10.05.1938
Efri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

92. mál, hreppstjóralaun og aukatekjur m. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Með þessu frv. er gerð nokkur umbót á kjörum hreppstjóra og annara innheimtumanna þess opinbera. Það hefir verið gert nokkrum sinnum áður, að bæta með l. kjör hreppstjóra, og virðist alltaf hafa verið vinsælt mál. Í Nd. var frv. samþ. með miklu fylgi.

Það má að vísu segja, að hreppstjórastaðan er víðast þannig, að það er alls ekki neitt aðalstarf eða atvinna, heldur stunda þeir aðra atvinnu, sem er þá þeirra aðalatvinnuvegur. en hreppstjórastarfið er aukastarf, og þykir yfirleitt heiðursstarf í hverri sveit, sem ekki eru nein vandræði að fá menn í. Ég skal því játa, að þetta mál getur orkað nokkuð tvímælis, en þar sem verður að játa, að þau störf, sem frv. fjallar um, eru fremur illa borguð, samanborið við ýmisleg önnur opinber störf, sem greitt er fyrir, þótti fjhn. rétt að mæla með þessu frv. Hún hefir ekki borið fram brtt. við frv., heldur leggur til, að það verði samþ. óbreytt.