28.04.1938
Neðri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Ólafur Thors:

Sjálfstfl. hefir ekki haft tækifæri til þess að taka endanlega afstöðu til þessa máls, og ég mun þess vegna ekki við þessa umr. fara ýtarlega út í neitt annað en höfuðefni frv.

Ég vil þá fyrst geta þess, að það er nokkuð langt um liðið frá því, að hæstv. fjmrh. skýrði mér frá, að hann hefði í hyggju að bera fram frv. sem þetta, og léði hann mér til athugunar grg. þá, sem nú er, að litlu eða engu breytt, prentuð með þessu frv. Og það mun hafa verið á föstudaginn var, sem hæstv. ráðh. óskaði eftir því við mig, að ég tilkynnti Sjálfstfl. þessa fyrirætlan hans, og það hefi ég gert. En flokknum hefir hinsvegar ekki unnizt tími til þess að taka endanlega ákvörðun um málið.

Ég get ekki leynt því, og sé heldur ekki ástæðu til þess að fara dult með, að það er mín skoðun og annara sjálfstæðismanna, að ef sú stefna hefði ríkt í stjórn landsins, sem við sjálfstæðismenn teljum farsælasta, þá mundi ekki hafa orðið þörf fyrir þetta lán, sem nú er rætt um að taka. Ég býst við, að Sjálfstfl. hefði freistað þess að halda áfram þeirri stefnu í fjármálum, sem sú stjórn Sjálfstfl., er með völdin fór 1924–1927, fylgdi. Af því mundi hafa leitt, að ríkið hefði gert miklu minni kröfur til skattborgaranna, en það hefði hinsvegar haft þá öllum skiljanlegu afleiðingu, að gjaldeyrisþörfin hefði orðið minni.

Það er einnig skoðun mín og annara sjálfstæðismanna, að ef við hefðum farið með völdin í landinu, þá mundi meira framtak hafa verið í atvinnulífinu. M. ö. o., við lítum þannig á, að hinar margvíslegu hömlur og höft, sum nauðsynleg og önnur ónauðsynleg, hafi orðið til þess að lama framtakið í ríkara mæli heldur en vera mundi, ef stefna okkar hefði ráðið hér á landi. Við teljum þess vegna, að ef við hefðum farið með völd, hefði annarsvegar verið minni gjaldeyrisþörf, vegna minnkandi eyðslu hins opinbera, en hinsvegar meiri gjaldeyrisframleiðsla, ef svo mætti að orði komast, og að þess vegna hefði ekki þurft að grípa til þessa láns, sem nú er verið að ræða um. — En þetta er náttúrlega hlutur, sem menn geta deilt um, og má vel vera, að andstæðingar okkar hafi um það aðrar hugmyndir en við, en það raskar náttúrlega ekki því, að þetta er okkar skoðun, og við teljum hana byggða á fullum rökum.

En það þýðir ekki um þetta að tala, það er komið, sem komið er. Og það er engum vafa undirorpið, að hver einasti maður, sem fylgist með fjárhagsástandi landsins, viðurkennir, að við eigum nú í hinum mestu þrengingum, sem að vísu sumpart má rekja til atburða, sem engin ríkisstj. fær við ráðið, eins og t. d. aflabrests á vertíðinni, sem hæstv. ráðh. gerði að sérstöku umræðuefni. En í því sambandi má þó athuga tvennt. Annarsvegar það, að úr því að við misstum sölumarkaðinn í jafnríkum mæli og raun er á, þá hefði það heldur ekki reynzt eingöngu til gæfu, ef þorskaflinn hefði verið svipaður eins og hann var á árunum 1930–1934. Það hefði að mínni hyggju leitt beinlínis til mikilla erfiðleika, þótt þeir hefðu verið allt annars eðlis heldur en þeir, sem við nú eigum við að stríða. Og ég veit, að hv. þm. skilja, að það hefði verið lítill fengur fyrir okkur Íslendinga að afla mikils þorsks, ef hann hefði reynzt óseljanlegur. En sérstaklega hefði slíkt verið erfitt viðfangs og örlagaríkt ef í stað aflabrests á sviði þorskveiðanna hefði komið aflabrestur á sviði síldveiðanna, en það er svo fjarri því, að síldin hafi brugðizt, að hún hefir þvert á móti fullkomlega bætt upp aflabrestinn á þorskveiðunum. Sá munur hefði þar á verið, að þorskurinn hefði verið framt að því óseljanlegur, en síldin hefir verið seljanleg. En þótt þetta sé svona, þá raskar það ekki hinu, að við erum nú í mjög erfiðum kringumstæðum með að fullnægja gjaldeyrisþörf þjóðarinnar, og skal ég, án þess að fara að ræða nokkuð verulega, aðeins taka tvö mjög nærtæk dæmi.

