30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Vilmundur Jónsson:

Í fyrri ræðu minni ætla ég mig hafa gert svo ljósa grein fyrir afstöðu Alþfl. til þessa máls, sem fyrir liggur, að ég þurfi ekki um að bæta, þrátt fyrir þær ræður, sem síðan hafa verið haldnar, og mun ég láta við það sitja. Aftur mun ég nú leitast við, eftir því sem mér vinnst tími til, að skýra nokkru nánar afstöðu Sjálfstfl., Kommfl. og hv. 3. þm. Reykv., HV, til þessa máls.

Saga Sjálfstfl. er í stuttu máli þessi: Meðan hann lítur á sig sem einhvers megnugan og líklegan til að ná völdum í landinu, flytur hann till. um hina grimmustu vinnulöggjöf, sem hugsazt getur, fastan lögþvingaðan gerðardóm í öllum kaupdeilum, skipaðan án minnsta tillits til verkalýðsins og samtaka hans, og skyldi dómstóll þessi dæma verkalýðnum kaup og kjör. Jafnframt þessu hefir svo flokkurinn uppi kröfur sínar um öflugan ríkisher, sem átti „ekki aðeins að nota í kaupdeilum“, eins og það var orðað, heldur sennilega líka eftir að þessi herréttur Íhaldsins var búinn að úrskurða kaupdeilurnar og skapa í landinu þann vinnufrið, sem sjálfstæðismenn gera sér svo tíðrætt um. Þegar ég við 2. umr. þessa máls hér í hv. deild las upp óbrjáluð ummæli úr þingræðu flm. eins slíks frv. Sjálfstfl. um skipun og tilhögun hins þá fyrirhugaða gerðardóms, þm., sem nú er dáinn, og aðspurður af hv. þm. Snæf., TT, nefndi nafn flm., sagði hv. þm., að ég hefði með þessu svívirt nafn og æru látins þm., og átaldi harðlega. Svo görótt — svo krumfengin voru þessi vinnulöggjafarfrv. Sjálfstfl. Það er afstaða Alþfl. til slíkrar vinnulöggjafar — slíkra kúgunar- og þrælalaga — sem fulltrúar Sjálfstfl. vilja nú telja mönnum trú um, að Alþfl. hafi áður haft til allrar vinnulöggjafar yfirleitt.

Þegar Sjálfstfl. komst ekki lönd eða strönd með þessi þrælalög sín, neyðist hún til að draga inn klærnar og dylja tennurnar. Hann tekur að láta friðsamlegar, gerir sig ísmeygilegan, brosir til Framsfl. og lætur semja nýtt frv. til vinnulöggjafar, sem fulltrúum bændanna var ætlað að geta fallizt á. Þetta frv. leggur hann fyrir Alþingi aftur og aftur, nú í fjórða sinn, og skyldi vera fullreynt. Hefir því mjög verið hampað, að frv. þetta væri sniðið eftir vinnulöggjöf Norðurlanda, og má það til sanns vegar færa, þannig, að leitað hefir verið með logandi ljósi í vinnulöggjöf þessara landa, tínd saman óaðgengilegustu ákvæði fyrir verkalýðinn úr löggjöf hvers lands, og stundum seilzt til að taka sitt óaðgengilegt úr hverjum stað, viðvíkjandi ákveðnum atriðum, og leggja saman, ekki skágengnar neyðarsættir, sem verkalýður þessara landa hefir orðið að undirgangast á þrengingartímum, og auðvitað ekkert tillit tekið til, að því aðeins eru mörg ákvæði þessarar Norðurlandalöggjafar umborin og enn í gildi, að verkalýður þeirra landa hefir þá faglegu og pólitísku aðstöðu, að þau þurfa ekki að koma hart niður á honum, m. ö. o. þolandi þar, þó að þau myndu vera algerlega óþolandi hér. Um sérstaka viðurkenningu á verkalýðssamtökunum og réttindum þeirra, í líkingu við það, sem felst í I. kafla þessa frv., sem hér er til meðferðar, er vitanlega alls ekki að ræða. Og þessi vinnulöggjöf er því aðeins boðin af Sjálfstfl., að engin von þykir að kom því fram nú í bili, sem verra er. En að sinnan sé söm um fyrirhugaða tilhögun framkvæmdar á vinnulöggjöfinni, verður fullljóst af ummælum formanns Sjálfstfl., er hann í vetur flutti vantraust sitt á núverandi ríkisstjórn, sem hann hafði vikum saman mænt eftir að mega eiga hlutdeild í — vitaskuld með sínum skilyrðum. Hann ræddi um yfirvofandi kaupdeilur. „Það þarf að gera öflugar ráðstafanir til að tryggja vinnufriðinn í landinu“, sagði hann rétt einu sinni. Hann gerði ráð fyrir, að út af þeim málum mundi „koma til átaka“, eins og hann orðaði það, og bætti við: „Sjálfstæðismenn álíta ... viðhorfið þannig, að ríkisvaldið verði að vera við því búið, að beita því valdi, sem það ræður yfir. Þar sem forsrh. hefir ekki tryggt sér neinn stuðning til slíkra ráðstafana, tilkynni ég hér með, að Sjálfstfl. muni bera fram vantraust á ríkisstjórnina“. Þegar á þennan hátt er rökstutt vantraust á ríkisstjórn, sem flm. vantraustsins vildi ná að eiga sæti í, má fara nærri um, með , hvaða skilyrðum hann hefði tekið við sætinu.

