11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Magnús Jónsson:

Ég kvaddi mér svo seint hljóðs af því, að ég var að biða eftir því að fá eitthvað að vita meira í þessu máli, sem ég var að minnast á hér í minni fyrri ræðu. En ég sé nú, að það munu ekki neinar fregnir eiga að koma af því heimili. Ég hlýt því bara að geyma mér að segja til um afstöðu mína í málinu sömuleiðis.

Ég skal ekki tefja umr. með því að svara hæstv. fjmrh. miklu. Verð þó að segja, að ég hefi kannske ekki skilið eitt atriðið rétt í grg. frv., en hann sagði nú, að sjóðmyndun sú, sem hér á að vera um að ræða, eigi aðeins að vera af því fé, sem aðrir fá til kaups til greiðslu sinna skulda. Ég játa, að það stendur ekkert í grg. um aðra í því sambandi. En ég hélt, að það væri af því, að það væri talinn svo sjálfsagður hlutur, að ríkið svaraði sínum væntanlegu afborgunum og geymdi gjaldeyrinn því til útborgunar á sínum tíma. þess vegna væri ekkert tekið fram í grg. um það. Mér er ekki ljóst, hvernig ríkið ætlar að greiða sínar afborganir niður. Það mun þó varla vera meiningin, að ríkið ætli að láta undir höfuð leggjast að greiða þær á hverju ári. Mér hefir skilizt, að ríkissjóður ætli að kaupa erlendan gjaldeyri af þessu sama láni og leggja til hliðar á einhvern hátt. Ef svo er, þá er hér gert ráð fyrir, að tapist íslenzkur gjaldeyrir út úr viðskiptalífinu á þennan hátt, sem nemur um 12 millj. kr. Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að það hefði ekki mikil áhrif á viðskipta- og atvinnulíf þjóðarinnar, þó að þessar 12 millj. kr. væru tapaðar í bili á þennan sérkennilega hátt, með því að þær væru í tiltölulega stuttan tíma dregnar út úr atvinnulífinu, þangað til úr greiðist með gjaldeyri.

Hvernig hefir það nú gengið að yfirfæra seðla frá einum banka til annars? Það hafa verið settar um það ýmsar reglur. En það hefir reynzt ómögulegt fyrir bankana, sem hafa fengið seðlaútgáfu, og fengið hana aukna, að ná þessu fé úr umferð aftur. Ætli það gæti nú ekki farið eins fyrir banka að ná þessu fé, sem hér er um að ræða, út úr atvinnurekstrinum aftur, án þess að það yrði alltilfinnanlegt? Ég veit a. m. k. ekki, hvernig það á að ske. Ég veit, að þessar lántökur ríkissjóðs hjá bankanum, sem hæstv. fjmrh. nefndi, hafa ekki náð neitt svipaðri upphæð eins og þessi lán er gert ráð fyrir að nái. Enda hefir aldrei verið gert ráð fyrir að fela bönkum hér önnur eins ósköp af fé til ávöxtunar eins og nú er gert ráð fyrir, eða 12 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Ég spái því líka, að framkvæmdin liti töluvert mikið öðruvísi út eftir nokkur ár fyrir þeim, sem eiga að ná þessu fé úr umferð aftur, heldur en hæstv. fjmrh. gerir nú ráð fyrir um framkvæmd þess.

Ætla ég svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri, úr því að ég fæ ekki svar við því, sem ég óskaði að fá svar um, viðvíkjandi afstöðu Alþfl. til þessa máls. Geymi ég því mína afstöðu til málsins.