11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Eysteinn Jónason):

Ég bið hv. þd. að afsaka, að ég gat ekki verið hér á fundi í morgun. Ég átti ekki kost á að mæta á þeim fundi.

Ég held, að þetta mál hafi verið svo þrautrætt í hv. Nd. nýlega og einnig í eldhúsumr. í Sþ., að það sé ekki mikil ástæða til þess að fara um það sérstaklega mörgum orðum við þessa umr. Ástæðurnar fyrir flutningi frv. eru settar fram í grg. þess, og hún ber það glöggt með sér, að það er ekki gert ráð fyrir, að þessi lántaka verði til þess að auka skuldir þjóðarinnar við útlönd, þó að hún fari fram, heldur eingöngu til þess að mæta nokkrum hluta af þeim skuldagreiðslum, sem þurfa að fara fram á næstu árum, og það munu ekki vera skiptar skoðanir um þetta frv. Enda virðist mér allir hv. þm., sem um það hafa rætt, hafa viðurkennt það sem staðreynd, að ekki sé við því að búast, að hægt verði að lækka skuldirnar við útlönd um 434 millj. kr. eða þar um bil. Við höfum nú þriðja aflaleysisárið í röð. Ennfremur eigum við við að búa geysilegt verðfall á saltfiskinum. Þar að auki eigum við við að etja mikla samkeppni um saltfisksmarkaðinn, þar sem Norðmenn styrkja sína saltfisksframleiðendur í samkeppninni um markaðinn með því að greiða framleiðendum saltfisksins þar úr ríkissjóði 10 kr. á hvern saltfiskspakka, sem þeir selja til Portúgals, eða 30 kr. á hvert skippund. Það sjá allir, hvaða áhrif þetta hefir á okkar saltfisksframleiðslu ofan á aflaleysið.

Það er að vísu nokkuð rætt um orsakirnar fyrir því, hvers vegna komið sé eins og komið er í fjármálum okkar, eins og það sé eitthvað óvænt. Ég ætla nú ekki að fara langt út í þær umr. að þessu sinni, enda fór hv. 1. þm. Reykv. heldur ekki langt út í það. Það hefir líka verið þaulrætt. Ég hefi haldið því fram, og held því fram enn, að undanfarið hafi tekizt að bæta mjög verulega viðskipti okkar við önnur lönd. Hitt er líka staðreynd, að af því að við höfum hætt að flytja inn erlent lánsfé, hafa gjaldeyrisörðugleikarnir orðið tilfinnanlegri, og eru nú enn tilfinnanlegri en þeir hafa áður verið.

