30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti! Góðir hlustendur! Frv. það um stéttarfélög og vinnudeilur, sem nú er hér til 3. umr., á sér talsvert langa sögu, eins og eðlilegt er um svo stórt mál. Það mun hafa verið Framsfl., sem fyrst vakti athygli á nauðsyn þess að koma hér á löggjöf um vinnudeilur. Var þessu hreyft af einstökum flokksmönnum hér á Alþingi með því að bera fram frv. um þessi mál, og jafnframt hefir nauðsyn þessa máls verið rædd mjög ýtarlega á flokksþingum Framsfl. Ég hefi jafnframt nokkrum sinnum vakið athygli á því síðan ég tók við störfum sem forsrh., hvílík nauðsyn það væri, að hér yrði sett vinnulöggjöf hliðstæð þeirri, sem í öðrum löndum gildir. Árið 1936 var skipuð fjögra manna nefnd af atvmrh. til þess að undirbúa það frv., sem nú liggur hér fyrir.

Þetta mál allt, vinnulöggjöfin og undirbúningur hennar, hefir fengið einkennilegar móttökur hér á Íslandi. Stafa þessar móttökur af því, eins og oft endranær, að nokkur hluti foringja verkalýðsfélaganna rekur ekki raunsæispólitik, tekur ekki á málunum eins og hann veit, að verkalýðnum er fyrir beztu, heldur eftir því, hvaða hlið málsins er vænlegust til fylgisöflunar í augnablikinn. Þannig hefir verið tekið á vinnulöggjafarmálinu hér á landi af kommúnistum fyrst og fremst. — Það hefir verið skrifað um vinnulöggjöf og hún kölluð þrælalög. Verkalýðnum hefir verið sagt, að með þessum lögum ætti að svipta hann miklu af sínum réttindum. Verkalýðnum hefir verið fyrirskipað, að gegn þessari löggjöf yrði hann að rísa. Árangurinn af þessum fortölum virðist viða hafa orðið eins og til var ætlazt. Verkalýðsfélög víðsvegar um land samþykkja harðorð mótmæli gegn vinnulöggjöf, mörg þeirra án þess að hafa hugmynd um, um hvað verið er að gera samþykktir og án þess að fólkið hafi lesið nokkurn staf í þessu frv., heldur er hlaupið eftir því, sem viss hluti foringjanna segir. Það er ekki hægt að neita því, að sá áróður viðvíkjandi vinnulöggjöfinni, sem rekinn hefir verið af æstasta hluta verkalýðsins undanfarin ár, skilur ennþá eftir sín spor, — og það er eðlilegt. Þessi áróður markar ennþá að ýmsu leyti afstöðu nokkurs hluta verkalýðshreyfingarinnar til vinnulöggjafar.

En hvert er þá innihald þessarar löggjafar, sem kommúnistar og aðrir hinir óheiðarlegri stjórnmálamenn heita sér gegn og kalla þrælalög?

Fyrsti kafli þessarar löggjafar er um réttindi stéttarfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda, og eru þar viðurkennd ýms réttindi verkalýðsfélögunum til handa, sem skiptir þau mjög miklu máli að fá viðurkennd og víða hefir tekið áratugi að fá atvinnurekendur til að viðurkenna.

Annar kafli laganna er um verkföll og verkbönn. Þor eru sett ákvæði um það, að þegar stéttarfélög og atvinnurekendur hefja vinnustöðvun, skuli fara fram um það almenn atkvgr. í félögunum, í stað þess að einstöku menn, sem langar til að láta bera á sér, hafa getað lýst yfir og hafa oft lýst yfir vinnustöðvun. Ennfremur er svo fyrir mælt í þessum kafla, að sjö dögum áður en vinnustöðvun á að hefjast skuli sáttasemjara tilkynnt, að vinnustöðvun sé yfirvofandi, til þess að sáttaumleitanir geti hafizt. Enn er það ákvæði í kafla þessum, að vinnustöðvun megi ekki hefja ef ágreiningurinn er um atriði, sem heyra undir félagsdóm, — og bannað er að gera vinnustöðvun til þess að þvinga stjórnarvöldin til framkvæmda á því, sem þau ekki telja rétt. Ennfremur er bannað að gera vinnustöðvun í samúðarskyni við félög, sem hafa byrjað ólöglega vinnustöðvun.

