10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Einar Olgeirsson:

Ég hélt, að einhver mundi hafa framsögu í þessu máli hér í hv d., því að það er ekki neitt smáræði á ferðinni, þegar verið er að festa í lög, að á næstu fjórum árum skuli ákveðinn atvinnurekstur hér á landi vera svo að segja undanþeginn tekjuskatti. Þó að þetta frv. hafi orðið fyrir nokkrum breyt. í hv. Ed. frá því, sem það var, þegar það kom fyrst fram, þá þýðir það nú í raun og veru samt sem áður skattfrelsi fyrir íslenzk togarafélög. Í 1. gr. frv. er rætt um, að þeim sé leyfilegt að draga frá skatti þau töp, sem þau hafa orðið fyrir síðan 1931. Þar sem vitað er, að félögin hafa orðið fyrir miklum töpum á þessu tímabili, þá er augljóst, að þetta þýðir í rauninni skattfrelsi. Ennfremur er félögunum samkv. þessari sömu gr. leyft, ef svo skyldi fara, að gróðinn hjá þessum félögum yrði svo mikill á þessu tímabili, að tapið yrði að fullu greitt, sem er ólíklegt, að leggja fé í varasjóð næstum því eins og þeim þóknast, og draga 90% af þeirri fjárhæð frá skattfrjálsum tekjum. Ég fæ ekki séð, að þetta frv. hafi í raun og veru aðra „praktíska“ þýðingu heldur en þá, að hindra, að ríkið geti fengið tekju- og eignaskatt frá þessum félögum, svo framarlega sem vel gengi hjá þeim.

Það var upplýst í hv. Ed. í sambandi við umr. um þetta mál, að sem stendur mundi það aðeins vera eitt togarafélag hér í Reykjavík, sem borgaði tekjuskatt, er næmi rúmlega 80 kr., svo að sú „praktíska“ þýðing, sem þetta frv. mundi hafa, eins og nú er ástatt hér í Reykjavík í þessum efnum, væri í rauninni eingöngu sú, að gefa þessu togarafélagi þennan skatt eftir. Ef aðstæðurnar breyttust hinsvegar, ef Sjálfstfl. tækist t. d. að lækka krónuna eða ef styrjöld skyldi skella á og skapa skyndilega verðhækkun á afurðunum, eða ef eitthvað óvænt skapaði skyndilegan gróða hjá togarafélögunum, þá þýðir þetta frv., ef að lögum verður, að þessi togarafélög eru undanþegin skattgreiðslu af gróðanum. Það virðist vera nokkuð undarlegt eins og útlitið er, ekki sízt þar sem við vitum, hvernig það hefir verið, þegar togarafélögin hafa grætt. Það hefir sem sé verið mjög mikið um það, að þau hafa tekið allmikið fé út úr rekstrinum og lagt það í allskonar fyrirtæki, sem voru alveg óskyld togararekstrinum, eins og t. d. í landbúnaðarrekstur, gróðavænleg verzlunarfyrirtæki og jafnvel skrauthýsi, en hinsvegar er það vitað, að lítið af gróða fyrirtækjanna hefir verið notað til þess að efla og endurbæta togaraflotann, sem á síðustu 10 árum mun hafa fækkað úr 47 skipum niður í 37 skip. Ef það skyldi koma gróðatímabil fyrir íslenzku togarafélögin, þá væri það þjóðinni vafalaust fyrir beztu, að þau fengju að borga réttmætan tekjuskatt af gróðanum. Það væri sízt betra, að þau gætu notað þann gróða eins og þau hafa gert undanfarið, þegar þau hafa grætt. Að vísu eru sett ýmiskonar skilyrði í sambandi við 3. gr. frv., en þar á meðal eru engin skilyrði um það, að ekki sé hægt að koma svona gróða fyrir á ýmsan hátt, t. d. með hækkuðum launum til forstjóranna, með því að fjölga forstjórunum eða með því að setja hann í önnur fyrirtæki.

Þar sem ég tel frv. beinlínis skaðlegt fyrir fólkið í landinu af þeim ástæðum, sem ég gat um áðan, en tel það hinsvegar ekki geta haft neitt gagn í för með sér fyrir útgerðina eins og sakir standa, þar eð hún borgar nú sama sem engan skatt, þá er ég algerlega mótfallinn þessu frv. og mun greiða atkv. á móti því, en bera fram brtt. við það við 2. umr., ef það kemst svo langt, sem því miður er útlit fyrir.