30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Af hálfu Sjálfstfl. munum við tveir, hv. 8. landsk. og ég, skipta milli okkar þeim ræðutíma, sem hverjum flokki er afmarkaður við útvarpsumræður þessar.

Ég mun hér drepa nokkuð á það, sem kalla mætti forsendur þeirrar vinnulöggjafar, sem hér er gert ráð fyrir að setja, sem sé með fyrirliggjandi frv. um stéttarfélög og vinnudeilur, sem fram er borið af Framsfl., en af hálfu Alþfl. var þó einnig unnið að undirbúningi þess, að því er heitir, í stjórnskipaðri nefnd. Um ýms atriði málsins mun hinn fulltrúi Sjálfstfl. tala í seinni tímanum í kvöld.

Alþfl. hér á Alþ., er svo nefnir sig enn, hefir óskað eftir útvarpsumræðum um vinnulöggjöfina. þeim finnst að vonum, þm. hans, að þeir standi nokkuð höllum fæti í þessu máli gagnvart öllum almenningi, og má því ætla, að þeir hafi nú hugsað sér að þvo hendur sínar frammi fyrir lýðnum. Það mun nú verða bert eftir kvöldið í kvöld. hvernig þeim tekst það.

En ekki sízt hina almennu hlið málsins er nauðsyn að reifa hér að nokkru í allra áheyrn. „Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða“, segir gamalt orð, sem túlkar þá fyrstu og sjálfsögðustu undirstöðu undir hverju siðuðu þjóðfélagi. Öllum mönnum, sem komnir eru til vits og ára, er orðin ljós nauðsyn þessarar grundvallarreglu; aðeins glæpamenn og stjórnleysingjar virða hana að vettugi. Og þessi regla er algild, því að hún á við á öllum sviðum málefna þjóðfélaganna. Fyrir öllu samlífi manna á milli, öllum viðskiptum og öllum tiltektum, verða að vera einhverjar reglur, sem skylt er að fylgja ávallt, þegar með þarf, lög sem menn setja sér og framfylgja ber. Ef ekki væri þessu fylgt, væri allt í upplausn, og þá myndi ríkja hin frumstæðasta villimennska, enginn óhultur og engu óhætt, hvorki lífi né limum, eignum eða verkum, engu, heldur myndi með lagaleysi og agaleysi slík óöld skapast, sem orð fá ekki lýst, en reyndar er þó farið að móta nokkuð fyrir hér hjá oss.

Þessum, sem kalla mætti hin almennu sannindi, mun nú enginn dirfast að neita, þ. e. a. s. svo lengi sem talað er almennt. Enginn, jafnvel ekki hinn hatrammasti bófi, myndi með öllu afneita þessu lögmáli yfirleitt. En á ýmsum sérstökum, alveg opinberum sviðum, virðast þó sumir menn, jafnvel svokallaðir „flokkar“, vilja gera þá undantekningu, að þar þurfi ekki að gilda lög, heldur megi jafnvel láta hendur skipta, sem hér hjá oss á síðari öldum er þó tiltölulega nýlegt villimennskufyrirbrigði. Þessir menn vilja ekki láta setja lög um verk og vinnu, heldur eigi menn þar að hafa leyfi til að skapa sér sjálfir „rétt“ í hvert skipti eða komast undan „skyldum“, eftir því sem henta þykir. „Þjóðfélagið“ eða þjóðfélagsvaldið þurfi ekki að skipta sér af því, sem einstaklingar eða félög taki sér þar fyrir hendur.

Þegar rætt hefir verið hér á landi um vinnulöggjöf á undanförnum árum, má segja að Alþfl. íslenzki (sósíalistar) hafi fram að þessu, og þá ekki síður en hinir hreinu kommúnistar, orðið ókvæða við, og tekið öllum till. til þess að ráða bót á því óskaplega ástandi, sem ríkt hefir hér í þessum efnum, með fullkomnu samvizkuleysi. Af hálfu Sjálfstfl. hefir nú þing eftir þing, eins og kunnugt er, verið borið fram á Alþ. frv. til vinnulöggjafar, sem í öllum atriðum, er máli skipta, er í fullkomnu samræmi við það, er gildir í lögum um öll Norðurlönd, og sumpart er samið og sett og sumpart eftir á eða í framkvæmd samþykkt af alþýðuflokknum þar, sjálfum sósíalistum, enda hafa þeir nú um alllanga hríð haft öll völd í þessum efnum til þess að velja og hafna, innan löggjafarþinganna og utan, einir eða með aðstoð annara flokka. En svo langt er í frá, að þeim hafi komið til hugar að afnema verkamálalög sín, að þeir hafa beinlínis aukið þar við og talið sér það hina mestu fremd og ærinn styrk. Og jafnvel hafa þeir engan veginn skirrzt við, síðan þeir tóku að hafa stjórnarábyrgð og er þeim þótti við þurfa vegna alþjóðarheilla, að lögfesta við sérstök tækifæri miðlunartillögur um ákveðið kaupgjald eða beinlínis gerðardóm til þess að útkljá kaupkröfur.