Svo sem vitað er, þá er hér fremur tregur þorskafli í bugtinni fyrir aðra báta en þá, sem geta veitt með netum. En þess er enginn kostur að fá keypt þorskanet hér á landi, og stafar það ekki af neinni fávizku hjá þeim mönnum, sem um þau mál fjalla. En afsökun sína hafa þeir í því, að gjaldeyrisþörfin er svo mikil, að menn reyna að hliðra sér hjá að kaupa annað en það, sem er augljós þörf fyrir, en þörfin í þessu efni er hinsvegar nokkuð á huldu, þar til fram á vertíð er komið, og því hefir það mætt afgangi.

Annað dæmi er enn skýrara, og ég nota það í aðfinnsluskyni við hæstv. fjmrh. Mér er sagt, að það skorti mikið á, að grænmetisverzlun ríkisins hafi haft nægilega mikla aðdrætti á útsæði, svo að menn geti sáð eftir því, sem þeir óska. Það eru náttúrlega vandræði, að slíkt skuli henda. Ríkið hefir sjálft áskilið sér einkarétt til þessarar verzlunar. Og ef það er í raun og veru svo, að það standi undir þeirri skyldu, sem af slíkum einkarétti leiðir, á þann hátt, að ekki einu sinni þeir, sem fyrirfram hafa pantað útsæði, geti fengið það — hvað þá hinir —, þá er engin afsökun til fyrir þessu önnur en sú, að gjaldeyririnn sé af svo skornum skammti, að jafnvel ríkustu nauðsynjar þjóðarinnar verði að vera útundan. Ég hygg nú samt, að þótt ástandið sé mjög erfitt, þá sé það ekki svo slæmt, að þetta megi henda. Ég geri ráð fyrir því, að þessi skýrsla, sem mér hefir borizt um þetta efni, sé rétt, enda er mér persónulega kunnugt um það, að forstjóri einksölunnar hefir skýrt frá því, að hann hafi ekki fengið gjaldeyri til þess að flytja inn það, sem hann teldi nauðsynlegt í þessum efnum.

Að svo miklu leyti sem segja má, að þetta sé í beinu sambandi við það mál, sem hér er um að ræða, þá hnígur þetta í þá átt, að gera mönnum sem ljósast, að hér er í raun og veru um mikla erfiðleika að ræða, enda skal ég síðastur manna þræta fyrir, að svo sé.

Þá er það ýmislegt í grg. frv., sem ég tel hæpið og jafnvel ekki rétt, en það er aukaatriði, og ég mun ekki á þessu stigi málsins fara út í það. En svona sem dæmi um það. hvað ég tel aðfinnsluvert í þeim málflutningi, vil ég taka það fram, að auk þess, sem á það er minnzt í grg., þá gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir því, að hann teldi erfiðleikana stafa af því, að við hefðum svo að segja hætt að flytja inn erlent lánsfé á árunum 1935–1937. En ég hygg, að þetta sé ekki rétt hjá hæstv. fjmrh. Hann gerði sjálfur grein fyrir því, að við hefðum flutt inn Sogslánið og auk þess nokkurn hluta þess láns, sem tekið var á öndverðu árinu 1936. En mér skilst, að höfuðmisskilningurinn hjá hæstv. ráðh. liggi í því, að hann tekur ekkí tillit til þess, hversu mikið skuldir Íslendinga hafa hækkað við útlönd á þessum árum. Sjálfur telur hann í grg., að þessar skuldir séu í árslok 1934 83,5 millj. kr., og ég hygg, að það skakki ekki miklu, að þær séu nú 105–110 millj. kr. En ef það er rétt hjá mér annarsvegar, þá hefir skuldaaukningin á þessum árum orðið 22–27 millj. kr., en það er auðvitað innflutningur erlends fjár.

En að því nú er sjálft þetta frv. snertir, þá tel ég um þrennt að ræða í þessu sambandi. Í fyrsta lagi það, að hæstv. ráðh. með sínu valdi hlutast til um, að bankarnir láti þær þarfir fyrir erlendum gjaldeyri, sem hér er um að ræða, sæta forgangi, þannig að áður en allir aðrir aðiljar koma til greina, verða greiddar afborganir af ríkisskuldum, bankaskuldum og þeim skuldum, sem ríkið er í ábyrgð fyrir. Þetta er auðvitað leið, sem getur komið til mála. en þá verðum við að vera reiðubúnir til þess að horfast í augu við að skera innflutninginn þeim mun meir niður sem þessari upphæð svarar. Og hvað glæsilegt það er, má nokkuð marka af því, að það er engum vafa undirorpið, að talsvert skorti á, að það hafi orðið raunverulegur greiðslujöfnuður 1937. Það er líka bezt að hafa hliðsjón af því, að um áramót 1936–1937 voru í landinu um 10 þús. smál. af fiski, en um síðustu áramót ekki nema 2 þús. smál. Fari nú svo, að aflabrögð þessa árs fari fram úr aflabrögðum síðasta árs, sem ég ekki tel rétt að reikna með, þá skortir þarna 3–4 millj. kr. á sömu gjaldeyrisframleiðslu eins og við þó höfðum á síðasta ári. — Og enn er þess að gæta, að enda þótt síldveiðin reynist söm og á síðasta ári, þá veldur verðfall síldarinnar því, að fyrir þá framleiðslu mundum við fá a. m. k. 3–4 millj. kr. minna heldur en á síðasta ári.

