19.04.1938
Efri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Áður en málið fer til n., vil ég leiðrétta eitt atriði, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv., og leggja áherzlu á, að n. rannsaki annað atriði í málinu, áður en það kemur fyrir hv. d. á ný.

Hv. þm. álítur, að útsvör á útgerðinni séu þyngri í Hafnarfirði en í Reykjavík, af því að þörf bæjarsjóðs hafi þar verið meiri en hér. Þetta er ekki rétt. Ástæðan er sú, að notaður hefir verið annar skattstigi til álagningar útsvara. Efnamönnum og hátekjumönnum hefir verið hlíft þar meira, og því koma hærri gjöld á aðra, og þar á meðal útgerðina.

Þá er atriði, sem ég vil benda hv. n. á að athuga. Tekjuskatturinn miðast ekki aðeins við tekjurnar þetta eða hitt árið, heldur eru töp fyrirtækjanna færð milli ára. Ég vil beina því til hv. n., hve mikill gróðinn megi vera orðinn, áður en kemur til þess, að fyrirtækin greiði tekjuskatt á ný. Ef eftir þessu væri farið, gæti ég trúað, að hv. 1. þm. Reykv. þætti lítið á vinnast með frv. En það verður að teljast mikið vafamál, hvort rétt sé, að Alþingi fari að ívilna fyrirtækjum, sem alltaf hafa haft tekjur og rekin hafa verið með misjafnri forstöðu, að ekki sé meira sagt.