En hvernig hefir þá þessum eða slíkum tillögum verið tekið hér? Það er nú að vísu orðið alkunnugt mál og ýmislegt í því frægt að endemum, hvernig sósíalistar hafa snúizt við þessu, en Framsfl. hefir einnig fram að þessu sýnt sig linan í aðgerðum og of lengi látið rauðasta liðið í samstarfsflokknum tefja sig í því, að sinna í alvöru þessu þjóðnytjamáli. Í staðinn fyrir að taka undir þessar till. frá sjálfstæðismönnum með nokkurum velvilja því opin var ávallt látin leið að semja sig áfram til þess að gera málið sem aðgengilegast öllum aðiljum — þá gerðu einkum alþýðuflokksmenn hróp að því og svívirtu þá, sem að því stóðu, og affluttu aðgerðir þm. við allan verklýðsfélagsskapinn úti um land allt. Þeir heimtuðu visvitandi, eins og þeirra er siður og eins og þekkist frá öðrum málum, t. d. tryggingarlöggjöfinni, að félögin hér og þar gerðu vanhugsaðar ályktanir að rakalausum mótmælum gegn löggjafartillögum, sem þau ekkert höfðu kynnzt til hlítar, mótmælum sem síðar voru endurtekin í blöðum þeirra sem sjálfstæður andróður. Og þessum óþurftarskrípaleik er að nokkru leyti haldið áfram enn í dag, með dálitið breyttu viðhorfi.

Hvers vegna gerðu þeir þetta, menn sem áttu að vera ábyrgir fulltrúar þjóðarinnar? Af hræðslu! Þeir vissu vel, að það er samvizkulaust að berjast eins og naut í flagi gegn réttmætri vinnulöggjöf, en þeir voru bæði hræddir við sinn eigin ósvífna áróður í þessum málum, að honum slægi nú til baka á þá aftur, og einkum óttuðust þeir um sjálfa sig, að þeir myndu missa æsingartökin á hinum uppæsta lýð.

Eins og kunnugt er, þá byggist vald sósíalista og kommúnista yfir fólkinu á því, að ekki verði stillt til friðar í verkamálum þjóðfélaganna. Þeirra atvinna er að blása að kolunum, halda við æstu báli verkfalla og vinnudeilna, með ávallt endurteknum og látlausum kröfum um breytt og betri kjör, sem flestum þykir dælt að kjósa sér til handa, allt án tillits til ástæðnanna í þjóðfélaginu að öðru leyti. Og meðulin sem þeir vilja helzt óáreittir nota, eru rógur og hatrammt níð um aðrar stéttir og hóflaust hól um eigin verk og þá, sem fást til að flykkjast undir þeirra merki. Þeir þykjast vera verndarar fólksins og aðrir séu þess kúgarar.

En ef friður, vinnufriður, kæmi? Já, þá vantar ef til vill sundrungina, úlfúðina til þess að ala á, og þá er minni von um gengi þeirra, sem eiga „foringja“- upphefð sína að þakka þessu þarfa handverki. Þeir gætu sem sé orðið „atvinnulausir“, sem í þessu tilfelli fáir góðir Íslendingar myndu harma.

Það er nú gefið, að þeir héldu í fyrstu, sósialistar hér, að þeim myndi takast með offorsi sínu að binda Framsfl. í báða skó. Þeir hugsuðu sér þá framsóknarmenn sér svo nátengda, að ekki gæti eða mætti til útbrota koma. En hvað verður? Það, að Framsfl. fann þrátt fyrir allt, og með forsrh. Hermann Jónasson í fararbroddi, að þeir voru ekki „af sama hlóði“ og hinir ofstopafullu marxistar. Hann tók sér fyrir, forsrh., að boða hátíðlega, og reyndar ítrekað, að nú myndi hann gera gangskör að því að koma á vinnulöggjöf í landinu, og að því rak, að það varð meira en orðin tóm. Framsfl. varð, vegna kjósenda sinna, eigin hagsmuna og þá líka hinna ríku þjóðfélagshagsmuna, að láta til skarar skriða. Hann varð að fara að vinna að málinu. Og þá varð ekki hjá því komizt, að

Alþfl. varð að dansa með, ella myndu vegir alveg skiljast og þeim fyrr en til stóð varpað fyrir borð af þeim fleytum, sem enn sigla á hinu úfna stjórnarhafi.

