11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Ólafur Thors:

Ég held, að það þýði ekkert að vera að þessu orðatogi fram og aftur. Ég segi eins og þar stendur: bókstafurinn blívur. Það stendur, sem í l. stendur, og verður skýrt af dómstólunum, ef til ágreinings kemur.

Ég vil ekki leyna því, að fjhn. Nd. lagði áherzlu á það, að við ættum ekki að fást um, hvernig þetta tap er til komið hjá fyrirtækjunum, og heldur ekki, hvernig sá gróði yrði til kominn, sem gengi til þess að borga skuldir þeirra. Okkur fannst bezti „mórallinn“ í því fólginn að hvetja skulduga aðilja með löggjöf til þess að hafa sérhvern þann atvinnurekstur, sem þeir telja gróðavænlegan, undir rekstri þess fyrirtækis, sem skuldnnum hefir safnað, og sérhvern arð til að létta á skuldunum. Þetta töldum við þá góðu viðskiptaaðferð, sem löggjafinn ætti að ýta undir, og út frá þessu sjónarmiði ber að greiða atkvæði um tillögur okkar, og frv. sjálft.