23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

92. mál, hreppstjóralaun og aukatekjur m. fl.

*Frsm. (Stefán Stefánsson):

Fjhn., eða þeir þrír nm., sem mættir voru á fundi fjhn., þegar málið var tekið fyrir, mælir einróma með því, að frv. verði samþ. Þetta er í þriðja sinn, sem frv. kemur fyrir þingið. Það hefir dagað uppi tvö síðustu skiptin, og vonandi, að það verði ekki nú.

Launakjör hreppstjóra eru samkv. lögum frá 1917 og má nærri geta, að þessi tuttugu ára lög eru orðin úrelt. Hér er gengið eins skammt og frekast er unnt um launauppbætur. Má gera ráð fyrir, að heildarupphæð launanna hækki um einar 14 þús. kr. á ári, og skipt milli tvö hundruð hreppstjóra verða það ekki nema 70 kr. að meðaltali á hvern. Ég skil ekki hug þm. til þessara starfsmanna ríkisins þannig, að þeir sjái sér fært að ganga móti þessu. Ég hygg, að nokkrir séu hér, sem hafa allt að því 70 kr. fyrir hvern dag, sem þeir vinna, og þeir ættu ekki að sjá ofsjónum yfir þeirri viðbótarupphæð um árið til hreppstjóranna.

Þá er vitanlegt, að á ferðakostnaði verður að ger a breytingu. Það er heldur hjáleitt, að hreppstjórar fái 25 aura kaup um tímann, meðan flestir aðrir hafa 1–2 kr. um tímann fyrir vinnu sína. Þetta er hækkað hér upp í 50 aura um tímann, og getur þó auðvitað eyðzt heill dagur í starf, sem gefur í hæsta lagi 3,50-5 kr. í aðra hönd.

Þá eru hér brtt. á þskj. 299, frá hv. þm. V.Sk., og vil ég sem einn nm. mæla með þeim, enda virðast þær sjálfsagðar. Vottagjald hækkar samkv. till. hans úr 75 au. í 1 kr. til hvers votts fyrir klst. eða brot úr klst., sem réttarhald stendur yfir. Í öðru lagi leggur hann til, að lögin gangi í gildi 1. júní n. k., og ennfremur, að laun hreppstjóra greiðist samkvæmt þeim fyrir fardagaárið 1937–38. Þessu er ég fyrir mitt leyti alveg sammála.

Ég hirði svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vonast til þess, að hv. þdm. sjái sóma sinn í því að samþ. frv. Hér hafa legið frammi á lestrarsal áskoranir, m. a. af Fljótsdalshéraði og úr Dalasýslu, þar sem kveðið er sterkt að orði um nauðsyn málsins, og geta hv. þm. af þeim ráðið, hvort fært sé að greiða atkv. móti því.