07.05.1938
Efri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jónas Jónsson:

Ég ætla að bæta við einni röksemd enn til þess að gleðja þennan hv. þm. og til þess að sýna honum enn betur fánýti þessara svokölluðu röksemda hans. Það dæmi er frá hans eigin flokki, frá þeim manni, sem hann hefir stutt sem ráðh. nú til skamms tíma. Hjá honum hefir nú í vetur komið fram sú skoðun, að varamenn væru ekki jafngildir og aðalmenn. Þetta er ekki aðeins skoðun hans, heldur hefir það einnig komið fram í verki. Ef þessi skoðun hv. þm. Seyðf. er rétt, að fá þurfi dómsúrskurð um það, hvort sú atkvgr., sem varamaður tekur þátt í, sé fullgild, þá er það nokkuð óþægilegt. Það eru varamenn í tryggingarráði landsins samkvæmt l. frá í vetur, og var ég þar varamaður fyrir flokksbróður minn, hv. 2. þm. Rang. Í forföllum hans mætti ég í tryggingarráði og tók þar þátt í störfum með 2 mönnum öðrum. sjálfstæðisflokksmanni og alþýðuflokksmanni. Við gerðum þar nokkrar ákvarðanir, sem voru eftir l. alveg eins bindandi og nokkuð getur verið. En þegar kemur til ráðh., heldur hann því fram, að ekki sé löglegur sá meiri hl., sem ég hafi skapað með öðrum nm., af því að ég sé varamaður. Og hann lét ekki sitja hjá þetta, heldur breytti hann í bága við samþykktir tryggingarráðs, byggt á því, að atkvgr. hafi verið ólögleg, þar sem varamaður hafi greitt atkv. Og þegar rætt er um þetta í þinginu, segir hann, að þetta sé svo vafasamt, að það yrði að leggja það undir dómstól, og nú hygg ég, að eftirmaður hans, núverandi hæstv. atvmrh., sé í þann veginn að vísa til dómstólanna þessari framkvæmd fyrirrennara síns til þess að fá skorið úr því á þann eina hátt, sem hv. þm. Seyðf. gat sætt sig við, hvort varamannsatkv. væri gilt eða ekki. Ég vona, að þetta hafi áhrif á hv. síðasta ræðumann og flokksbræður hans, því að það mundi áreiðanlega ekki styrkja það mál, sem þeir berjast fyrir, ef það þyrfti hæstaréttardóm um ákvörðun viðvíkjandi hverri einustu sölu, sem er gerð með atkv. þeirra varamanna, sem hv. þm. er að berjast fyrir. En ef það er þannig að varamenn hafi gildi eins og aðrir menn, þá verður það kannske til þess, að þessi hv. ræðumaður skilur, að hans flokksbræðrum séu mislagðar hendur, þegar þeir eru að braska við þetta varamannaskipulag, því að ef það er rétt, að varamenn séu fullgildir, þegar þeir koma inn, þá hefir hans fyrrv. húsbóndi haft á meira en lítið skökku að standa, og hver segir, að Alþfl. hafi á réttara að standa nú en þegar hann verður að leita til dómstólanna í öðru tilfelli um það, hvort varamenn séu gildir eða ekki.

En svo að ég komi að hinu, þá tókst hv. þm. ekki, sem varla var heldur von, að hrekja það, sem var aðalatriðið í minni ræðu, en það er eðli þessarar verksmiðjustjórnar. Hún er framkvæmdarstjórn, en hefir ekki þau vinnubrögð, sem stjórnarnefndir annars hafa. Ég tók sem dæmi það fyrirtæki. sem hæstv. forseti þessarar d. er formaður fyrir, sem er Kaupfélag Eyfirðinga. Hann er búsettur ekki langt frá Akureyri, og meðstjórnendur hans fjórir eru ekki heldur búsettir langt frá. Þar er fyrirkomulagið eins og gerist og venja er í fyrirtækjum, að stjórnin kemur saman og tekur ákvarðanir um almenna hluti, en blandar sér aldrei inn í einstakar sölur, eins og gert er í síldarverksmiðjunum. Það getur verið, að framkvæmdastjórinn spyrji formanninn eða stjórnina í vissum tilfellum, hvort eigi að gera þetta eða hitt, en allar þær daglegu fjárhagsframkvæmdir sér framkvæmdarstjórinn um. Við síldarbræðslurnar á Siglufirði eru aftur á móti 6 menn, sjálfur framkvæmdarstjórinn og svo 5 manna stjórnarnefnd, svo að það væri enginn lífsháski, þó að einn þeirra yrði veikur af kvefi vikutíma eða því um líkt.

