30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Það voru 3–4 atriði í ræðu hv. þm. N.-Ísf., VJ, sem ég vil svara. Hann var að tala um, að Sjálfstfl. væri að gera sig ísmeygilegan og brosti til Framsfl. Ég vil segja: Maður líttu þér nær. Þessi hv. þm. ætti að líta í spegil og sjá sjálfan sig og ímynd síns flokks, sem hann er í þessu máli, því að hann er með þessum orðum sínum að gefa nákvæma lýsingu á sér og sínum flokki. Sócialistar áttu eftir afstöðu sína í þessu máli og viðskilnaðinn við Framsfl. um tvennt að velja, annaðhvort að halda við sína fyrri afstöðu í þessu máli, sem sé þá að berjast með hnúum og hnefum á móti vinnulöggjöf og missa þannig vonina um að geta verið eitthvað lengur í stjórnarsamvinnu, og þar með alla þá bitlinga og þægindi, sem það kann að veita, eða að kasta sinni fyrri trú og sitja áfram við kjötkatlana. Það var ekki af því, að málefnið væri breytt. Þetta mál liggur alveg eins fyrir 1938 eins og það lá fyrir 1937 og 1936. Það eru í rauninni allt sömu frv. Þess vegna er hlægilegt, þegar hv. þm. N.-Ísf., VJ, er að tala um, að Sjálfstfl. sé að snúast í þessu máli. Það eru því sósíalistar, sem hafa snúizt í þessu máli, og það eru einmitt þeir, sem tala nú fleðulega í þessu máli, eins og hv. þm. komst að orði um okkur sjálfstæðismenn. Sósialistarnir eru sannarlega í vanda staddir, því að vöndurinn skellur á þá úr tveim áttum. Ef þeir snúa sér til kommúnistanna, eiga þeir í vændum að missa samvinnumöguleikana og þar með bitlingana, en ef þeir nálgast Framsfl. um of, eiga þeir á hættu, að kommúnistarnir og HV taki frá þeim kjörfylgi. Hv. þm. sósíalista hafa sannarlega verið sannfæringarlausir í þessu máli, og það er aðeins eitt, sem heldur þeim nú við þá ákvörðun, að fylgja þessu frv., og það er, að þeir vita, að eini möguleikinn til þess að geta verið áfram í stjórnarsamvinnu er, að þeir gangi inn á afgreiðslu þessa máls á þann hátt sem hér er ætlazt til.

Hv. þm. N.-Ísf., VJ, var að tala um afstöðu sjálfstæðismanna til málsins í allshn. Í því sambandi vil ég upplýsa það, að hv. þm. gerði allt, sem hann gat, til þess að fá sjálfstæðismenn til þess að kljúfa sig út úr í þessu máli, en þeir höfðu enga ástæðu til þess, af því að þeir fengu fram öll þau meginatriði málsins, sem þeir höfðu barizt fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að svara fleiri atriðum í ræðu þessa hv. þm., enda hefi ég ekki tíma til þess.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykv., EOI, sagði um „Íhaldið“ og afstöðu þess til verkalýðsins, vil ég minna hann á, hvernig aðstaða verkalýðsins í Rússlandi er í þessum efnum. Eru verkföll leyfð þar? Alls ekki. Ef vinnuþiggjendur þar eru ekki ánægðir með sín kjör, þá sker gerðardómur úr, og ef þessir sömu menn láta sér það ekki vel líka, þá eru þeir skotnir eða sendir til Síberíu. Þetta er fyrirmyndin í því landi. Og ekki mundi alþýðan hér á landi telja þau kjör, sem rússneskir verkamenn eiga við að búa, nein sældarkjör. Það er a. m. k. víst. Íslenzkir verkamenn mundu ekki láta sér nægja 150 rúblur á mánuði, sem er um 30–40 íslenzkar krónur. Þessir menn, sem tala um þetta frv. sem einhver þrælalög, ættu að muna, að sömu ákvæði og sömu lög hafa gilt árum saman á Norðurlöndum, þar sem sósíalistar hafa farið með völd og haft fulla möguleika til að fá þessu breytt, ef þeir hefðu viljað.

Hæstv. forseti tilkynnir mér, að tími minn sé á enda, en að síðustu vil ég ítreka það fyrir hv. hlustendum, að ef í meginatriðum væri meginmunur á milli þess frv., sem við sjálfstæðismenn höfum flutt á Alþ. undanfarið, og þess frv., sem hér liggur fyrir og sósíalistar fylgja, þá myndu þeir áreiðanlega benda á þennan mun, en hv. þm. N.-Ísf., VJ, hefir ekki og heldur ekki hv. þm. Seyðf., HG, bent á eitt einasta atriði, sem þeirra frv. væri frábrugðið okkar frv. að efni til. Það er dálítið hlægilegt, að þessir sömu hv. þm., eins og hv. þm. N.-Ísf., VJ, og sósíalistarnir hér í þinginu, sem hafa lýst yfir því í Alþfl., að allar till. hv. 3. þm. Reykv., HV, í þessu máli væru þannig, að ekki væri hægt að taka þær alvarlega, skuli í dag bera fram samhljóða till. Þetta sýnir, að þeim stendur stuggur af því, að viðurkenna, að þær breyt., sem hv. 3. þm. Reykv. hefir borið fram, séu ekki eins vitlausar eins og þeir þó hafa viljað halda fram.

Ég skal að síðustu segja það, að það er trú mín, að þessi l. verði til gagns — til þess að auka vinnufriðinn í landinu eins og l. frá 1925. Mótstaða þeirra, sem hafa barizt gegn þessu máli, er óðum að þverra, því að sósíalistar eru nú horfnir úr hópnum.

Sjálfstfl. hefir sigrað í þessu máli og hann fagnar því, ekki af því, að hann sem flokkur út af fyrir sig hefir sigrað, heldur af því, að hér hefir gott málefni sigrað, — af því að þjóðfélagið hefir sigrað í þessu máli.