10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

47. mál, laun embætissmanna

Guðrún Lárusdóttir:

Þá er búið að undirbúa þetta mál. Hv. Nd. hefir haft það til meðferðar, og það er komið frá þeirri deild hingað, og á auðsjáanlega að ganga fram, sem betur fer.

Annars er alleinkennilegt að heyra prófasts- og prestssoninn hér í deildinni beita sér svo ein­dregið móti svona frv. Ég hugsa til þess, er ég sat í Hólakirkju og hlustaði á ágætismanninn síra Zóphónías Halldórsson í Viðvík, þar sem hann talaði af sinni hreinu trú og sálargöfgi, og mundi mig þá ekki hafa dreymt fyrir því, að sonur hans ætti eftir að standa upp hér á Al­þingi til að ráðast á jafnsjálfsagt mál og það að láta þá embættismenn þjóðarinnar, sem þjóð­in getur sízt án verið, fá þau laun, sem þeim ber, því að sannarlega er ekki farið fram á neitt annað í frv. Það er farið fram á, að í prestaköll­um, sem eru afskekkt og hafa erfiða staðhætti, megi borga prestinum full laun strax, en hann sé ekki dreginn á launahækkun lengi, þangað til einhver sérstakur tími er kominn. Hv. þm. sagði, að þjóðin væri allt of fátæk til að takast slíka útgjaldaaukningu á hendur, sem frv. mundi leiða af sér, og að margt annað væri þarfara. Það verður nú sjálfsagt alltaf álitamál, hver þarfasta verkið vinnur í einu þjóðfélagi. Og því er stund­um þannig háttað, að störf verða hvorki með tölum metin né á vogar vegin. En ekki veit ég, hvort í fljótu bragði er hægt að benda á þarfari starfsmenn en læknana og prestana. Og ég hygg, að þessar tvær tegundir embættismanna séu þær stéttir, sem frá öndverðu hafa mest og bezt þolað súrt og sætt með íslenzku þjóðinni. Eða vill hv. þm. mótmæla því, að það sé presta­stéttin íslenzka, sem lengst og bezt hefir staðið með alþýðufólkinu í sveit og bezt stutt að menn­ingu þess og menntun? Stefnu hans um það að vilja láta menn vinna sig upp í fulla launahæð, skal ég ekki hreyfa við; það er aukaatriði fyrir mér. En stefna hans að verulegri prestafækk­un gegnir öðru máli. Ég held, að hv. þm. mundi yfirleitt ekki gera íslenzku þjóðinni neinn sér­stakan greiða með því að beita sér fyrir því sem fulltrúi hennar að fækka þessum embættismönn­um til muna, eins og hann segist helzt vilja. Ennfremur segir hann, að kröfur fólksins hafi breytzt í þessu efni, og skildist mér hann eiga við, að kröfur fólksins um að fá að hafa presta yfirleitt færu minnkandi. Fólkið kærði sig ekki lengur um þessa embættismenn. Það er nú ekki afskaplega langt síðan fyrir þinginu lá frv. um verulega prestafækkun. Það var ekki samþ., en sent til umsagnar safnaðanna úti um landið. Það komu svör víðsvegar að. Og þau svör bentu yfir­leitt ekki á, að fólkið hér í landinu óskaði eftir, að prestum fækkaði. Að vísu sagði hv. þm., að það væri ýmislegt annað en prestsþjónustan, sem fólkið seildist eftir, þegar það vildi hafa prest, — prestsþjónustuna stæði því á sama um, skild­ist mér. En er hann nú svo öldungis viss um það, þessi hv. þm., að það séu ekki æðimargir í byggðum landsins, sem einmitt meta prestsþjón­ustuna, starf prestsins sem prests, slíks, að þeir vilja alls ekki missa hann? Prestarnir hafa lengst af verið í raun og veru einu menntuðu menn­irnir í hverri sveit, og þess vegna hafa þeir oft og einatt með ráðum og dáð staðið bezt að því, sem krafizt hefir þekkingar. Ég játa, að þetta er nú töluvert breytt, því að menntun manna hefir aukizt almennt, og við eigum meiri kost á þekk­ingarmönnum til ýmissa starfa heldur en fyrir hálfum mannsaldri. En þetta út af fyrir sig sann­ar ekki það hjá þm., að það sé prestsþjónustan, sem fólkið hirðir ekki um. Ég vil leyfa mér að kalla það sleggjudóm, þegar hann segir, að fólkinu sé sama um þetta. Við skyldum koma norð­ur í Hjaltadal og kynna okkur það fólk, sem var ungt á þeim dögum, þegar það naut prests­þjónustu hins ágæta föður þessa þm. Við skyld­um spyrja þetta fólk, það sem enn er ernt og hefir ósljóvgaða hugsun, hvort það hefði kosið það á þeim tíma, að séra Zóphónías hefði farið burt. Hv. þm. getur sagt, að þetta sé liðin tíð, þetta hafi verið sérstakur maður og sérstakt fólk. En þannig er það bara á öllum tímum. Ég er al­veg viss um, að það er ekki einn einasti söfnuð­ur á Íslandi, þar sem það fólkið er ekki fleira, sem óskar eftir prestsþjónustu, heldur en hitt, sem ekki óskar þess. — Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, en ég vildi láta þessa skoð­un mína koma hér fram.

Þá sagði hv. þm. eitt, sem mér fannst ekki bera vott um mikla lýðræðisstefnu, sem sí og æ er þó verið að klífa á nú á dögum. Hann vill sameina prestaköll án þess að ráðfæra sig nokkuð við söfnuðina. M. ö. o., hann vill svipta söfnuðina því að geta sagt álit sitt um málið.