Þannig varð til frv. það, sem hér liggur fyrir, að formi til fram borið af framsóknarmönnum, en með svokölluðum atbeina Alþfl. (að vísu með allmiklum straumi og skjálfta),að frádregnum hinum nýja einherja, hv. 3. þm. Reykv., Héðni Valdimarssyni, sem nú skipar sér hlið við hlið hálf- eða al-bræðra sinna, kommúnistanna, þar sem hans mun að leita þangað til, að einnig þar „hræður munu berjast“.

En þeir eru einnig þar vitaskuld í vanda staddir.

Alþýðuflokkssósialistarnir, höfuðlaus her, því að þeirra eigin fortið gengur aftur og hamrar á þeim aumum. Megnar nú litt móti að standa „útdreginn“ ráðherra og örkumla lið. Þeir hafa nú orðið að beygja sig undir löggjafarstefnuna í verkamálum; og þó að þeir þykist nú vilja gera það með hagsmuni hins vinnandi fólks fyrir augum, þá dynja nú á þeim sömu ókvæðisorðin, er þeir höfðu áður notað á andstæðingana til hægri: Svikarar heita þeir nú á Héðinskomma-máli, „svikarar við málstað fólksins“, höfundar „þrælalaga til þess að kúga verkalýðinn“, „argir þjónar íhalds og auðvalds“, og þar fram eftir götunum. Nei, orðbragð þeirra afneitar sér ekki. Og undan því mundu þeir gjarnan vilja „skúlka“. Alþýðuflokks-sósíalistarnir, og við atkvgr. í málinn við 2. umr. hér í hv. deild hafa þeir gert vanmátta tilraun til þess að hlaupast undan merkjum, en voru gripnir á flóttanum. Héðan af eru þeir dæmdir menn. Hafa getið sér óorð bæði til hægri og vinstri.

Eins og oftar en einu sinni áður hefir verið gerð grein fyrir á alþjóðarvettvangi, sbr. m. a. útvarpsræður hv. þm. Snæf., TT, er aðalefnið í tillögum þeim til vinnulöggjafar, sem sjálfstæðismenn hafa flutt undanfarið (má segja vinzað úr Norðurlandalöggjöfinni, sem sósialistar þar hafa staðið að. en þar eru þeir farnir að verða pólitískt siðaðir menn), þetta:

1) Jafnrétti vinnuveitenda og verkamanna er viðurkennt, svo og gildi félagsskapar þeirra.

2) Verkföll og verksvipting, þ. e. öll vinnustöðvun, lúti ákveðnum reglum.

3) Sáttatilraunir í vinnudeilum verði aflmeiri en verið hefir, með auknu valdi sáttasemjara.

4) Stofnaður dómstóll, er skeri úr ágreiningi út af vinnusamningum. án þess að ákvarða nokkuð um kaup verkamanna eða þess háttar.

Frv. Framsfl. (sem hér liggur fyrir — og Alþfl. nú þykist ætla að fallast á, þótt kvíðandi sé) inniheldur óneitanlega í nokkurum mæli allt þetta, þótt í sumum atriðum sé þessu ábótavant og hvergi nærri eins greinagott og tryggilega um búið til réttlátrar niðurstöðu og í tillögum sjálfstæðismanna.

Höfuðatriðin eru áþekk, þessi:

1) Frv. framsóknarmanna viðurkennir jafnréttinn og félagsréttindin.

2) Það viðurkennir og setur ákveðnar reglur um verkföll og verkbönn.

3) Það setur gagngerðari reglur um sáttatilraunir og eykur valdsvið þeirra frekar en áður gilti.

4) Það stofnar til vinnudómstóls — með líkum hætti og sjáifstæðismenn vilja gera (kallar hann „félagsdóm“, en sjálfstæðismenn „vinnudómstól Íslands“).