Þegar Sjálfstfl. hafði misst af sætinu í ríkisstjórninni, með þeim tildrögum, sem kunn eru orðin, snýr hann skyndilega við blaðinu. Hann hættir að minnast á frv. sitt um vinnulöggjöf, bíður rólegur eftir því frv., sem hv. ríkisstjórn hafði boðað og kunnugt er orðið af nál. undirbúningsnefndarinnar, og lætur vingjarnlega og jafnvel fleðulega. Engu tækifæri er sleppt til að lýsa því yfir, að raunar sé Sjálfstfl. í höfuðatriðum samþykkur því frv. — það sé í öllu verulegu eins og hans frv. Þegar Vinnuveitendafélag Íslands sendir aths. sínar á 24 þéttrituðum foliosíðum og a. m. k. hálfu fleiri þrælslegar brtt. við frv., þá eru sjálfstæðismennirnir í hv. allshn., hv. þm. Snæf., TT, og hv. 8. landsk. þm., GÞ, allt í einu hættir að taka mark á Vinnuveitendafélagi Íslands, höfundinum að þeirra eigin frv. Það er ekki þeirra fólk. Það eru „mennirnir, sem í gær“ — og „ekki vænti ég, að þeir hafi heitið Eggert Claessen og Kjartan Thors“ — þeim óviðkomandi persónur. Aftur á móti eru menn eins og Gísli Tímaritstjóri og Vilmundur landlæknir orðnir þeirra menn, sérstaklega hinn síðarnefndi. Þeir skrifa undir sameiginlegt álit með okkur meiri hluta n., nudda sér utan í okkur, svo að við fáum óværð af, og flytja með hangandi hendi aðeins nokkrar af brtt. Vinnuveitendafélagsins. Við atkvæðagreiðsluna brosa sjálfstæðimenn sætt og út undir bæði eyru, þegar till. þeirra eru felldar. „Gerir svo sem ekkert“, segja þeir, „eins og frv. sé ekki fullgott fyrir því, kannske betra“. Ef til vill halda menn, að þetta sé meinlaus ertni eða nokkurskonar hálfkæringur Sjálfstfl., þegar hann sér, að mál hans er gertapað, hvort sem er. En þar fara menn áreiðanlega villir vegar. Sjálfstfl. hefir aldrei lagzt dýpra í útspekúleruðum fjandskap gegn verkamönnum og samtökum þeirra en er hann slær á þessa strengi sem sérstaklega kompónerað undirspil undir samsöng þeirra kommúnistanna og hv. 3. þm. Reykv., HV. Kem ég síðar nánar að þeirri músík.

