09.04.1938
Neðri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

32. mál, lífeyrissjóður ljósmæðra

Vilmundur Jónsson:

Ég vil þakka n. fyrir góðar undirtektir undir þetta frv. og get lýst yfir því, að ég sem flm. felli mig eftir atvikum við breyt., sem stungið er upp á að gera. Ég get og lýst yfir f. h. stjórnar Ljósmæðrafélagsins, að ljósmæður feila sig einnig við þessar brtt. Þó verð ég að segja, að 4. brtt., við 12. gr., kann að orka tvímælis, sérstaklega með tilliti til þess, að það er ekki gerandi ráð fyrir því, að hún hafi mikla þýðingu til að tryggja afkomu sjóðsins; en það mun vera tilgangurinn. Hún er í því fólgin að lengja biðtíma tryggingarinnar úr 10 árum í 15 ár, til þess að létta kvöðum á sjóðnum frá ljósmæðrum, sem hafa starfað stuttan tíma. En aðaltryggingin er fólgin í því, að hinar lögmætu ástæður séu fyrir hendi um að hætta starfi og komast á eftirlaun, en það eru sjúkdómur eða elli. Elli kemur naumast til greina fyrir ljósmæður, sem svo stuttan tíma hafa verið að starfi. og sjúkdómar, sem örorku valda, eru sem betur fer næsta fátíðir. En ég get hugsað, að nokkuð ósanngjarnt kunni að þykja, að ljósmæður, sem starfað hafa upp undir 15 ár, eigi enga kröfu á lífeyri úr þessum sjóði. þar sem aðeins yrði um það að ræða, að hætt væri starfi vegna sjúkdóms, og er þó bót í máli, að þá fá þær iðgjöld sín endurgreidd.

Ég geri ráð fyrir því, að þótt þetta verði nú samþ. svona í þetta sinn, þá komi fram kröfur um breyt. á þessu atriði síðar. En við því er ekkert að segja, og sætti ég mig við breyt. n. Hið sama gerir ljósmæðrastéttin. Mæli ég með því að frv. verði samþ. samkv. till. n.