07.05.1938
Efri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég hefi ekki getað orðið samferða samnm. mínum í þessu máli. Ég skal að vísu kannast við það, að ef það hefði verið regla, að varamenn væru í stjórnum, þá væri þessi regla sjálfsögð. Á hinn bóginn lít ég þannig á, að það geti haft bæði kosti og ókosti í för með sér við stjórn fyrirtækja eins og síldarbræðslna ríkisins, að eiga það á hættu. að menn sem eru litt kunnugir venjulegum gangi mála, hafi þar sem varamenn e. t. v. úrslita afkvæði um þýðingarmikil atriði viðvíkjandi rekstrinum eða öðru, sem stofnununum við kemur, en sú hætta er ávallt fyrir hendi, þegar varamenn í stj. fyrirtækja verð skyndilega að grípa inn í störf hinna svokölluðu aðalmanna.

Í l. um síldarbræðslur ríkisins hefir frá öndverðu verið fylgt þeirri reglu, að hafa ekki varamenn. Ég hefi átt tal við þá, sem eru í stj., um þetta fyrirkomulagsatriði, og mér hefir verið sagt, sem ég reyndar vissi áður, að þó að stjórnarnefndarmenn væru ekki staddir á Siglufirði eða öðrum þeim stað, þar sem ákvarðanir stj. væru gerðar, þá væri jafnan leitað álits þeirra, jafnvel þó að þeir væru erlendis.

Hér til kemur og, að með þeirri breyt.. sem gerð var á yfirstjórn verksmiðjanna á síðasta þingi, var, ef ég man rétt, lagt meira vald í hendur framkvæmdarstjórans en áður hafði verið, og tel ég það vera heppilegt fyrirkomulag, svo fremi að framkvæmdarstjórinn sé heppilega valinn. Verksmiðjurnar eru eins og hver önnur viðskiptastofnun, og þar er í raun og veru ekki heppilegt, að atkv. mjög margra og jafnvel mismunandi kunnugra manna komi til um ákvarðanir, ef hæf forstaða er að öðru leyti. Hinsvegar skal ég ekki gera þetta að deilumáli. Ég vildi aðeins færa fram þær ástæður fyrir því, að ég hefði ekki álitið þörf á að breyta nú l. enn á ný og gera ráð fyrir, að varamenn væru hafðir við þessa yfirstjórn, sem þeir ekki hafa verið við áður.

Ég er sjálfur í stj. eins fyrirtækis, sem er ekki ósvipað þessu, nema langtum minna að öllu leyti, og þar eru allir stjórnarnefndarmenn á staðnum og varamenn líka. Þar er gert ráð fyrir því, að hafa varamenn. Ég hefi frá öndverðu séð þann galla, sem á því getur verið, að varamenn komi í stað aðalmanna, þann galla sem þeir eiga hægt með að gera sér grein fyrir, sem setið hafa í bæjarstjórn. Okkur, sem eru þarna í stjórn, var það ljóst frá öndverðu, að það gæti verið slæmt, að varamenn gripu inn í störf okkar, og því höfum við haft það fyrir reglu, að varamenn sætu alla stjórnarfundi. En þetta er aðeins hægt þar, sem varamenn og aðalmenn búa á sama stað. Ég segi aðeins frá þessu, en ég segi þetta til þess að sýna fram á, að það geti verið óheppilegt, að varamenn komi í stað aðalmanna, sem fjarstaddir eru.

En svo eru aðrar hliðar á þessu máli, sem hv. frsm. benti á, og það eru hin pólitísku yfirráð yfir síldarverksmiðjunum, en ég vil þar til segja einasta það, að það væri óskandi, að verksmiðjurnar yrðu reknar sem mest án tillits til pólitískra yfirráða, reknar eins og hver önnur heilbrigð stofnun, sem er rekin frá viðskiptalegu sjónarmiði.