Það mega kommúnistarnir eiga, að afstaða þeirra til vinnulöggjafarinnar er skýr og ótvíræð, þegar allt drukknar ekki í málæði og mótsögnum. Við 1. umr. þessa máls hér í hv. deild lýsti hv. 5. þm. Reykv., EOl, því yfir, að flokkur hans væri á móti hverskonar vinnulöggjöf. Verkalýðurinn gæti ekkert gagn haft af vinnulöggjöf, og skipti ekki máli, hversu góð hún væri. Ef verkalýðssamtökin væru sterk, þyrftu þau ekki á neinum stuðningi löggjafarinnar að halda, þau sköpuðu sér sjálf sinn rétt, en ef þau væru veik. yrðu þau svikin um framkvæmd löggjafarinnar, að því leyti sem þau gætu haft gagn af henni. Ekki er auðgert að sjá, að vinnulöggjöf hljóti að vera alger undantekning að þessu leyti. Enda lét hv. þm., EOl, ekki staðar numið við hana, og setti allar réttarbætur í lögum til handa verkalýðnum í sama flokk. Hann tók lögin um verkamannabústaði sérstaklega til dæmis, lög sem vissulega hafa verið af vanefnum framkvæmd hin síðustu ár. En hvað segja þeir mörgu tugir fjölskyldna, sem hafa þó þegar náð þeim hlunnindum, að eignast íbúðir í verkamannabústöðunum hér í Reykjavík, um þá speki, að þeim hefði verið jafnauðgert að taka sér þau hlunnindi utan við lög og rétt? Og hvað segir öll alþýða þessa lands um algert gagnsleysi laga um almennan kosningarrétt, afnám fátækraflutnings og aðrar réttarbætur í framfærslulögum, togaravökulög, alþýðutryggingalög, sjúkraframfærslulög og mýmörg önnur lög og ákvæði í lögum, fyrst og fremst til verndar smælingjunum í þjóðfélaginu, þó að aldrei nema oft og tíðum séu vanhöld á fullri framkvæmd þessara laga, og þau stundum smánarleg? Í tilefni af þessum ummælum hv. 5. þm. Reykv., EOI, varð mér að spyrja, hvaða erindi hann og félagar hans teldu sig eiginlega eiga inn á þessa löggjafarsamkomu. Ég endurtek þessa spurningu. Er það ef til vill til þess að vaka yfir því, að ekki verði lögleiddar neinar hagsbætur fyrir alþýðuna í landinu?

Verkalýður og öll alþýða þessa lands hefir sannarlega gott af að íhuga vandlega þessa afstöðu kommúnistanna til laga og réttar, því að hún markar ekki aðeins afstöðu þeirra til vinnulöggjafarinnar, heldur er hún grundvallandi fyrir alla pólitík þeirra. Það var ekki tilviljun, að sameining Alþfl. og þess fólks, sem fylgt hefir kommúnistunum, strandaði fyrst og fremst á því, að forsprakkar kommúnistanna voru ófáanlegir til að gangast undir, að hinn sameinaði flokkur lýsti yfir því, að hann vildi ná völdunum í þjóðfélaginu á grundvelli laga og þingræðis. Það var ekki farið fram á, að þeir lýstu yfir þeirri skoðun, að slíkt mætti undir öllum kringumstæðum takast. Um það getur verið eðlilegur meiningamunur. Það er því ekki eingöngu, að kommúnistarnir trúi því ekki, að alþýðan megni nokkurn tíma að ná völdunum í þjóðfélaginn á grundvelli laga og þingræðis, hún má ekki einu sinni vilja það. Það er rétt að taka það fram, að þeir alþýðuflokksmenn, sem ganga með kommúnistum í einn flokk undir slíku merki, hafa, hvort sem þeir eru margir eða fáir, klofið sig út úr Alþfl. með því að svíkja grundvallarstefnu hans sem sósíalistísks Iýðræðisflokks. Þeir eru ekki sósíalistískir lýðræðissinnar, ekki í sósíalistískan lýðræðisflokk tækir, hversu mikið sem þeir hampa því nafni, heldur kommúnistar og er sæmst að ganga hreinlega í Kommfl.

