07.05.1938
Efri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Þetta mál hefir legið fyrir sjútvn., eins og sjá má á þskj. 445, og meiri hl. n., ég og hv. 2. þm. S-M, gerum það að till. okkar, að frv. verði samþ. Afstaða þriðja mannsins í n., hv. þm. Vestm., er að miklu leyti enn ekki ljós. Hann hefir ekki skilað mínni hluta áliti, en mun sennilega, eins og fram mun koma í ræðu hans um málið, vera á móti því. Hinsvegar lítum við meiri hl. svo á, að það geti verið nauðsynlegt, að verksmiðjustjórnin, sem eins og kunnugt er hefir stjórn yfir allvíðtækum og stórum atvinnurekstri, sé skipuð varamönnum. Rökin fyrir því eru þau í fyrsta lagi, að það er ávallt hugsanlegt, að einn eða fleiri menn úr stj. geti forfallazt frá störfum um lengri eða skemmri tíma, og einnig getur það komið fyrir, að einhver maður úr stj. deyi á tímabilinu á milli þinga. og í l. er þá ekki gert ráð fyrir því, að stj. sé fullskipuð. Hinsvegar getur það verið sérstaklega þýðingarmikið á ýmsum tímum, að stj. sé ávallt skipuð 5 mönnum, ekki sízt fyrir það, þegar sú skipun er nú á orðin, að stj. er skipuð eftir pólitískum flokkum, og þess vegna myndi hver flokkur að sjálfsögðu óska þess, að eiga ávallt sinn fulltrúa í stj. eins og þessari.

Það mun mega leita allvíða dæma um það, að stjórnir, sem minna veltur á en þessari stj., séu skipaðar varamönnum. En þetta hefir ekki verið gert. Hygg ég, að það sé meira af því, að menn hafa ekki athugað nauðsynina á þessu, heldur en hinu, að menn séu í raun og veru andvígir þeirri stefnu, að varamenn séu til staðar, þegar þörf krefur.

Ég læt bíða að svara þeim rökum, sem fram kunna að koma gegn þessu, þar til ég heyri þau, en ég hygg, að það sé erfitt að færa sönnur á, að slík skipun eins og hér er farið fram á sé ekki nauðsynleg. Hv. Nd. hefir litið svo á, að hér væri fullkomin nauðsyn fyrir hendi, og vænti ég, að hv. Ed. geti litið svipað á það mál.

Ég skal svo ekki að þessu sinni hafa þessi orð mín fleiri, en vænti, að till. okkar meiri hl. geti náð samþykki í d.