09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Magnús Jónsson:

Ég skal nú ekki fara að gera mig að neinum siðameistara um ræðuhöld manna hér í þinginu, en ég verð að segja, að mér finnst það ekki lýsa miklum klókindum, að meðhaldsmenn þessa frv., eins og hv. 3. landsk., skuli vera að halda hér langa og espandi ræðu um þetta mál. Málið er hér til 2. umr. á síðustu dögum þingsins, og væri því ekki nema eðlilegt. að það væri heldur, a. m. k. af meðhaldsmönnum þess, stuðlað að því, að málið fengi greiða afgreiðslu. Það er búið að ræða þetta mál í útvarpsumræðum, í blöðum og á fundum, og það hefir fengið langa og ýtarlega meðferð í hv. Nd., og virðist því ekki vera mikill greiði gerður með löngum umr. um það hér.

Ég skal geta þess, að ég er einnig fylgjandi löggjöf í þessa átt, en mun ekki fara að dæmi hv. 3. landsk. um að fara að halda langa ræðu um frv. Tilefni þess, að ég stend hér upp, er aðeins það, að í þessu stutta nál. frá allshn. er svo að orði komizt, að við, hv. samflokksmaðum minn í n. og ég, myndum flytja brtt. við þetta frv. Þetta hefir því miður orðazt fullákveðið. Við áskildum okkur rétt til þess að bera fram brtt. Við höfum ekki gert það við þessa umr., en munum að sjálfsögðu milli umr. taka ákvörðun um það, hvort við berum fram brtt. eða ekki.

Ég get sagt fyrir hönd okkar beggja, að við erum yfirleitt fylgjandi þeim brtt., sem bornar voru fram í hv. Nd., á þskj. 330, af þeim hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk., hvort sem við tökum þær upp eða eitthvað af þeim eða ekki.

Ég skal ekki fara neitt út í ræðu hv. 3. landsk., þó að ég sé honum ekki sammála um allt, sem hann sagði um frv. Sjálfstæðismenn hafa, eins og kunnugt er, haft forgöngu um þessa löggjöf hér á Alþ., og þegar hann segir, að í frv. því, sem sjálfstæðismenn hafi borið fram, sé það strangasta í löggjöf Norðurlanda, þá eru það meðmæli með þeirra till., þar sem þeir hafa sniðið till. sínar eftir þeirri löggjöf, sem hefir reynzt vel á Norðurlöndum, eins og hann sjálfur hefir viðurkennt. Ég hygg, að fáum blandist hugur um, að löggjöf eins og þessi kemur að nokkru leyti smátt og smátt, en þegar við setjum okkar löggjöf, væri ekkert óeðlilegt, þó að við gætum hlaupið yfir einhver millistig og haft löggjöfina svona nokkurnveginn eins og hún er fullkomnust í okkar nágrannalöndum. En ég get sagt það, að mín einkaskoðun er sú, að einmitt löggjöf eins og þessi eigi að fara mjög hægt af stað. Ég get því fylgt þessu frv. óbreyttu, enda þótt ég teldi, að löggjöfin ætti að ýmsu leyti að vera öðruvísi. Hér er um nýmæli að ræða, og hugsunarhátturinn þarf að samlagast slíkri löggjöf. En það er enginn vafi á því, að þróunin verður í þá átt, að réttarþjóðfélag reyni að setja niður deilur eins og þessar með löggjafarfyrirkomulagi. Eftir þann áróður, sem beitt hefir verið í þessu máli, er mjög hyggilegt að fara hægt af stað, að stiga smáspor til að byrja með. Það er vitanleg., að löggjöf eins og þessi verður að komast á með gagnkvæmu samkomulagi milli beztu og skynsömustu manna frá báðum aðiljum, til þess að hún verði til jafnmikils gagns fyrir báða og þjóðfélagið í heild sinni.

Ég skal ekki fara mikið út í ræðu hv. 3. landsk. Hann var með ýmsar dylgjur um það, að atvinnurekendur gengju með einhverja dulda kúgunarlöngun í garð verkamanna. Þetta eru nú bara leifar af gömlum áróðursanda. Það má náttúrlega alltaf gera mönnum upp hinar lökustu hvatir, en úr því að menn hafa nú komið sér saman um að reyna að beina þessum málum inn á sómasamlegri og heilbrigðari brautir, þá held ég, að það væri rétt, að menn byðu niður allar dylgjur í þessum efnum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta, því að við höfum sem sagt skrifað undir nál. án fyrirvara, en ég vildi aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna við ekki bárum fram brtt. nú, og munum við taka það til athugunar fyrir 3. umr.