06.05.1938
Efri deild: 66. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það eru aðeins örfá orð út af frv. sjálfu og brtt. þeim, sem hafa komið frá fjhn.

Ég segi fyrir mig, að ég gef sætt mig við brtt. frá n., þótt ég hefði heldur kosið, að frv. hefði verið óbreytt, því ég er þess fullviss, að einmitt þessi andi í frv. okkar, að ekki skyldi borga arð meðan útgerðin fengi þessi fríðindi, en það allt leggjast í varasjóð, sem síðan væri varið til nýrra togarafyrirtækja, er vissasti vegurinn til þess, að hleypa nýju blóði í útgerðina.

Ég veit, að öllum þm. er ljóst — og hv. 1. þm. N.-M. ætti meira að segja að vera þess fullviss —, að það er ólíkt betra og heilbrigðara að ýta undir útgerðina eða verða þess valdandi með löggjöf eða hverju öðru, að fyrir þá vinnu, sem útgerðin skapar, komi verðmæti, sem flytjast út, heldur en að allt skuli undir atvinnubótavinnu komið. Annars kom svo margt fram hjá hv. I. þm. N.-M., sem ég nenni ekki að vera að elta ólar við; það hefir svo oft komið þar fram ýmislegt, bæði í garð Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Einu atriði vil ég þó ekki láta ómótmælt. Hv. þm. sagði, að Hafnarfjörður hefði okrað á togurunum. Hann vildi m. ö o. álíta, að Hafnarfjörður hafi verið að reyna að flæma þessi einu atvinnufyrirtæki burt úr bænum. Ég vil bara minna hv. þm. á, eins og ég hefi drepið á áður, að í Hafnarfirði hafa 60–70 þús. af útsvörunum verið lagðar á skipin, af því að nauðsyn hefir verið á því. Að hægt hafi verið að leggja þetta á einstaka borgara í bænum, skal ég sýna hv. þm. fram á, hvílík helber vitleysa er. Það eru einungis 5 menn í bænum, sem hafa yfir 6300 kr. í tekjur nettó. Og þeir borga meira í útsvör heldur en borgað er af sömu tekjum í Reykjavík. Það hefir hvað eftir annað komið fram hjá þessum hv. þm., að útsvörin væru lægri í Hafnarfirði en Reykjavík. Þetta er ekki satt, og það er búið að reikna það út, að þessir menn, sem ég nefndi, bera 268 kr. hærra útsvör en lagt myndi vera á þá í Reykjavik. Og að hægt sé að jafna niður á þessa menn öllum þeim útsvörum, sem verður að leggja á togarana, sér hver maður, að er tóm vitleysa.

Ég vil ekki verða til þess, að nokkur töf verði á afgreiðslu þessa máls og geri ekki ráð fyrir að biðja um orðið aftur. En ég vildi ekki láta þessari firru ómótmælt.