26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Héðinn Valdimarsson:

Það er aðeins örstutt aths. til hv. þm. N.-Ísf. Hann sagði, að ég hefði beitt mér fyrir till. um ótakmarkaða kauphækkun, sem hefði aldrei verið afgr. í verkalýðsfélögunum á neinn hátt. Því er til að svara, að till., sem samþ. var á alþýðusambandsþinginu, var orðuð af mér og skrifuð af mér og ætlazt til, að málið kæmi þar fyrir, svo að ég veit ekki, hvaðan hann hefir þennan fróðleik sinn. Ég man ekki til, að hann væri þá þarna neinsstaðar á gægjum.

Hv. þm. spyr, hvers vegna ég hafi tekið hlutleysisafstöðu gagnvart stj., þar sem ég hafi vitað, að hún mundi koma fram með þetta frv. Ég vissi um frv., en ég vissi ekki, hvernig afgreiðslu það mundi fá, og ég hefi ekkert sagt um áframhaldandi hlutleysi stj. til handa. Ég er ekki, eins og hv. þm. N.-Ísf., fæddur fylgismaður stj. Ég veit ekki heldur, hvar honum mundi vera komið, ef hann væri þar, sem hann gæti engu komið fram. Það er ekki svo mikið. sem hann og hans fylgismenn koma nú fram; það getur verið, að hann geti komið einhverju smávægi fram í fjvn.

Viðvíkjandi því, sem hann sagði um Dagsbrún og verkalýðsfélögin, vil ég aðeins segja, að hann virðist ganga sem blindandi maður um bæinn, sem hann býr í. Það þarf ekki kunnuga menn til að vita, hverskonar lið það er, sem kemur í alþýðuflokksfélögin, það er samskonar lið og er í skemmtifélaginu Óðni, en þeir, sem hafa staðið í verkalýðsbaráttunni, það eru þeir, sem eru vinstra megin.

Ég hefi svo ekki mikið meira um þetta að segja. Hann getur náttúrlega brugðið mér um, að ég hafi ekki gengið með sér og því, sem hann kallar Alþfl., sem hann kallar sig og þá 6 menn aðra, sem eru með honum í þessari d., en ég get sagt, að hann og þeir hafa brugðizt þeim A1þfl., sem ég vil viðurkenna, sem er fólkið, Alþfl. í landinu.

Með þessum orðum vil ég bjóða góða nótt. Umr. (atkvgr.) frestað.