06.05.1938
Efri deild: 66. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

Brynjólfur Bjarnason:

Ég verð að segja það sama og hv. 1. þm. N.-M., að mig furðar stórkostlega á því, að slíkt frv. og þetta skuli vera komið fram á Alþingi, og þó enn meira á því, að hér skuli vera nál. frá þremur stærstu þingfl., sem mælir með því, að frv. verði samþ., með litlum breyt., sem ganga í þá átt, að gera frv. frambærilegra, eins og viðurkennt hefir verið af þeim þm., sem að nál. standa.

Þegar þetta frv. var borið hér fram af sjálfstæðismönnum, tók ég það alls ekki alvarlega, og mér kom ekki til hugar, að það ætti fyrir því að liggja að fá framgang hér á þingi. Þess vegna kom mér ókunnuglega fyrir sjónir, þegar ég sá þetta nál., og ætlaði ég varla að trúa mínum eigin augum.

Nú er það svo, eins og hefir verið viðurkennt af hv. 11. landsk., að fyrir þau útgerðarfyrirtæki, sem eru sérstaklega illa stæð og þurfa á hjálp að halda, hefir þetta frv. enga praktíska þýðingu, af þeirri einföldu ástæðu, að þau greiða ekki tekjuskatt. Árið 1937 var það eitt félag í Reykjavík, sem greiddi tekju- og eignarskatt, 82,90 kr., og nú hefir Reykjavík ákveðið, að þau skuli ekki greiða útsvör. Það liggur ekki í l. nein heimild um að undanþiggja þessi félög útsvörum á þeim tíma, sem til er tekinn. Enda þyrfti enga slíka heimild í l., vegna þess að hvert bæjarfélag út af fyrir sig ræður því, hvernig það hagar útsvarsáiagningunni. Hvaða þýðingu hefir þá þetta? Það hefir í fyrsta lagi þá þýðingu, að þau fyrirtæki, sem kynnu að vera rekin með einhverjum ágóða — og þau eru til —, fá þarna algerða sérstöðu. þar sem þau eru undanþegin frá því með sérstökum l. að greiða skatt til hins opinbera, þótt þeim annars beri að gera það.

Hér er m. ö. o. um að ræða hreinar og beinar gjafir til þessara fyrirtækja. Að vísu er þetta bundið því skilyrði, að ekki sé úthlutað arði, en þetta þýðir samt sem áður, að þessi fyrirtæki þurfa engan skatt eða útsvar að greiða, þar sem þeim er heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum 90% af því, sem þau leggja í varasjóð af árstekjum sínum.

Nú skulum við segja, að kæmi veltiár, kæmi stríðsgróði á þessu tímabili, sem félli í hlut þessara fyrirtækja. Hvað væri þá hér verið að gera? Það væri verið að gefa öllum botnvörpuskipaeigendum á kostnað ríkis og bæja stóreignir. Annars er alveg furðulegt, að gerð skuli vera tilraun til þess á Alþingi að leysa málefni útgerðarinnar á þennan hátt, þegar hv. alþm. vita, hvernig er í pottinn búið með þennan atvinnuveg. Það vita allir, að í góðærum hafa einstakir menn haft gróða af þessum fyrirtækjum og ýmist varið honum til einkaeyðslu, til þess að leggja hann í önnur fyrirtæki eða til þess að flytja hann úr landi. Í slæmu árunum eiga töpin að lenda á því opinbera. Þetta er ekki rétt aðferð til þess að rétta sjávarútveginn við. Eina rétta aðferðin til þess er engin önnur en sú, að taka í taumana með þann rekstur á þann hátt, að trygging sé fengin fyrir því, að hann sé látinn starfa á heilbrigðari grundvelli en verið hefir, því að eins og kunnugt er, þá er nú þannig ástatt með þessa atvinnugrein, að nauðsyn hefir þótt bera til þess að samþ. sérstök l. á Alþ. til þess að rannsaka rekstur og hag þessara fyrirtækja.