10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Um þessar brtt., sem fyrir liggja, get ég verið fáorður. Þær eru algerlega í samræmi við þann skilning, sem ég lagði í þá nauðsyn að hafa varamenn, og það, hvernig varamaður ætti að vera kallaður til starfa, eins og ég útlistaði það við 2. umr. Hinsvegar er mér gleðiefni sú stefnubreyting, sem hefir orðið hjá hv. þm. S.-Þ., þar sem hann í raun og veru komst inn á þá skoðun, að varamaður gæti verið nauðsynlegur eftir þeim varúðarráðstöfunum, sem hér er ætlazt til að gera með þeim brtt., sem fyrir liggja. því að við 2. umr. hnigu umr. hans nær eingöngu að því, að telja þetta ónauðsynlegt og skaðlegt. Ég gleðst yfir þessari stefnubreyt. og fjölyrði ekki frekar um það, þar sem mér skildist hann vera fylgjandi annari hvorri þeirri brtt., sem fyrir liggja.

Brtt. hv. 2. þm. S. M. er í mínum augum alveg nægilegt öryggi, þar sem gert er ráð fyrir, að atvmrh. dæmi um í hvert skipti, hvort nauðsynlegt sé, að varamaður komi til starfa í stjórninni. Hin brtt. stefnir að vísu að sama marki, en þar er það bundið við óskir aðalmanns, hvenær varamaður komi inn, og engin takmörk sett fyrir því, hvenær hann megi óska þess. Ég mun greiða atkv. með brtt. hv. þm. S.-M. En hin brtt. mun koma á undan til atkvgr., og mun ég láta hana afskiptalausa.

Hv. þm. S.-Þ. blandaði því hér inn í umr., sem gerðist síðastl. vetur, þegar hann gerðist nokkurs konar boðflenna í tryggingarstjórninni. Það er vitanlegt, að það hafði ekki verið tilkynnt aðalmanninum, að fundurinn skyldi haldinn til þess að útkljá ákveðið mál. Honum var ókunnugt um fundinn, og varamaður kom þar inn í. Úskurður fyrrv. atvmrh. taldi mjög hæpið, hvort þetta væri löglegt, þar sem aðalmaður hefði ekki verið kallaður til að mæta á fundinum. Og þó að dómstólarnir eigi að fjalla um það, getur maður vænzt þess, að þeir líti á málið á sama veg og fyrrv. atvmrh., að hér hafi gripið inn í maður, sem ekki hafði átt að fjalla um málið.