07.05.1938
Efri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. þm. Vestm. gerði frá sínu sjónarmiði nokkra tilraun til þess að sýna fram á galla þessa frv., þó að það hinsvegar skini í gegnum orð hans, að hann yrði að játa, að rökin fyrir málinu væru kannske ekki jafnótraust og hann vildi vera láta. Hann komst ekki svo mjög mikið inn á það, að rökstyðja, að frv. hefði galla í för með sér, en benti m. a. á, að þar sem framkvæmdarstjórnin hefði nú meira vald en áður, þá væri það ekki eins aðkallandi og áður, að stjórnin væri fullskipuð. Hann benti einnig á, að hliðstæð stofnun eins og síldarútvegsnefnd hefði nú haft varamenn, og mér skildist á hans ræðu, að það hefði ekki komið í bága við framkvæmdir í þeirri stofnun, þá sjaldan varamenn hefðu verið kallaðir þar inn.

Hann vildi telja galla á varamannafyrirkomulaginu. Ég hygg, að erfitt sé að koma í veg fyrir, að það fyrirkomulag verði notað. Hér á Alþingi hefir meira að segja verið tekin upp sú regla, að viss hluti þm. hafi varamenn, ef þeir af lögmætum ástæðum geta ekki mætt til sinna starfa hér, og hefi ég ekki orðið var við, að það kæmi neitt í bága við þingstörfin. En burtséð frá þessu, vildi hv. þm. ekki hrekja það, að þau atvik gætu komið fyrir, að einn nm. forfallaðist, svo að verksmiðjustjórnin væri skipuð þeim mun færri mönnum, sem slík forföll væru víðtækari. Hann gat ekki neitað því, og kom í raun og veru inn á það, að l. væru ekki fullnægjandi um það, að þeir flokkar, sem ættu fulltrúa í verksmiðjustjórninni og misstu þá af einhverjum ástæðum, gætu alls ekki sett menn í staðinn. Hv. þm. verður að játa, að fyrir þessu er illa séð í l., og þess vegna verður hann í öðru orðinu að viðurkenna, að nauðsynlegt sé að hafa varamenn.

Þá eru það örfá orð til hv. þm. S. Þ., sem ég átti sízt von á, að risi hér upp gegn þessu frv., en hann var miklu berari og ákveðnari í ræðu sinni en hv. þm. Vestm., og að því er mér skildist með enn þá minni skilningi á því, hvað hér er um að ræða. Hann sagði, að till. væri óþörf og skaðleg. Ég hefi reynt að sýna fram á, að hún er ekki óþörf, því að, eins og ég lauslega drap á, þá eru allir menn dauðlegir. Það geta dáið 1–2 menn úr stjórnarnefnd verksmiðjanna og kannske fleiri. Samkvæmt l. er ekki heimilt að skipa menn í þeirra stað, og þá verður allt þetta fyrirtæki að hvíla á herðum þeirra, sem eftir eru í verksmiðjustjórninni, og svo framkvæmdarstjóranum. Það þarf ekki einu sinni dauða til. Við skulum hugsa okkur, að einn nm. verði að liggja á sjúkrahúsi, t. d. annar sjálfstæðismaðurinn. Nú á Framsfl. þarna 2 menn, Sjálfstfl. 2 og Alþfl. einn. Gerum ráð fyrir, að verksmiðjustjórnin ætti að gera ýmsar meiri háttar ákvarðanir. Þá gæti mikið oltið á því, að ekki mætti kom varamaður til að greiða atkv. í staðinn fyrir þennan mann, sem kannske lægi dauðvona á sjúkrahúsi, en væri flokkslega séð mjög þýðingarmikill.