Þó að það sé greinilegt, að ýmislegt mætti setja út á meðferð framsóknarmanna á málinu og frv. þeirra, þá töldu fullfrúar Sjálfstfl. í hv. allshn. þessarar deildar það falla svo í meginatriðum saman við þeirra tillögur, að þeir lýstu sig því fylgjandi sem vel nothæfri lausn eins og nú standa sakir (þótt þeir til reynslu bæru fram nokkurar brtt. við það). Slíkt hið sama gerir allur Sjálfstfl. á þingi nú; hann telur frv. svo mikilsvert spor í rétta átt, þrátt fyrir ágalla þess, að ekki sé áhorfsmál að fylkja sér um það til úrslita, úr því að þess er kostur að koma því fram. Því að aðalatriðið er vissulega, að þessi mál komist á grundvöll laga og réttar, að ólögum og stjórnleysi verði eytt, svo að sjálft þjóðfélagið ekki tortímist. Að með öðrum orðum óöld sú, sem ríkt hefir í þessum efnum hjá oss, verði landræk ger — og vargarnir í vinnuvéum þjóðarinnar verði óalandi og óferjandi! Það er takmarkið.

Þeir, sem gerast friðspillar og niðhöggvar í atvinnulífi hinnar íslenzku þjóðar, eiga að verða óráðandi öllum bjargráðum!

Það væri ekki ófyrirsynju, ef tími ynnist til, að skjóta hér inn í nokkrum aths. um það, sem kallazt hefir gerðardómur í vinnudeilum. Hvorki sjálfstæðismenn né framsóknarmenn hafa í till. þeim, sem hér um ræðir, farið fram á, að til slíks úrskurðarvalds yrði stofnað, eða gerðardómi, sem ákvæði að jafnaði kaup og kjör, yrði komið á sem fastri stofnun. — Ræði „vinnudómstóll Íslands“ í frv. sjálfstæðismanna og „félagsdómur“ - frv. framsóknarmanna lúta að öðru, — þeirra verksvið er ekki, undir nokkurum kringumstæðum, að ákveða kaup verkalýðsins, heldur taka á móti kærum og útkljá réttarþrætur, sem upp kunna að koma um brot á gerðum samningum milli aðilja, vinnuveitenda og verkamanna. Þótt „gerðardóms“hugmyndin almennt hafi mikinn byr úti um allan heim í ýmsum samböndum, þá þykir hún þó ekki allskostar henta í þessum efnum.

Gerðardómar. fastir, um kaup og kjör, hafa þó verið reyndir annarsstaðar (t. d. í Noregi), en misjöfn ánægja hefir verið með þá, og þeir einatt unað illa úrskurðum þeirra, sem þótzt hafa orðið undir í skiptunum. En slíkt er þó ekkert einkennilegt; en það mætti segja, að það sé svo viðkvæmt mál, sem um er fjallað; að bezt sé og eðlilegast, að allt gangi sem frjálslegast með samninga-umleitunum og sáttatilraunum í lengstu lög. — En að því getur rekið í einstökum tilfellum, að þetta reynist með öllu ófullnægjandi, og að þá verði að koma að því, sem þessi vinnulöggjöf ekki tekur til, sem sé kasta ríkisvaldsins, vegna ótvíræðra hagsmuna þjóðarheildarinnar, sem vitanlega mega sín meira en erjufýsn einstaklinga. Þá getur löggjafarvald og ríkisstjórn orðið tilneytt að grípa fram fyrir hendur þeirra, er deila og ekki koma sér saman og ekki skeyta um það, sem í húfi kann að vera fyrir mikinn hluta þjóðar eða allan almenning, — og til þess getur eins komið, þótt hér um rædd vinnulöggjöf komist á, þá getur það orðið ótvíræð höfuðskylda hlutaðeigandi stjórnarvalda að skakka leikinn, t. d. með lagasetningu um bráðabirgðagerðardóm til þess að útkljá deiluefnið til fullnustu og ákvarða bindandi um lausn þess, eins og oft hefir þurft á að halda í lýðræðislöndum. og á síðustu árum hjá sósíalistastjórnum, t. d. á Norðurlöndum — alveg á sama hátt eins og Alþingi gerði á þessu yfirstandandi þingi í hinni alkunnu togaradeilu: Sem sé lögskipuðum gerðardómi.

