11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er ekki gert ráð fyrir beinni sjóðsmyndun af öðru af þessu fé en andvirði þess gjaldeyris, sem seldur er öðrum en ríkissjóði. Nú er von, að hv. þm. spyrji, hvað eigi að gera við þetta fé, sem ekki verður þannig selt öðrum, þar sem fjárl. eru afgreidd eins og afborganir lána ríkissjóðs eigi að greiðast af tekjum ríkisins, sem er vitanlega meiningin. Þá gæti maður hugsað sér, að þarna kæmu af tekjum ríkissjóðs um 3–1 millj. kr. umfram. Nú er það vitanlegt, að ríkissjóður hefir skuldað á síðustu árum á 4. millj. kr. í Landsbankanum. Ríkissjóður þarf að skulda á hverju ári vegna þess, að tekjur hans koma inn seinna á árinu en gjöldin, og það nemur um 21/2 millj. kr. Mér virðist skynsamlegt fyrir ríkið að losa sig við þessar lausaskuldir í Landsbankanum með þessu fjármagni og ennfremur að losa sig við að nota eins mikið lán þannig lagað, þó að það sé greitt upp að haustinu, eins og gert hefir verið. Það væri miklu hentugra að nota hluta þessa lánsfjár til að greiða þetta heldur en að leggja það í sjóð, af því að við verðum að borga miklu meiri vexti til Landsbankans heldur en af þessu fé. Og það kemur í sama stað niður fyrir bankann líka. Ég játa, að það þarf að gæta varúðar um svona mál, og það verður að vera góð samvinna um þau á milli ríkisstjórnarinnar og bankanna, til þess að ekki komi til greina sú útþensla, sem hv. 1. þm. Reykv. benti á.

Hv. 1. þm. Reykv. beindi máli sínu að því, hvernig það mundi ganga að ná inn þessu fé aftur, ef bankinn lánaði það út í stuttum lánum (því að þær inn kallanir hafa alltaf tilhneigingu til að verða lengi í framkvæmd). Það er nú ekki hægt að gera ráð fyrir, að svo batni í ári í ár, að gjaldeyrisástandið leyfi yfirfærslur þess vegna til afborgana á erlendum skuldum í ár. En maður getur hugsað sér, að ef batnar í ári, fái bankarnir sitt fé aftur, sem þeir hafa lánað út af þessu fé, þannig að það fari saman, að þegar gjaldeyrisástandið leyfir yfirfærslur, eigi bankarnir skást með að láta af hendi þetta fé, sem þeir hafa fengið til ávöxtunar.

Mér skilst, að það sé ekki ætlun hv. 1. þm. Reykv., að á þessari leið séu svo miklir agnúar, að hún sé ótiltækileg eins og ástandið er, heldur skilst mér þetta vera varúðarorð hjá honum í þessu efni. Og það er rétt, að það þarf að gæta þess, að ekki verði óeðlileg útþensla í viðskiptalífi þjóðarinnar í sambandi við þetta.