Þriðji kafli laganna er um sáttatilraunir í vinnudeilum, og er reynt að búa svo um, að sættir séu reyndar til hins ýtrasta þegar vinnustöðvanir standa fyrir dyrum. Þar eru m. a. ákvæði um það, hvernig atkvgr. um miðlunartillögur sáttasemjara skuli hagað. Í kaflanum eru ákvæði um, hve margir félagsmenn í hlutaðeigandi félagi skuli vera á fundi þegar atkvgr. um miðlunartillögur fer fram.

Fjórði kafli laganna er um félagsdóm. Dómstóll þessi er skipaður fimm mönnum, og skipar hæstiréttur þá, sem hafa þar oddaaðstöðu. Verkefni þessa dómstóls er að dæma í málum, sem risa út af kærum um brot á vinnulöggjöfinni og tjóni, sem orðið hefir vegna ólögmætrar vinnustöðvunar. Einnig að dæma í málum, sem risa út af kærum yfir broti á vinnusamningum, og loks skal hann dæma um þau mál, sem atvinnurekendur og verkamenn koma sér saman um að leggja undir félagsdóm. Eins og menn sjá af þessu, á dómstóllinn ekki, eins og reynt hefir verið að blekkja menn til að trúa, að dæma um kaup og kjör, heldur aðeins í þeim atriðum, sem ég taldi upp hér að framan, atriðum, sem á seinustu árum hafa mjög oft verið lögð í gerðardóm, vegna þess að á þann hátt fæst miklu fljótar úr atriðunum skorið heldur en sækja þau fyrir hinum almennu dómstólum landsins. Það er því verkamönnum sjálfum og reyndar báðum aðiljum til hægðarauka að skipa þessum málum þannig. Stærsta atriðið er, að með félagsdómi ætti að vera hægt að fyrirbyggja vinnustöðvanir; í stað þess að útkljá mál með átökum, leggja nú aðiljar vissan hluta málanna í dóm og bíða úrslita hans.

Þetta eru aðalatriði vinnulöggjafarinnar, og ég verð að segja það að þeir menn eru líklegir til að geta haldið fram flestum fjarstæðum í stjórnmálum, sem undanfarið hafa hamrað á því, að þessi löggjöf væri íslenzkum verkalýð einskonar þrælalög. Það þarf sérkennilega tegund af mannfólki til þess að geta mætt á fundum og hér á Alþingi og haldið slíku fram. Sannleikurinn er sá, að þessi löggjöf, sem nú verður sett, er hliðstæð lögum, sem gilt hafa um þetta efni á öllum Norðurlöndum í mörg ár, og sum þeirra — eða jafnvel flest — hafa einmitt verið samþ. af jafnaðarmannafl. þar. Meginreglurnar, sem nú á að lögleiða hér, hafa gilt í Danmörku nærfellt 40 ár, ekki sem lög, heldur sem reglur, sem atvinnurekendur og verkamenn komu sér saman um í septembersættinni svonefndu, sem gengið var frá 1399. En þessi septembersætt var gerð eftir að báðir deiluaðiljar höfðu þjakað svo hvorn annan með stórkostlegum verkföllum, að þeir sjá það sjálfir, án þess að til löggjafar kæmi, að þeim var það lífsnauðsyn að semja sín á milli einskonar bardaga- eða leikreglur til þess að baka ekki hvor öðrum meira tjón en nauðsynlegt væri, og fyrirbyggja deilur svo sem föng voru á. Það eru þessar reglur, sem Norðurlandaþingin, þar sem jafnaðarmenn hafa haft meirihluta-aðstöðu um mörg ár, hafa síðan samþykkt. Og það kemur greinilega fram í nefndarálitinu, sem hér liggur fyrir, að sumstaðar, þar sem verkamannasamböndin hafa verið andstæð slíkri löggjöf áður, telja þau sig, að fenginni reynslu um mörg ár, ekki vilja missa hana. Dettur nú nokkrum manni í hug, sem hlustar á mál mitt, að verkamannastjórnirnar á Norðurlöndum, í Svíþjóð, í Danmörku, í Noregi, og verkamannasamböndin, sem standa á bak við þær, mundu ekki sjá um, að slík löggjöf væri afnumin, ef þær teldu ekki, eins og líka kemur fram í bréfi sænska verkamannasambandsins, að lögin ættu að gilda áfram frekar en hverfa aftur til þess ástands, sem var þegar lögin voru sett? Þó mun það vera viðurkennt, að á Norðurlöndum eru verkamannasamtökin og aðstaða þeirra til ríkisstjórna sterkari en víðast annarsstaðar, menntun fólksins, frelsi og kjör verkalýðsins betra en nokkursstaðar annarsstaðar, þar sem við til þekkjum. Sannleikurinn er sá, að verkalýðssamtökin eru víða svo þroskuð, að þau skilja, og láta enga æsingamenn hagga þeim skilningi, að það er verkamönnum lífsnauðsyn, engu síður en þjóðfélaginu, að vinnufriður geti ríkt sem almennast. Verkföllin og vinnustöðvanirnar ganga næstum undantekningarlaust út yfir verkamennina sjálfa. Verkföllin hafa lamandi áhrif á atvinnulífið og allan þjóðarhaginn, og því verri sem afkoma atvinnulífsins verður, því ófærara verður það til að greiða verkamönnum viðunandi kaup. Það hefir t. d. verið reiknað út, að í togaraverkfallinu 1930 hafi tap sjómannanna vegna vinnustöðvunarinnar verið svo mikið, að þeir þyrftu 16 ár með þeirri kauphækkun, sem þeir fengu, til þess að vinna upp það tjón, sem verkfallið bakaði þeim. Og tjón útgerðarinnar hefir áreiðanlega numið milljónum.