Það er nú lærdómsríkt að athuga, hvernig Alþfl. hér tók þessum nauðsynlegu gerðardómslögum, sem forsrh. flutti, en á það mál heyrðu á sínum tíma allir þeir, sem hlusta vildu. Þá urðu menn að hlusta á það, að ráðherra, sem átti að vera ábyrgur orða sinna, hv. þm. Seyðf. HG, gaf fyrir sjálfs síns hönd og síns flokks þá yfirlýsingu, að slíkur gerðardómstóli væri óhafandi, af því að hann væri óhlutdrægt skipaður! — Menn höfðu áður að vísu reynt það af þessum þá hæstv. ráðh., að hann lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna, en að hann gerði sig að málsvara slíkrar fólsku sem þessarar, mátti undrun sæta! Og þvílík trú á málstað sinn! — Hann kvað sósialista ekki vilja una slíku úrskurðarvaldi, nema þeir sjálfir gætu ráðið skipun dómsins — nema dómurinn fyrirfram yrði skipaður þeim í vil, með öðrum orðum, og sér hvert mannsbarn, hvernig komið væri réttarfari í landi, þar sem málspartar, hvor eftir því sem tökin hefðu meiri í það og það skiptið, réðu einir því, að þeim yrði dæmt í hag, hvort sem rétt væri eða rangt.

Hitt er atriði út af fyrir sig, að sami maður. HG, fullyrti um leið, að ekki mætti trúa hæstarétti landsins til óvilhallrar tilnefningar á dómendum (það yrði alltaf verkalýðnum í óhag) ! Þótt sleppt sé nú því alveg, að nýlega var búið að „endurbæta“ hæstarétt á stjórnarflokkavísu, — eftir því sem blöð þeirra töldu með nýútnefndum dómurum, í stað meintra andstæðinga, er víkja urðu, — þótt sleppt sé þessu, þá mun verða leitun á eins rætinni óhlutvendni í þjóðfélagsmálum, svo regindjúpri spillingu, eins og lýsir sér í þessum málflutningi hv. þm. Seyðf., sem nú er að maklegleikum afvaldaður.

Hitt verður væntanlega hvorki þessum flokki (Alþfl.) né öðrum látið haldast uppi, að traðka löglegum dómi, þrátt fyrir heimskulegar „samþykktir“ þar að lútandi.

Úrslitastundin um almenna vinnulöggjöf á þessu þingi stendur nú yfir, og viðburðir ýmsir síðustu tíma og síðustu daga sýna, með ægilegum dráttum hamslausrar ósvífni, að ekki er seinna vænna að skikka nokkuð til í þessum málum, eins og getið var fyrr. Er nú og setið, meðan sætt er. — Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn og bændaflokksmenn standa nú orðið í þessu óbilugir saman (þótt eigi hafi nógu oft verið áður), og þeir eru í raun réttri þeir einu ábyrgu flokkar í landinu um uppihald og afkomu landsfólksins gagnvart hinu æðisgengna niðurrifi. Þegar í nauðir rekur, verður það einnig að vera svo — og það hefir einnig atvikazt svo fyrr (og er skammt að minnast atburða á þessu þingi, er nú situr). Og þessu máli sjá alþýðuflokksmenn sér nú einnig ekki annað fært en að fylgja, svo að allt fari ekki í kaldakol í þeirra eigin herbúðum, — þótt þeir vissulega engist sundur og saman af pólitískri iðrakveisu, sem fulltrúi þeirra í allshn., hv. þm. N.-Ísf., VJ, gerir óvenjulega óhöndulega tilraun til að lækna (í nál. á þskj. 318), en sú læknisaðgerð hans líkist því, sem hann mun telja sér óhentast að vera bendlaður við, sem sé hreinum skottulækninga-„hókus-pókus“!

Þannig leggjast þá opinberlega á móti málinu þeir einir, sem í þessum efnum eru hreinir fulltrúar stjórnleysisins. útibústjórarnir frá Rússíá — bræðrafélagsskapur Stalíns hér á Íslandi. En þegar þeir eru gerðir áhrifalausir, eins og í þessu máli. munu þeir leysast upp og tvistrast. Og það á yfirleitt fyrir þeim að liggja. Því að þetta mál er dæmi um það, hvernig þjóðfylking getur myndazt, þegar örlög lands og lýðs kalla; það getur og verið forboði þess, að illgresið verður upprætt úr hinum íslenzka þjóðarjarðvegi.

Öll landsins börn munu að lokum sannfærast um þau sannindi, — að Ísland á aðeins að byggjast af þjóðhollum, hreinræktuðum Íslendingum !