Hv. 3. þm. Reykv., HV, og afstöðu hans til vinnulöggjafarinnar hefi ég þegar gert nokkur skil. Hann markar sjálfur afstöðu Alþýðusambandsþingsins haustið 1936. Samkvæmt því er málið undirbúið, og svo giftusamlega hefir til tekizt, að frv. gerir miklu meira en að uppfylla þau skilyrði, sem sett voru, en að vísu engum meira að þakkarlausu en hv. 3. þm. Reykv., HV, sem þrátt fyrir stöðu sína sem varaformaður Alþýðusambands Íslands hafði ekkert af mörkum að leggja, engar hugmyndir, engar uppástungur, engar kröfur að gera um efni frv., þó að eftir því væri leitað. Hann vill sjálfur flytja það lítt athugað á fyrra þinginu 1937, að því er hann upplýsir, jafnvel án þess að sjá það og án þess að sýna það nokkru félagi, ekki einu sinni sínu eigin félagi. Seint á síðastl. sumri sat hann við sama borð og ég, ásamt mörgum öðrum, þar sem farið var yfir frv., grein fyrir grein og orði til orðs. Ég fann ástæðu til að gera við það nokkrar aths., en hann hafði engar aths. að gera nema eina: „Haldið þið virkilega“, sagði hann, „að Framsfl. gangi að þessu frv.?“ Hv. 3. þm. Reykv., HV, reynir að lýsa mig ósannindamann að þessu, sem ég vorkenni honum að gera, ef hann horfir framan í mig um leið. Mér er af of mörgum samtölum við hann þaulkunnugt um álit hans á slíkri vinnulöggjöf sem þessari, og þó síðri væri, með tilliti til hagsmuna verkamanna. Afstaða verkamanna til vinnulöggjafar hefir ekkert breytzt síðan á síðastl. hausti, nema í þá átt væri, að þeir ættu fremur að óska eftir henni, ettir að sá siður hefir verið upp tekinn hér, að skera úr einstökum deilum, sem seint gengur að leysa, með aðgerðum Alþingis. Það er annað, sem hefir breytzt. Það er hin pólitíska afstaða hv. 3. þm. Reykv., HV sjálfs. Slík afstöðubreyting haggar mörgu, þó að annað ekki haggist. Hv. 3. þm. Reykv., HV, er t.d. í augum kommúnistanna, að óbreyttri afstöðu sinni til olíuhringa og Englendinga, allt í einu hættur að vera „höfuðumboðsmaður brezka auðvaldsins á Íslandi“, „flugumaður í verkalýðssamtökunum“ og „sósialisisti“, en er nú uppdubbaður sem „vinstri“ maður í Alþfl., sem hann raunar hefir verið rekinn úr, og stendur sem slíkur undir sérstakri vernd kommúnista og III. Internationale.

Hv. 3. þm. Reykv., HV, þykist báðum fótum í jötu standa í verkamannafélaginu Dagsbrún hér í Reykjavík. Ýmsum kann að vaxa það í augum, en ekki okkur, gömlum samherjum hans. Okkur er of vel kunnugt um, að í því fjölmenna félagi, sem í hefir verið safnað öllum verkamönnum þessa bæjar, er fjölmennur hópur andstæðinga Alþfl. og fullra hatursmanna hans, kommúnista, íhaldsmanna og nazista, sem haldið hafa þar uppi ærslum og látum árum saman, svo að friðsamir verkamenn, sem eru meginþorri félagsins, hafa gefizt upp á fundarsóknum og talið sig ekki eiga þangað neitt erindi. Ekki sjaldan á undanförnum árum hefir hv. 3. þm. Reykv., HV. komið til móts við mig, móður og af sér genginn eftir viðureignina við þetta lið, stundum algerlega ofurliði borinn og með miklar ráðagerðir um, hvað upp skyldi taka. Hver einn og einasti forustumaður Alþfl. hér í Reykjavík, sem hefði viljað lána sig til þess að stökkva yfir til þessa safnaðar og taka hann með í ráðagerðir um undirtektir undir mál Alþfl., eins og t. d. afstöðu hans til vinnulöggjafarmálsins, í uppreisn gegn löglegri stjórn hans, hefði fengið ekki óstyrkari aðstöðu en hv. 3. þm. Reykv., HV. Meðal annars hefði engan verið auðveldara að fá rekinn úr félaginu með þessu móti en hv. 3. þm. Reykv., HV sjálfan, áður manna mest hataðan af sínum núverandi samberjum. Foringjatign sína fyrir þessu liði á hann sem sé því einu að þakka, að hann er uppreisnarmaður gegn Alþfl., en víst mundi það fremur hafa kosið sér annan foringja en þennan „höfuðumboðsmann hins brezka auðvalds“, svo að þeirra eigin orð séu viðhöfð, og mun síðar sjást. Þessu líkt er um afstöðu einstakra fámennra fagfélaga hér í Reykjavík, sem styrkja hv. 3. þm. Reykv., HV, í baráttu hans með því að sjá honum fyrir fulltrúum. Þau þjóna þar fyrirfram gerðu plani, mörg upphaflega beinlínis stofnuð af fjandmönnum Alþfl. til að vekja óeiningu og glundroða í röðum hans.