En það má enginn gera sér þær vonir, að þótt vinnulöggjöfin verði samþ., þá séu vinnustöðvanir þar með afnumdar. Það, sem gert er með þessari vinnulöggjöf, er aðeins að koma í veg fyrir, að framvegis verði vinnudeilur háðar eins og smáskæruhernaður í þjóðfélaginn, utan við lög og rétt. Það ástand, sem ríkt hefir í vinnudeilum undanfarið, er raunverulega það, að vissir hópar manna hafa brotið lög landsins, reynt að skapa sér sín eigin lög og reglur og háð stöðugan smáskæruhernað, sem hefir orðið verri og viðtækari með hverju ári. Aðferðin í vinnudeilunum hefir aðallega verið sú, að þegar einhver stórkostleg verðmæti hafa verið í húfi, t. d. eins og útflutningur verðmætra afurða, sem legið hafa undir skemmdum, eða aðra vinnu hefir þurft að leysa af hendi án tafar, þá hefir vinnustöðvun verið lýst yfir fyrirvaralaust. Það hefir verið ákaflega skyld bardagaaðferð og sumstaðar tíðkast annarsstaðar, nefnilega að setja skammbyssuna við ennið á andstæðingnum og heimta peningana eða lifið. Það þarf ekki að lýsa því, að þessi aðferð hefir oft valdið stórkostlegu tjóni á verðmætum. Með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, er svo fyrir mælt, að þessir bardagar skuli háðir eftir nokkrum reglum, sbr. 7 daga frestum.

En spurningin er sú, þegar allt þetta er athugað, hvers vegna til eru menn hér í þinginu og utan þess, sem beita sér gegn því, að löggjöf eða reglur, sem gilt hafa í nágrannalöndunum um tugi ára, sé einnig sett hér. Tæpast getur það verið vegna þess, að við séum svo miklu ríkari þjóð og eigum svo miklu blómlegra atvinnulíf en nágrannaþjóðirnar, að við höfum þess vegna efni á að halda uppi þessum „guerilla“-hernaði í atvinnulífinu. Flestir þessara manna sjá það áreiðanlega mjög vel, að atvinnulíf okkar má sannarlega ekki við þeim vinnuófriði, sem geisað hefir. En ástæðan fyrir andmælum gegn þessu frumvarpi er klofningurinn, sem nú er í verkalýðssamtökunum. Ekkert sannar þetta e. t. vill greinilegar en afstaða Héðins Valdimarssonar til þessa máls. Það hefir upplýstst í þessum umr., að Héðinn Valdimarsson vill ólmur bera þetta frv. fram á síðasta þingi án þess að spyrja nokkurt verklýðsfélag um afstöðu þess til málsins. Virðist hann þá hafa álitið, að slík stefna kæmi bezt heim við hans hagsmuni. Nú beitir hann sér eins og óður maður gegn því sama frumv., sem hann var svo ákafur í að láta samþ. í fyrra. Afstaða kommúnistanna er af sömu rótum runnin. Þessir skrumauglýsendur vita það, að vegna þeirrar andstöðu, sem vinnulöggjöfin hefir sætt, situr það ennþá í nokkrum hluta verkalýðsins, að vinnulöggjöf sé skaðleg verkalýðssamtökunum. Og þá er útreikningurinn ákaflega auðveldur með tilliti til eiginhagsmunanna. Vegna þess, að jafnaðarmenn fylgja frumvarpinn, hugsar Héðinn Valdimarsson og kommúnistar sér að fá inn í sínar raðir hina óánægðu, sem enn ganga með þær grillur í höfðinu, gegn reynslu stéttarbræðranna á Norðurlöndum, að vinnulöggjöf sé verkamönnunum skaðleg, einskonar þrælalög. Það er sannast að segja ömurlegt fyrir þá, sem trúa á menntun fólksins og lýðræði í landinu, að sjá annan eins skrípaleik, og að útreikningar Héðins Valdimarssonar og kommúnista virðast því miður hafa við veruleg rök að styðjast og að talsverður hluti verkalýðsins hafi látið blekkjast í þessu máli. Þannig eru þá bardagaaðferðirnar og ástand stjórnmálanna hér á Alþingi árið 1938.

