09.05.1938
Neðri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég ætla að byrja þar, sem hv. frsm. meiri hl. endaði, að hann telji framkomu okkar Sjálfstæðismanna í þessu máli ekki stórmannlega. En hún er a. m. k. það stórmannleg, að ég dreg í efa, að hv. frsm. hefði sýnt samskonar framkomu í okkar sporum.

En um það, hvort Sjálfstfl. sé samboðið að breyta um afstöðu til þessa frv., vegna ögrana hv. frsm., er það að segja, að ég hefi ekki og það er nú kannske ekki rétt af mér — tekið það mikið tillit til þessara ummæla hv. frsm., að ég hafi í hyggju að fara eftir þeim. En hv. frsm. hlýtur að skilja það, að það væri engin goðgá, þótt Sjálfstfl. tæki til athugunar að fara eftir þessu, þó án hliðsjónar af, hver það er, sem talar, þá er þó a. m. k. þess að gæta, að hann virðist tala í umboði sjálfs fjmrh.

Ég nenni nú ekki að fara út í að karpa um það, hvort Sjálfstfl. hafi nokkurn tíma komið með till. um almennan niðurskurð á fjárl. Ég vék nokkuð að því í minni fyrri ræðu og sýndi fram á, að við hefðum ekki einasta margboðið fram um það samkomulag, sem hver ábyrgur stjórnmálaflokkur hefði tekið fegins hendi, heldur einnig, þrátt fyrir það, að Framsfl. hefir ekki tekið tilboðum okkar, gert tilraunir til þess upp á eigin umdæmi, og nefndi ég þau tvö dæmi, að við hefðum borið fram till. um 700 þús. kr. niðurskurð og annarsvegar gert samninga við formann Framsfl. um 1 millj. kr. niðurskurð, en það verk hefði að engu orðið, með því að samtímis voru samþ. hækkanir á fjárl. á öðrum sviðum.

Ég hefi aldrei sagt, að innflutningshöftin geti ekki komið að neinum notum. Ég hygg einmitt, að þau undir vissum kringumstæðum geti komið að talsverðum notum, en ég dreg í efa, að okkur hafi verið til nokkurra bóta — og er þar í rauninni of lint að orði kveðið — að hafa nokkur innflutningshöft á þessum árum, eins og þau hafa verið framkvæmd, úr því að látið hefir verið undir höfuð leggjast að gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. En hitt er svo staðreynd við hliðina á þessu, að það hefir verið ill nauðsyn að hafa a. m. k. einhverjar hömlur, vegna þess að við út af samningum við aðrar þjóðir höfum með innflutningshöftunum orðið að beina innkaupum á nauðsynjavörum okkar í vissar ákveðnar áttir.

Þá var það rangmæli hjá hv. frsm. meiri hl., að ég hefði fallið á sveif með honum um það, að þess væri enginn kostur fyrir íslenzku þjóðina að greiða niður skuldir sínar á 20 árum. Ég sagði einmitt, að ég hefði um það miklar vonir. En það er ekki þessu máli viðkomandi, og ég játa og hefi ekkert farið dult með það, að ég tel ekki, að á þessu ári munum við geta það. —

Ég vísa algerlega heim til föðurhúsanna þeim ummælum, að ég hafi verið með slagorð. Ég hefi við umr. þessa máls gert fyllilega grein fyrir því, að frá sjónarmiði okkar Sjálfstæðismanna er ekki einungis um utanaðkomandi erfiðleika að ræða, sem þeim gjaldeyrisvandræðum valda, sem fyrir hendi eru, og hv. frsm. getur ekki ætlazt til þess, að ég fremur en hann í nál. sínu dragi fram í dagsbirtuna sérhvert það atriði, sem mætti verða þessari skoðun minni til rökstuðnings, og það af þeim ástæðum, að slíkt er fremur efni í ritgerð eða langa bók heldur en eitt nál.

Það er náttúrlega öllum vitanlegt, að aflaleysið hefir verið okkur óhagstætt. En hinsvegar er ekki hægt að telja þessar tvær raunir saman sem höfuðraunir þjóðarinnar, aflaleysið annarsvegar og markaðsleysið hinsvegar, vegna þess að við höfum getað selt allt, sem við höfum aflað. Hefði hinsvegar aflinn verið eins og venja hefir verið til, þá hefði markaðsbresturinn orðið okkur mjög mikið böl. (Fjmrh: Hefir Spánarlokunin ekki haft nein áhrif á verðið?). Ég held ekki, að við höfum haft neitt verra verð síðan Spánn lokaðist. Árið 1931 var verðið t. d. í 50 kr., og ég man satt að segja ekki, hvort við nokkurn tíma síðan 1932 höfum komizt nokkuð verulega upp yfir þetta, sem við búum við nú. Að vísu mætti ef til vill gera sér vonir um, að ef Spánarmarkaðurinn hefði þá ekki eins og aðrir markaðir farið að þrengjast, þá hefði eftirspurnin aukizt og það hefði hækkað verðlagið. — Nei, það tvennt, sem ég tel, að valdi meininu, og sem við sjálfir eigum sök á, er, að við ekki höfum gætt hófs í útgjöldum fjárl. annarsvegar, og svo hinsvegar, að við höfum ekki gert eðlilegar og nauðsynlegar ráðstafanir til þess að reyna að koma í veg fyrir, að atvinnuvegir landsmanna væru reknir með tapi.

Ég sé ekki ástæðu til að rífast við hv. þm. Ísaf. Það er það óþrifalegasta verk, sem nokkur þingmaður lendir í. Innrætið er alltaf það sama, og það er ómögulegt fyrir nokkurn mann að tala við hann án þess að lenda í skömmum, og ég hefi satt að segja alltaf dregið úr viðræðunum við þennan hv. þm., eftir því sem ég hefi setið á fleiri þingum með honum. Kannske er það af því, að hann er svo mikill kappi, að veifiskata eins og mér er ekki þorandi í hendurnar á honum. En án þess að fara að ræða neitt sérstaklega við hann, vil ég bara segja þetta: Öðrum fórst, en þér ekki! Að þessi maður, sem hefir verið nær dauða en lífi í marga mánuði af hræðslu við hv. 3. þm. Reykv. og kommúnista, skuli vera að tala um það, að Sjálfstæðismenn þori hvorki að stiga í aðra löppina né hina, er næstum því hjákátlegt. Nei, sannleikurinn er sá, að í þessu máli hefir Sjálfstfl., ef hann fylgir þeirri afstöðu er fram kemur í nál. mínu, sýnt bæði meira þor og þinglegri framkomu heldur en líkur benda til, að stjfl. hefðu sent, ef þeir hefðu verið í einhverri svipaðri aðstöðu. Ég veit ekki betur en að það komi daglega fyrir hér á Alþ., að bæði heilir flokkar og einstakir þm., jafnt við nafnakall og handauppréttingu, greiði ekki atkv. Og ef það væri nú ekkert annað, sem væri til vitnis um kjarkleysi hv. þm. Ísaf., heldur en það að greiða ekki atkv. í einstökum málum, þá væri ekki allur þingheimur skellihlæjandi, þegar hann minnist á kjarkleysi eða þor. Hitt er annað mál, að það þarf minna þor fyrir Sjálfstfl. til þess að greiða atkv. gegn þessu máli heldur en að taka þá afstöðu, sem hann hefir tekið og fram kemur í nál. mínu.