06.05.1938
Neðri deild: 66. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

133. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Frv. þetta er flutt af allshn., en lögreglustjórinn í Reykjavík hefir samið frv. og skrifað með því bréf, þar sem hann óskar sérstaklega eftir, að frv. gæti orðið að l. á þessu þingi. Það er raunverulega þrennt, sem óskað er eftir í frv., að setja megi í lögreglusamþykktir með bæjarstjórnarsamþykkt. Fyrsta atriðið er, að setja megi reglur í lögreglusamþykkt um sölu og dreifingu hverskonar varnings utan sölubúða og að einstakar vörutegundir megi aðeins selja í búðum, sem fullnægja vissum skilyrðum. Þetta atriði er til komið vegna þess, að allmikið hefir þótt bera á því nú sem stendur, að allskonar varningur sé borinn um og boðinn til sölu hér í bænum, auk þess sem allskonar vörur eru seldar á götunum, og margt af því eru vörur, sem heilbrigðisyfirvöld bæjarins hafa sett reglur um, að hafa ætti sérstakt hreinlæti við sölu þeirra. Ef farið er almennt að selja á götunum vörur, sem búið er að setja sérstakar reglur um, þá verður að setja enn strangari reglur þar að lútandi. Um heimild til að setja þetta í lögreglusamþykkt er aðeins beðið til þess að útiloka, að seldar verði slíkar vörur á götum bæjarins. Hefir sérstaklega verið óskað eftir, að þetta atriði yrði lögfest. bæði af félagi matvörukaupmanna, Alþýðubrauðgerðinni, félagi íslenzkra iðnrekenda, bakarasveinafélaginu, bakarameistarafélaginu og félagi stórkaupmanna. Allir þessir aðiljar, sem hafa sérstaklega með þetta að gera, hafa óskað eftir því með bréfum sínum til lögreglustjórans, og því hefir lögreglustjóri óskað eftir þessum lögum.

Í öðru lagi er óskað eftir heimild til að setja í lögreglusamþ. ákvæði um, að leyfi bæjarstjórnar þurfi um, hvort hafa megi fasta afgreiðslu bifreiða og annara flutningatækja á tilteknum stað eða í tilteknu húsnæði. Það er svo, að þótt mikið af Íslandi virðist vera óbyggt, þá eru erfiðleikar á að koma fyrir bifreiðastæðum í miðbæ Reykjavíkur. Virðist sjálfsagt að reyna að fá þetta ákvæði í lögreglusamþykkt, svo hægt sé að hlutast til um, að stöðvarnar séu ekki settar á óheppilega staði.

Í þriðja lagi er óskað eftir heimild til að setja í lögreglusamþ. ákvæði um, að hafa megi eftirlit með, hvar ljósaauglýsingar og skreytingar megi setja upp á almannafæri. Virðist mér sjálfsagt að setja um það reglur, því að það er ekki lítið atriði, að ekki séu leyfðar aðrar auglýsingar en þær, sem eru sæmilega smekklegar, svo ekki sé lýti að þeim. Vil ég því leyfa mér að flytja þau skilaboð frá lögreglustjóra til hæstv. forseta, að hann reyni að koma þessu máli sem fyrst í gegnum hv. d.