er verkfallsfresturinn þar miklu lengri. Engu síður hafa fallið hæstaréttardómar hjá Dönum, sem hafa dæmt verkföll lögleg, þó að til þeirra væri alls ekki stofnað með löglegum fyrirvara, og dómarnir stuðzt við það, að verkföllin hafi risið út af því, er varðaði heilsu, líf og velferð verkamannanna. Og er hér um það að ræða, sem kallað er neyðarréttur. (EOl: Brýtur hann þá l.?) Það er ekki lagabrot, því að það á sér fulla stoð í l., að ganga gegn bókstaf l., ef það er til verndar lífi eða velferð manna eða einhverju, sem því samsvarar. Þetta þekkja læknar vel, sem oft verða að styðjast við neyðarrétt. T. d. var til skamms tíma skilyrðislaust bannað í l. að taka fóstur af lífi, og varðaði margra ára fangelsisvist. En það hefir verið túlkað svo, að ef fóstur væri deytt til að bjarga lífi móðurinnar, þá væri hver læknir, sem það gerði, sýkn saka, og hefir aldrei verið litið öðruvísi á.

Ég geri ekki ráð fyrir að taka aftur til máls við þessa umr. Ég ætla, að málið liggi eins ljóst fyrir og það getur orðið. Svo þakka ég fyrir viðskiptin og vona, að við hittumst heilir við næstu umr. þessa máls.