Það var helzt að heyra á hv. þm., að hann gerði ráð fyrir, að varamenn ættu að geta komið inn undir öllum hugsanlegum kringumstæðum, jafnvel ef aðalmenn færu í sumarfrí. Okkur, sem meðmæltir eru frv., dettur ekki slíkt í hug, að varamaður eigi að koma inn, þótt aðalmaður fari til útlanda svo sem mánaðartíma eða jafnvel í sumarfri, svo að þessi fjarstæða er ekki þess verð að ræða hana. Ég hefi hugsað mér, að varamaður komi því aðeins inn, að aðalmaður sé það forfallaður, að hann geti ekki mætt um ófyrirsjáanlegan tíma.

Þá vitnaði hv. þm. í bankaráð Landsbankans. Hann sagðist ekki hafa vitað neinn af varamönnunum þar kvaddan til starfa og sagðist jafnvel ekki þekkja sinn varamann. Það vill svo til, að síðan bankaráðið varð til, hafa meðlimir þess yfirleitt lifað þann tíma, sem þeir hafa átt að gegna þar störfum. En ég vil beina þeirri spurningu til þessa hv. þm., sem á sæti í bankaráðinu, hvað yrði, ef hann dæi, — mundi þá ekki hans varamaður koma í hans stað í bankaráðið? Ég býst við, að hann svari því játandi, sem eðlilegt er. Framsfl. mundi ekki vilja missa sitt atkv. úr bankaráðinu við það, að hv. þm. S.-Þ. dæi, og þar kemur greinilega í ljós, að það er kostur að eiga varamann.

Hv. þm. sagði, að ekki væri sambærilegt bankaráð Landsbankans og stjórn verksmiðjanna. Þó að ég hafi ekki kynnt mér starf bankaráðsins, þá hygg ég þó, að það sé svo þýðingarmikið, að á bankaráðinu hvíli kannske ekki miklu minna en á verksmiðjustjórninni, nema síður sé. Þar eru ef til vill teknar hinar meiri og stærri ákvarðanir um það, hvort lána skuli til stærri fyrirtækja það, sem þau krefjast eða biðja um. Það kemur kannske til bankaráðsins að ákveða, hversu mikið fé verksmiðjurnar skuli fá á hverjum fima. Það er því engin ástæða fyrir hv. þm. að gera lítið úr því, hvað undir bankaráðið heyrir. Hann hefir sjálfur lagt mikið kapp á að komast þar inn til þess að geta ráðið þar því, sem hann vill ráða.

Hér er ekki um neina léttúð að ræða, heldur að skapa öryggi fyrir, að stj. verksmiðjanna geti á öllum tíma verið fullskipuð. Ég geri ráð fyrir, að hver flokkur hafi þá ábyrgðartilfinningu, að hann reyni einnig að vanda til varamanna sinna. Það er misskilningur, að hér sé verið að búa til einhverja „statista“, sem eigi að koma til, hvenær sem aðalmanni passar ekki að greiða atkv. Slíkhugsun liggur alls ekki á bak við þetta frv. Ég skal játa, að síldarverksmiðjurnar eru svo þýðingarmikið fyrirtæki, að nauðsynlegt er að vanda þar til stjórnarnefndarmanna, bæði aðalmanna og eins varamanna, ef þeir eru. En sé nauðsynlegt að vanda þar til allra manna, þá er nauðsynlegt, að stjórnin sé á hverjum tíma fullmönnuð. Hér er því alls ekki um léttúð að ræða. En um þá léttúð. sem hv. þm. var að dylgja um, að hefði verið sýnd í þessu fyrirtæki undanfarin ár, skal ég ekki ræða, ég vil ekki hleypa þeirri ólgu í þetta mál, sem slík ummæli gefa tilefni til, en það mætti kannske sýna fram á það, að hv. þm. S. Þ. hefði ekki sýnt minnstu léttúðina í þessu máli.

Ég heyrði, þrátt fyrir ræðu þessa hv. þm., ekki koma fram nein frambærileg rök gegn þessu máli. Það er aðeins tilhneiging hans til að vera á móti þessari skipun á stjórn verksmiðjanna, sem gerir það að verkum, að hann berst svo mjög á móti þessu frv.