Í þessu, sem ég hefi nú sýnt fram á, er einmitt fólgin sú eyðileggjandi röksemd fyrir þennan hv. þm. Það, sem hér er um að ræða, er jafnmikil fjarstæða eins og að hafa varabankastjóra í bönkunum eða vararáðherra. Það gæti fljótt á litið verið þægilegt, ef ráðh. þyrfti að sigla. að hafa vararáðh., sem gegndi störfunum í forföllum hans, en það er aldrei gert hjá neinni þjóð. Það gæti líka sýnzt þægilegt að hafa varabankastjóra, en það er aldrei gert, því að það er of vitlaust til þess, að mönnum hafi hugkvæmzt það, nema kannske þeim hv. þm., sem standa að þessu frv.

Við getum tekið stjórn Sambands íslenzkra samvinnufélaga, sem heldur fund tvisvar til þrisvar á ári. Heldur hv. þm., að SÍS færi á höfuðið fyrir það, þó að stjórnarnefndarmennirnir séu þar ekki daglega. Þeir eru þar alls ekki; það er framkvæmdarstjórinn, sem gerir hlutina, allt það sem daglega þarf að ákveða. Stjórnin tekur aðeins þær almennu ákvarðanir, en sér ekki um sölu á vörunum, eins og verksmiðjustjórnin á Siglufirði.

Í stuttu máli, það sem eðlilegast væri að gera, væri að vísa þessu frv. frá með dagskrá, sem væri byggð á því, að á meðan þjóðfélagið sæi ekki ástæðu til að hafa vararáðh. eða varabankastjóra, væri ekki heldur ástæða til að hafa varaframkvæmdarstjórn við svona fyrirtæki, og væri því tekið fyrir næsta mál á dagskrá. En ég álít, að þetta mál eigi að lifa og deyja á því, hvort menn vilja gera þarna vitleysu eða ekki. Ég hefi ekki hirt um að „agitera“ í þessu máli, og það getur vel verið, að hv. þm. sé búinn að afla sér liðskosts til að koma þessu máli fram, en rökin eru öll á móti honum, meðan hann getur ekki sýnt fram á, að rétt væri að hafa varabankastjóra, þegar bankastjórarnir færi í sumarfrí, eða vararáðh., þegar ráðh. væri í burtu, getur hann ekki komið með nein frambærileg rök fyrir þessu frv., vegna þess að síldarverksmiðjustjórnin er framkvæmdarstjórn og hefir allt öðruvísi starf en stjórnir annara fyrirtækja. Það má segja, að hægt sé að rökstyðja það málfræðilega, því að í báðum tilfellunum heitir það stjórn, en alls ekki raunverulega, af því að þessari stjórn er með l. ákveðið allt annað hlutverk en öðrum stjórnum.

Hv. þm. var að gefa þá skýringu, að ekki væri meiningin, að varamaður kæmi til, nema aðalmaður væri forfallaður svo mánuðum skipti. Ef málinu hefði verið sýnd sú alvara, að taka það fram í frv., þá hefði þó mátt segja, að það hefði þó verið tilraun til að fá botn undir málið, en það er ekkert gert, og það sýnir, hvað gersamlega vanhugsað frv. er. Eftir frv. þarf ekki annað en að aðalmaður fari úr bænum einn dag, þá getur varamaður gengið inn í hans stað.

