10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

47. mál, laun embætissmanna

Páll Zóphóníasson:

Hv. 2. landsk. talaði eiginlega ósköp lítið um frv., sem liggur fyrir, og hvað það snertir þarf ég litlu að svara. Hún féllst þó á, eða vildi láta liggja milli hluta, að rétt væri, að allir, sem í embætti færu. kæmust strax á hæstu laun. En í því sambandi hefir hv. þm. ekki séð greinaskilin milli 1. og 2. gr., því að hún talaði um, að l. gerðu einungis ráð fyrir því að veita prestum í fámennum prestaköllum strax þessi hæstu laun, og virðist þá hafa lesið I. gr., en ekki athugað, hvað stendur í 2. gr. Ég vildi, að hún hefði lesið áður en hún talaði í málinu, þá hefði hún ekki lent í þessum ógöngum með prestana.

Hv. þm. minntist mjög lofsamlega á föður minn, og skal ég ekkert úr því draga. En í því sambandi talaði hún um, að mjög fjarri lagi væri hjá mér, að kröfur til presta hjá fólki væru breyttar. Hvernig er þetta í gömlu sókninni, þar sem ég er fæddur? Var það ekki svo, að faðir minn væri sóttur svona einu sinni eða tvisvar í mánuði til að þjónusta menn? Þetta varð hann að fara ríðandi. Hvernig er þetta nú? Presturinn, sem nú situr, hefir líklega þjónustað tvisvar, og það heima hjá sér, síðan 1908. Eru þetta sömu kröfur og gerðar voru áður? Svona má fara hringinn í kringum landið. Það eru allt aðrar kröfur heimtaðar og þar af leiðandi miklu færri presta þörf. Mér er þetta ákaflega vel kunnugt. Ég hefi komið í allar sóknir landsins, og þetta hefir ákaflega víða borizt í tal. Og ég get flokkað prestana í þrjár tegundir hér á landi, og fólkið í kringum þá. Ég vil lofa hv. 2. landsk. að heyra það, því að það er sannleikur. Það eru nokkrir prestar, ég held þeir nái ekki tíu, — líklega eru þeir kannske 11–12, sem söfnuðirnir hafa ekki minna dálæti á en var í þá góðu og gömlu daga, sem hv. 2. landsk. talaði um í Viðvíkursókn. Þetta eru menn, sem söfnuðurinn lítur mjög upp til (MJ: Hverjir eru þessir menn?) og hefir ákaflega gaman af að hlusta á. Vera kann, að hv. 1. þm. Reykv. lifi það að fá að sjá skýrslu um þetta. Það er ekki búið að prenta hana, en hefir verið barizt fyrir því á undanförnum þingum og lítur út fyrir, að það fáist nú.

Ég ætla, að það séu svo þrír prestar, sem af hv. 1. þm. Reykv. og mér og ýmsum öðrum eru taldir rétt meðalmenn eða varla það í sinni stöðu, en eru samt í mjög miklu afhaldi í sínum sóknum, og sem gera þar ýmislegt fleira en prestsverk. Þeir t. d. skrifa bréf fyrir ýmsa í sókninni og ýmislegt annað. Þeir eru ósköp líkt fyrir þessar sóknir og prestarnir voru fyrir 40–50 árum, og eins og þeir enn lifa í endurminningu hv. 2. landsk. síðan kemur hinn stóri hópur, sem mönnum er nokkurn veginn sama, hvort þeir hafa eða ekki. Þegar talað er um þetta við þá, — já, jú, — ójú, þeir láta þetta hlutlaust; það er ekki meira. Hv. 2. landsk. lagði mikið upp úr áskorunum, þegar málið lá fyrir þinginu 1934 og 1935. Sem sýnishorn af því, hvað mikið má upp úr þeim leggja, skal ég segja þetta um eina áskorun: Það flytur prestur úr prestakalli, þar sem ekki er nema ein kirkja. Honum var veitt annað prestakall. En í fyrra prestakallið kom enginn prestur, og er ekki kominn. Árið eftir að presturinn fór var útlit fyrir, að það yrði erfiðleikum háð að byggja prestssetrið. Það fékkst á það enginn maður, sem menn voru ánægðir með. Þeir skrifuðu mér og báðu mig að sjá um það, að ákveðinn maður, sem þeir nefndu, fengi lífstíðarábúð á prestsetrinu; þeim var ekki nein þægð í presti. Þeim nægði þjónusta nágrannaprestsins, sem gat vel annazt starfið, en þó átti hann heila dagleið að sækja. Ég talaði um þetta við ráðherra og biskup. Þeir sögðu, að ekki kæmi til mála, að á prestssetrinu yrði veitt þannig lífstíðarábúð. Svo fékk ég því til leiðar komið, að bóndinn, sem var á jörðinni, fékk hana til ábúðar, með því að standa upp þegar presturinn kæmi. En hann taldi þá nokkurn veginn öruggt, að ekki kæmi prestur. Árið eftir sendi nefnd, kosin af Prestafélagi Íslands, mann með undirskriftaskjal um það að óska eftir presti. Undir það skrifuðu allir sömu mennirnir og áður höfðu skrifað undir hina óskina. Þegar maður hefir þessi gögn bæði í höndum, þá verður hv. 2. landsk. að fyrirgefa, þó að maður leggi ekki afar mikið upp úr þeim og viti ekki almennilega, hvað menn meina með þessum undirskriftum. Þegar einhver maður segir já í dag og nei á morgun, þá veit ég ekki, hvort hann meinar frekar já eða nei.

Annars þarf ég ekki að lýsa minni afstöðu til prestanna. Það liggur ekki fyrir almennt. En það liggur fyrir á öðrum stöðum í Alþingi, að ég tel, að kirkjumálum þjóðarinnar og prestunum sé gerður óhemju greiði með því að fækka prestum og síðan gera prestunum mögulegt að lifa sæmilega í sinni stöðu, jafnframt því að skapa möguleika til að hafa sæmilegt verkefni að vinna. því að það er ekkert verkefni fyrir mann að sitja í söfnuði, þar sem er ein lítil kirkja og kannske á annað hundrað manns í sókninni, eins og sumstaðar er. Þeir, sem eru svo ólánssamir að fara undir á slíka staði, þeir hafa forpokazt og ekki orðið neinir prestar. En svo hefði ekki þurft að fara, ef þeir hefðu haft almennileg verkefni að vinna.