07.05.1938
Efri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jónas Jónsson:

Ég vildi segja fáein orð um þetta mál, þó að það sé að miklu leyti í sömu átt eins og hv. þm. Vestm. hefir tekið fram.

Ég hygg, að það sé ekki erfitt að færa rök fyrir því, að þessi till., sem hér er komin fram, sé ekki aðeins óþörf, heldur skaðleg, og hún sé komin fram, af því, að flm. hafi ekki áttað sig fyllilega á eðli málsins. Það, sem í mínum augum gerir þessa till. algera fjarstæðu, er, að hér er um framkvæmdastjórn að ræða. Stjórn síldarverksmiðja ríkisins er að lögum öðruvísi en stjórnir eru venjulega í hlutafélögum og samvinnufélögum. Það má segja, að eins og nú standa sakir, séu 6 framkvæmdastjórar í síldarbræðslum ríkisins. Ég gæti vel sætt mig við það, að stj. í síldarverksmiðjunum hefði minna að segja, og hefi reynt að halda því fram, að það væri betra fyrir fyrirtækið að hafa þetta eins og gerist í öðrum kaupsýslufyrirtækjum, að það sé ekki stöðugt verið að blanda sér í starf framkvæmdastjórans af hálfu stj.

Ég hefði gaman af að sjá, hvernig þeim, sem kunnugir eru í Eyjafirði, litist á, ef svona ástand væri í stjórn eins mikils fyrirtækis og Kaupfélag Eyfirðinga er. Fyrst væri framkvæmdarstjóri, sem hefði lítið vald, en öll sala og kaup væru afgerð með atkvgr. 5 stjórnarnefndarmanna, og svo ekki nóg með það, heldur væri á bak við þá aðrir 5 menn, sem alltaf væri hægt að kalla inn til þess að afgera t. d., hvort skipið Snæland ætti að fara til Englands eða Þýzkalands þennan og þennan túr. Ég efast ekki um, að hv. þm. Ísaf., sem hefir verið í þessari stj., en ekki mörgum öðrum stj., hafi ekki áttað sig á þessu, að síldarbræðslur ríkisins eru með allt öðru fyrirkomulagi en gerist í öðrum slíkum fyrirtækjum, að það er stjórnarnefndin, sem ræður þar svo að segja hverri einustu sölu og ræður öllum framkvæmdum. Það er ekki hægt að hringla með hana, og eftir frv., eins og það liggur fyrir, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að stjórnarnefndarmenn óski eftir því einhvern daginn að taka sér sumarfri og setji varamenn í staðinn fyrir sig. Ef þetta er ekki léttúð, þá veit ég ekki, hvað léttúð er. Ég vil segja, að það er búið að sýna nógu mikla léttúð í sambandi við síldarverksm. ríkisins, sem er byggð á vanþekkingu á því, hvernig þessu fyrirtæki er fyrir komið.

Ég vil taka annað dæmi, sem sýnir, hvernig menn, sem hafa ábyrgðartilfinningu, líta á svona fyrirtæki. Ég vil taka Landsbankann. Þar eru 3 bankastjórar, sem hafa miklu meira vald en þessi eina framkvæmdarstjórn, sem er fyrir síldarbræðslurnar. Þar að auki eru þar 5 manna bankaráð, og hafa þeir varamenn. Það er misskilningur, ef hv. þdm. halda, að þar sé verið að hringla svo að segja annan hvern dag með varamenn. Þeir eru aldrei kallaðir þar inn, af því að þótt vald þessara manna sé miklu minna tiltölulega en síldarverksmiðjustjórnarinnar á Siglufirði, þá þykir samt sem áður svo háskalegt að koma þar glundroða inn, að það er aldrei gert. T. d. er formaður bankaráðsins Jón Árnason, oftast erlendis heilan mánuð á hverju ári, og samt er alls ekki kallaður maður inn í hans stað. Ég er búinn að vera þarna svo árum skiptir og veit varla, hvað minn varamaður heitir. Ég fullyrði, að í þessari stofnun mundi það þykja fullkomin goðgá að fara fram á það, sem gert er í þessu frv.

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta. Ég hefi komið með rök, sem ég hefi gaman af að heyra, hvort meðmælendur þessa frv. geta hnekkt. Ef þeir geta það ekki, en koma samt fram frv., hafa þeir aðeins ánægjuna af að hafa komið fram röngu máli með röngum rökum, og ég ann þeim þeirrar gleði.