Þegar alls þessa er gætt, verður andúðin innan verkalýðsfélaganna gegn þessu frv. ekki að miklu hafandi, að því slepptu, að hv. 3. þm. Reykv., HV, hefir engar þær brtt. við það flutt, sem séu þær grundvallarbreytingar, að þær réttlæti þá afstöðu, að vilja vera með frv. að þeim samþ., en fordæma það óbreytt. Allar brtt. hans að þremur undanteknum, sem til bóta væru, ef fram mættu koma, og við alþýðuflokksmenn greiddum atkvæði með við 2. umr., eru ýmist alger aukaatriði eða umorðun á viðunandi skýrum, að vísu þýðingarmiklum ákvæðum frv., og hefir hv. frsm. allshn. tekið af öll tvímæli um þetta atriði. Var ljóslega sýnt fram á þetta við 2. umr. málsins. Það skýrir afstöðu hv. 3. þm. Reykv., HV, til þessa máls sem vinnulöggjafar — betri eða verri vinnulöggjafar fyrir verkalýð þessa lands —, að hann reynist ófáanlegur til að taka aftur til 3. umr. þær brtt. sínar, sem þýðingu gat haft að fá samþ. og ekki var algerlega vonlaust um að koma fram, ef reynt væri til þrautar að ná samkomulagi um þær við Framsfl. Hann vildi heldur láta fella þær. Enda hefir hann sagt við mig, þvert ofan í samþykktir allra verkalýðsfélaganna fyrr og síðar, og þar á meðal hans eigin félags, Dagsbrúnar í Reykjavík, að frv. Sjálfstfl. væri ekkert verra, og að sumu leyti betra en þetta frv. Það er því honum að þakkalausu, að náðst hefir samkomulag við Framsfl. um þær breytingar á frv., sem veita verkamönnum enn aukinn rétt: Trúnaðarmenn verkalýðsfélaga fá aukna vernd gegn því að vera í ofsóknarskyni sviptir vinnu, og trygging fæst gegn því, að húseignir og menningar- og líknarsjóðir verkalýðsfélaga verði nokkurntíma af þeim teknir, þó að til skaðabóta komi út af kaupdeilu.

Nú ætla ég, að skilja megi samspil kommúnistanna, Sjálfstfl. og hins þjónustusama anda hinna fyrrnefndu, hv. 3. þm. Reykv., HV, í þessu máli. Sjálfstfl. telur sig hafa beðið mikinn ósigur í baráttunni um vinnulöggjöfina, leggst djúpt og hyggur að rétta sinn hlut. Hans mikla von er, að egna megi verkalýðinn til uppreisnar gegn þessari tiltölulega sanngjörnu vinnulöggjöf. Það er líka draumur Rommfl., og í samræmi við það er sú kenning hv. 5. landsk., ÍslH, að Alþfl. hefði átt að aðstoða við slíka uppreisn til að hindra framgang hennar. Hér skyggnist Sjálfstfl. dýpra en kommúnistarnir, eins og oft áður. Fyrir því kyndir hann undir mótþróann gegn hinni væntanlegu vinnulöggjöf með því að gera gælur við hana, hyggur sig hjálpa á þann hátt kommúnistum og hv. 3. þm. Reykv., HV, til að gera hana tortryggilega í augum verkamanna, er fyrir það láti fremur telja sig á að rísa gegn henni. Sjálfstfl. veit sem er, að afleiðingin af slíkri uppreisn yrði ekki afnám vinnulöggjafarinnar, og því siður bætt vinnulöggjöf, heldur strangari vinnulöggjöf, og umfram allt miskunnarlausari framkvæmd hennar á þann hátt, „að ríkisvaldið verði ... við því búið að beita því valdi, sem það ræður yfir“, sbr. ummæli formanns Sjálfstfl. í vantraustsumræðunum, en til þess þarf, eins og kunnugt er, íhaldsstjórn eða ríka hlutdeild íhaldsins í stjórninni og öflugan ríkisher undir þess stjórn. Þá væri spilið gangandi eftir beztu erlendum fyrirmyndum. Blóðugt ofbeldi gegn blóðugu ofbeldi. Nú get ég nærri óþolinmæði alþýðu manna yfir seinaganginum til hins fyrirheitna lands. og vist er vorkunnarmál, að efi sæki að um það, hvort nokkurntíma náist eftir friðsamlegum leiðum. En í þessu landi a. m. k. er það bara eins og til háttar eina hugsanlega leiðin. Með ofbeldisbaráttu utan laga og réttar, hafinni af verkalýðnum gegn íhaldsöflunum í þessu landi, er verkalýðnum fyrirfram dæmdur ósigur. Hin fyrri barátta er seinvirk og kann stundum að virðast vonlítil, en hin síðari er vonlaus og leiðir til þeirra hermdarverka, sem verkalýðurinn á a. m. k. ekki að kalla yfir sig sjálfur. Er skammt að leita þeirra fyrirmynda.

