11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Garðar Þorsteinsson:

Ég held, að menn séu hér að nokkru leyti að deila um keisarans skegg, því að hver sem væri skilningur löggjafans um þetta efni, þá er það alveg á valdi hlutaðeigandi bæjarstj. að ákveða í hvert sinn, hvort eftir. gjöf á útsvari skuli aðeins ná til hreinna útgerðarfyrirtækja eða lengra. Og hvað sem ákveðið er í frv. um þetta, getur bæjarstj. farið sínu fram í þessu efni, án tillits til skilnings löggjafans, meðan þetta er aðeins heimild.

Þá tel ég, að síðari hluti gr. mætti gjarnan falla niður, en þar er bannað að leggja á fyrirtækið hærra útsvar en árið 1938. En nú gæti atvinnurekstur fyrirtækisins hafa gerbreytzt frá því ári, þannig, að það gæti verið komið í gróða 1941, sem ef til vill stafaði af öðru en útgerð, þótt tap hefði verið 1938. Væri þá hart fyrir bæjarfélagið að mega ekki taka af því hærra útsvar en 1938. Þessi hluti gr. finnst mér algerlega óþarfur, því að tilætluðum árangri er fyllilega náð með fyrri hl. gr.