Ég vil einnig taka það fram, að því síður er ástæða til að fara að hringla í þessum l., þar sem lítur út fyrir, að nú sé loks skapaður friður um þessi fyrirtæki eftir margra ára ósamkomulag og ólag, deilur og hneykslismál, sem náði hámarki sínu, þegar óþroskaður maður, sem þá var framkvæmdarstjóri og þessi hv. þm. er ábyrgur fyrir, fór að gera tilraun með kælingu á síld, undir þeim kringumstæðum, sem aldrei höfðu áður þekkzt, setti fastar í það 200 þús. kr. af fé verksmiðjanna og varð svo að flýja til annars lands. því að honum varð ekki vært á Siglufirði, af því að menn hlógu svo mikið að honum. Þegar menn voru lausir við þennan mann og þetta ósamkomulag, og loks var komin stjórn, þar sem gamlir andstæðingar vinna saman og líta ekki á gamlar erjur, heldur það, hvað fyrirtækinu kemur vel, þá kemur sá flokkur með þetta, sem borið hefir aðalábyrgðina á ástandinu á Siglufirði, a. m. k. í tvö ár, og hefir þar svo herfilega sögu að segja, að það er ekki nema hálfsögð sagan enn, og ríkið er ekki búið að bíta úr nálinni með þau axarsköft, sem leitt hefir af framkomu Alþfl. þar síðustu missiri. Það er hart, að þessir sömu menn skuli þykjast vera þess umkomnir, að koma fram með svokallaðar umbætur á löggjöfinni um þessar verksmiðjur, þegar kominn er framkvæmdarstjóri, sem vinnur að öðru en að auglýsa sig sjálfan í útvarpinu tvisvar í viku, þegar hann er að ofbjóða vélunum. Þegar komin er starfhæf stjórn og starfhæfur framkvæmdarstjóri, þá koma hinir sömu menn, sem hafa þessa fortíð og ætla að breyta þessu af athugaleysi, því að ég þykist vita, að hv. síðasta ræðumanni og hv. flm. sé það ekki ljóst, að þeir eru að reyna að koma þarna á upplausnarskipulagi, sem ekki er hægt að réttlæta í skjóli neinnar þekkingar um fyrirtæki með sambærilegu sniði. Meðan hv. þm. sýnir ekki fram á. að fjármálaheimurinn hafi tekið upp á því að hafa varabankastjóra, eða hafðir séu vararáðh., þegar hinir eiginlegu ráðh. eru ekki við, þá stendur það fast, að það, sem hann ætlast til hér, er undantekning, er hugsunarvilla, því að eftir hans kokkabók er ekkert því til fyrirstöðu, að milljónasala á landsins kostnað sé framkvæmd af augnabliksmeirihluta, sem myndast af því, að nýr maður kemur inn í stjórnina, sem ekki er kunnugur málavöxtum.

Þótt ég meti Alþfl. á margan hátt, þá met ég hans forstöðu í síldarmálunum eins lítið og forstöðu flokksins í vinnudeilum undanfarna daga og mánuði, þar sem hann hefir hjálpað kommúnistum, eftir því sem hann hefir getað, til þess að halda við vinnuófriði, svo að atvinnan í landinu geti ekki borgað sig. Hv. þm. veit, að það hafa hvergi komið fréttir um batnandi verð. en það hafa komið fréttir um það, að síldin væri í helmingi minna verði en í fyrra. Flokksblöð hv. þm. standa samt fullt og fast með því, að það eigi að hækka kaupið á Siglufirði hjá þeim, sem eru þar bezt settir, þótt það verði, til þess að gera slíkt, að taka af sjómönnunum, sem ekki voru of vel settir áður. Ég vil segja hv. þm. það, að stjórn Alþfl. á síldarbræðslunum á Norðfirði og Seyðisfirði gerir mig ekki fúsari til að ganga inn á nýjungar í skipulagi, sem er á móti allri reynslu, sem maður veit um. Hv. þm. á eftir að gera grein fyrir þrónni á Siglufirði, sem Gísli Halldórsson lét byggja á ábyrgð Alþfl. Hann á líka eftir að gera grein fyrir 113 þús. kr. tapi á síldarverksmiðjunni á Seyðisfirði. Þegar ríkið var búið að leggja stórfé til þessa bæjar af fátækt sinni, þá var hafið þar verkfall af Alþfl., svo að útkoman var sú, að skilið var við þetta fyrirtæki með 113 þús. kr. tapi og algerðu gjaldþroti á fyrirtækinu.

Hv. þm. má skilja, að það er fullkomin alvara í þessu, að það verður að gera það upp, hvort forstaða Alþfl., eins og hún hefir verið undanfarin ár á síldarbræðslunum, eigi að halda áfram eða það eigi að verða stefnubreyting í þeim efnum.