Nú er mér að lokum skylt að taka það fram, að þó að ég, og að því er virðist af ríku tilefni, hafi verið þungorður í garð hv. 3. þm. Reykv., HV, er það fjarri mér að áfellast hann persónulega. Það er, þó að ég segi sjálfur frá, fjarri skapferli mínu að telja, að pólitískir andstæðingar mínir þurfi að vera ódrengir, til þess hefi ég kynnzt allt of mörgum ágætum mönnum úr hinum ólíkustu stjórnmálaflokkum. Og það verkar nánast hlægilega á mig, sem hver annar fíflaskapur, að því ógleymdu, hversu fyrirlitlegt það er, þegar margra ára samherjar og kærir vinir. sem blettur eða hrukka hefir ekki mátt sjást á, breytast fyrir pólitískan ágreining hver í annars augum, ef til vill á dagstundu, í ómenni og níðinga. Mér er því skyldara að játa þetta sem ég hefi haft mikla persónulega samúð með hv. 3. þm. Reykv., HV. Marga óvenjulega kosti hans kann ég manna bezt að meta. Ég álit aðeins, að stórkostlega og nærri óskiljanlega hafi verið um hann villt, svo að stappi nærri ósjálfræði. Og því meiri persónulega samúð hefi ég með honum sem mér virðist hlutskipti hans vera svo óvenjulega, óumræðilega raunalegt. Hann — þessi mikli áhugamaður um pólitík — hefir þegar brotið allar brýr að baki sér til sins fyrra flokks. Og hans nýju samherjar, kommúnistarnir, draga ekki dul á það í sínum hópi, að þeir hafi aðeins tímabundið brúk fyrir hann. Þeir hugsa honum það hlutskipti, að sundra Alþfl. og afhenda þeim umráðin yfir verkalýðsfélagsskapnum í landinu — hlutverk sem hann vinnur nú svo ósleitilega að, að hann samfylkir sér við kommúnistana og Sjálfstfl. á Alþingi um brtt. við vinnulöggjafarfrv., flutta af hinum fyrrnefndu við 2. umr. og hinum síðarnefndu við þessa umr., þess efnis, að lögfesta klofning verkalýðssamtakanna í landinu eftir margra ára kokkabók kommúnistanna, er enginn hefir til þessa barizt meira á móti en hv. 3. þm. Reykv., HV. Eftir þessa þjónustu ætla kommúnistarnir að afhenda hann „olíuhringunum og hinu brezka auðvaldi“. eins og þeir munu orða það, — með þakklæti fyrir lánið. Færi betur, að þetta yrði ekki að sannmælum þannig, að fyrir hv. 3. þm. Reykv., HV, eigi að liggja að renna skeið hinna forsmáðu foringja, sem einmitt hafa verið gæddir líku skapferli og hann — skapferli sem svo mikil hætta er á, að þeyti mönnum með ómótstæðilegu afli öfganna á milli. Það eru meira og minna forsmáðir verkalýðsforingjar með slíku skapferli, sem grimmilegast hafa snúizt á móti verkamönnum og samtökum þeirra, ofsækjandi þá með því ofbeldi, sem þeir áður hugðust að verja þá með. Það skiptir ekki máli, þó að hin pólitíska ráðagerð komúnistanna kunni að mistakast, og muni vissulega mistakast. Meðferðin á hv. 3. þm. Reykv., HV, getur ekki mistekizt honum til ófarnaðar. Er ekki von, að honum sé vorkennt!

Nú vil ég allra síðast, með leyfi hæstv. forseta, mega nota þetta fágæta tækifæri, um leið og ég þakka öllum, sem hlýtt hafa, til að bera fram kærar kveðjur mínar til flokksmanna minna og annara stuðningsmanna, allra kjósenda, svo og allra íbúa, manna. kvenna og barna, í mínu fjarlæga kjördæmi, með beztu óskum um gleðilegt sumar.