Af öllu þessu er auðséð. að hafi erfiðleikarnir verið miklir í fyrra, þá benda líkur til, að þeir verði mikið meiri í ár. Þetta verðum við að hafa hugfast, þegar við gerum það upp við okkur, hvort við treystum okkur til þess að standa undir þeim afborgunum af erlendum skuldum, sem við þó reyndum að standa undir á síðasta ári. En ef við treystum okkur ekki til þess, þá má athuga utan þessa frv. tvær aðrar leiðir. Þá leið fyrst, að taka okkur sjálfsvald um greiðslufrest (moratorium) á afborgunum okkar skulda. Nú hefi ég ekki leyfi til þess, eins og ég sagði áðan, að kveða neitt upp um það, hvaða afstöðu Sjálfstfl. ætlar að taka til þessa máls, en ég hefi áreiðanlega leyfi til þess að lýsa því sem skoðun hans, að hann mun seinastur af öllum stuðla að því, að sú leið verði farin, að ríkið neiti að greiða afborganir af sínum skuldum, meðan nokkur önnur leið er opin. Ég er sammála þeirri skoðun, sem ég hefi orðið var við hjá hæstv. fjmrh. og öðrum, að það sé slíkt neyðarúrræði, að inn þá braut megi aldrei leggja, meðan nokkurs annars er úrkosta. Smáþjóð eins og Íslendingar verða að hafa það hugfast, að í fjármálum er dýrmætast að vera skilvís og eignast með því tiltrú. Það er engum öðrum fjársjóði fyrir að fara hjá okkur Íslendingum heldur en tiltrúnni. Við höfum til þessa reynt að standa í skilum, og okkur hefir út á við lánazt það sæmilega, þótt okkar fjárhagur sé nú mjög. bágur. En ég er sannfærður um það, að við eigum allir að leggjast á sveif um það að reyna að halda uppteknum hætti og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

Svo má náttúrlega taka það til athugunar, að hinir einstöku aðiljar, sem hér eiga hlut að máli, leituðu hófanna hver hjá sínum lánardrottni og reyndu að fá hans samþykki til greiðslufrests á þessum afborgunum. Það er náttúrlega á engan hátt óheiðarlegt að greiða ekki umsamdar afborganir, ef til þess kemur samþykki lánardrottins. En ég geri nú fyrst og fremst ekki ráð fyrir, að þeir mundu yfirleitt ganga inn á þetta, og í öðru lagi, þá yrði það auðvitað í miklu ríkari mæli til þess að útbreiða orðróminn um fátækt okkar heldur en ný lántaka.

Þetta er þó leið, sem mér finnst geta komið til athugunar alveg eins og að láta þessar þarfir ganga á undan öðrum gjaldeyrisþörfum.

Fjórða leiðin, sem hér liggur fyrir, er sú, sem frv. fjallar um. Um leið og ég hefi haldið fram, að þessi þörf væri ekki fyrir hendi, ef sjálfstæðismenn hefðu stjórnað málefnum þjóðarinnar, þá viðurkenni ég, að þörfin sé fyrir hendi.

Ég benti á, að af þeim leiðum, sem um er að ræða, sé ein útilokuð, en aðrar geti komið til greina. Ég treysti mér ekki fyrir hönd Sjálfstfl. til að taka afstöðu nú um þessar leiðir. En ég mun við 2. umr. málsins skýra frá því, hver verður endanleg afstaða okkar sjálfstæðimanna til þessa máls.

Hæstv. fjmrh. spurði, hvort rétt væri að lögfesta í sérstöku frv., hvernig fara skyldi með fé það, sem hér kemur til ráðstöfunar. Tel ég það ekki vera rétt. En hinsvegar sagði ég, að ég hefði heyrt raddir um það. Og hæstv. fjmrh. sagði, að hann væri fús til að semja um það, ef þess væri óskað. Um það getur verið að ræða við 2. umr. En mín skoðun er óbreytt um það. að ég tel, að lagasetning um það hafi enga þýðingu.