Sumir kunna að vilja afsaka framferði andstæðinga málsins, kommúnistanna, með því, að þeir noti þarna einungis vissa tegund af sínum eigin bardagaaðferðum til þess að ná sínu endanlega takmarki. Með því að halda uppi stöðugum vinnuófriði og smáskæruhernaði í atvinnulífinu búist þeir við að geta smátt og smátt tamið verkalýðinn, eins og þeir orða það, til hinnar virku bardagaaðferðar: hnefaréttarins, og búa hann þannig, eins og þeir orða það, undir úrslitabaráttuna. Jafnframt nær þessi bardagaaðferð þeim tilgangi, að hún lamar smátt og smátt allt atvinnulíf í landinu, gerir framleiðsluna óstarfhæfa og þegar svo er komið, er hægt um vik að benda á, að atvinnuvegirnir geti ekki séð verkamönnunum fyrir atvinnu og lífsnauðsynjum. Að áliti konungnista er með þessu tvennt unnið; verkalýðurinn styrktur og æfður í hnefaréttinum og atvinnurekendur, sem þarf að ryðja úr vegi áður en þúsundáraríkið hefst, gerðir nægilega veikir til þess að hægt sé að berja þá niður. Ég hygg, að hið sanna sé, að það sé einmitt þetta, jafnhliða hinu, sem vakir fyrir kommúnistum, og þá ættu þeir líka að kannast við það. En þeir ættu þá um leið að segja hinum íslenzka verkalýð frá því, hvernig þessi bardagaaðferð þeirra hefir lánazt t. d. á Ítalíu, þar sem verkalýðurinn hafði eitt sinn undir forustu kommúnista dregið rauða fánann að hún á mörgum verksmiðjubyggingum, á Spáni og í Þýzkalandi. Íslenzkir kommúnistar mega vita það með vissu, og það er bezt að segja þeim það strax í áheyrn alþjóðar, að þessi bardagaaðferð þeirra lánast aldrei hér. Ef henni verður beitt í íslenzkri verkalýðsstétt, þá á áreiðanlega eftir að rætast það, sem Jón heitinn Baldvinsson sagði, að undir því merki mundi íslenzkur verkalýður falla. Það er hægt að nota þær bardagaaðferðir, sem beitt hefir verið á stundum í vinnudeilum, um nokkurt skeið, en það er ekki til lengdar hægt að ganga framan að mönnum með steyttan hnefann, beita ofbeldi eða hóta því, án þess að hinn aðilinn gripi til samskonar meðala. Og það er sú saga, sem hefir verið að gerast í hverju landinu eftir annað hin síðustu ár, saga, sem kommúnisminn hefir skapað. Það má rekja þennan sama ógæfuferil kommúnismans í gegnum alla álfuna og heilindi þeirra nú síðast til þess lands, þar sem þeir hafa stutt ríkisstjórn, en svikið hvenær sem þeir hafa komizt í færi. Þeir eru hinir sönnu höfundar nazismans og gera meira en nokkur annar flokkur til að styðja hægriöflin í hverju landi. Þær vinnuaðferðir, sem kommúnistar vilja beita hér á Íslandi í vinnudeilum, myndu þess vegna aldrei geta leitt til annars en stórslysa fyrir verkalýðshreyfinguna, og til styrktar þeirri pólitísku hreyfingu, sem kommúnisminn hefir alstaðar vakið. Verkalýður, sem ekki veit þetta og ekki hefir það hugfast, þegar hann tekur sínar ákvarðanir, hann skilur ekki sína köllun.