Ég skal játa, að það er kannske rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að það sé ekki mikil trygging fyrir því til frambúðar, að þetta fé, sem gert er hér ráð fyrir, að fengið verði að láni og selt þeim, sem þurfa að greiða skuldir, verði alls ekki notað til neinna nýrra framkvæmda eða nýrrar eyðslu, heldur látið aðeins liggja í sjóði til ávöxtunar. Það mundi vera sama, þó að ákvæði væru um það sett í l. nú, þá er þó ekki þar með fengin meiri trygging fyrir því. Tryggingin hlýtur að liggja í því, hvað Alþ. ákveður um þetta á hverjum tíma, og líka í því, hvernig menn treysta ríkisstjórninni, sem tekur við þessu máli, til þess að halda orð sín. Ég held því fram, að meðferð þessarar ríkisstj. á því lánsfé, sem hún hingað til hefir í hendur fengið, hafi verið í nákvæmu samræmi við það, sem hún hefir lýst yfir á Alþ. um það, þó að ekki hafi verið beint sett l. um það, hvernig því yrði varið. Það er heldur ekki víst, að það verði sú ríkisstjórn, sem nú er, sem fer með völd þann tíma allan, sem þetta fé á að verða til ávöxtunar, og því kannske ekki nægileg trygging í því fólgin, þó að þessi stjórn gefi yfirlýsingar um það, hvernig farið verði með þetta fé. Það er ekki tekið fram í einstökum atriðum í grg. frv., hvernig ávaxta eigi þetta fé. En ég hefi hugsað mér, að samið yrði við bankana, annanhvorn eða báða, um að setja féð á vöxtu, og að þá um leið yrði samið um það milli aðilja, hvernig útlánastarfseminni á þessu fé yrði hagað. Það má hugsa sér, að það þyrfti ekki að verða til neinnar sérstakrar útþenslu í útlánastarfseminni, þó að banki tæki þetta fé til ávöxtunar, m. a. vegna þess, að nú skuldar ríkissjóður allmikla upphæð í Landsbankanum, og ef þeim banka yrði falið þetta fé til ávöxtunar, mundi það verka óbeint eins og og að þessi skuld yrði greidd, þó að féð yrði lagt inn á sérstakan reikning, en þessi skuld stæði hinsvegar. Ég held, að það þurfi heldur ekki að óttast það, ef vel er að gætt að hafa samráð um þetta, að af þessu þurfi að leiða neina óeðlilega bólgu í viðskiptalífinu. Ég hefi ekki orðið var við, að slíkt hafi komið fyrir, þótt ríkissjóður greiddi árið 1935 upp lausaskuldir sínar í Landsbankanum. En það er ekki mikill eðlismunur á því fyrir bankann, hvort upphæðin er lögð inn á sérstakan reikning með sérstökum samningum um það, hvernig hún skuli látin laus á sínum tíma, eða hinu, hvort lausaskuldir eru greiddar upp tilsvarandi. Þess ber líka að gæta, að það verða aldrei nema 6 millj., sem komið geta til ráðstöfunar til útlána, því að fyrst ber að draga frá þessum 12 millj. kr. það, sem er áfallið af greiðslum, svo og kostnað við lántökuna; ennfremur 1 millj., sem fer til þess að reisa síldarverksmiðju á Raufarhöfn, og tæpar 4 millj., sem eru afborganir ríkissjóðs sjálfs. Það er gert ráð fyrir sjóðmyndun með því fé einu, sem ríkissjóður þarf ekki á að halda til greiðslu skulda. Það er einnig gert ráð fyrir því, að þeir, sem eiga að fá til kaups hluta af lánsfénu, gefi skuldbindingu um það, að þeir taki þátt í því vaxtatapi, sem kann að verða á þessum reikning. Er það sjálfsagt, að þeir, sem þarna fá forgang um gjaldeyri til greiðslu á sínum lánum, taki þátt í því á sama hátt og ríkissjóður sjálfur hlutfallslega. Það er ekki ástæða til þess að þetta vaxtatap lendi á ríkissjóði einum. Þó að þetta yrði erfitt í framkvæmd, þegar til lengdar léti, þá geri ég ráð fyrir, að það þyrfti ekki að verða verulegt vaxtatap á þessu fyrir ríkissjóð. Það er gert ráð fyrir, að þetta fé yrði svo síðar notað til aukaafborgana á útlendum skuldum. Og þó að vitaskuld sé hægt að hugsa sér, að á einhverju ákveðnu ári yrði hægt að greiða upp mikið af skuldum, vegna þess að góðæri kæmi, sem gæfi mikinn gjaldeyri, þá finnst mér ekkert athugavert við það, þótt samið væri við þá, sem ávöxtuðu þetta fé, að það þyrfti ekki að vera allt til reiðu til útborgunar á einu ári, því að það yrði ekki þörf á því að losa þetta allt á einu ári til aukaafborgunar af skuldum. Það eru 6 millj. kr., ef lánsheimildin er notuð að fullu, sem kæmu inn í landið á þremur árum, sem hér geta komið til greina sem lánsfé í sambandi við viðskipti innanlands. Og það eru ekki líkur til þess, að það fjármagn skapi neina óeðlilega bólgu í viðskipta- og atvinnulífi þjóðarinnar.

Ég hefi ekki rætt við bankana um þetta atriði sérstaklega. En málið var flutt í samráði við þá. Og frá þeirra hálfu varð ég ekki var við neinn sérstakan ótta um þessa útþenslu í viðskipta- og atvinnulífinu, þó að þetta lán væri fengið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa hér fleiri orð um þetta, því að almennt hefi ég gert grein fyrir málinu áður hér á þingi, og allir hv. þm. hafa átt kost á að kynna sér það, sem þar hefir komið fram.