11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Einar Olgeirsson:

Ég á eina smábrtt. á þskj. 571, er leggur það til, að bætt sé einum lið við 3. gr. sem verði d-liður og feli það í sér, að það sé eitt af skilyrðum, sem sett séu fyrir þeirri ívilnun, sem gerð er með l., að útgerðarfyrirtæki, sem í hlut eiga, hafi að áliti hæstv. fjmrh. verið gerð út á þessum tíma svo sem frekast var unnt fjárhagslega. Það er kunnugt, að það hefir komið fyrir hér á Íslandi, að þrátt fyrir það, þótt togarafyrirtæki hér í Reykjavík væri fyrst og fremst rekið með almenningsfé og á ábyrgð ríkisbankanna, þá hefir í raun og veru rekstur þeirra verið stöðvaður meira og minna að þarflausu, til þess bókstaflega að hafa með þessu pólitísk áhrif. Ég álít, að það sé náttúrlega farið allt of langt, ef hv. Alþingi fer að sýna togaraeigendum það mikla tilhliðrunarsemi að gera þá skattfrjálsa, og sé ekki einu sinni trygging fyrir því, að þeir láti sína togara ganga, til þess að af því sé sem mest atvinna, þannig, að álít ráðh. sé, að þeir hafi látið togarana ganga þegar þótti fært fjárhagslega. Það er gersamlega ófært og algert hneyksli, ef slíkt gæti komið fyrir, að einstakir togaraeigendur legðu upp togurum sínum eftir að hafa haft mjög stutta vertíð, en séu algerlega skattfrjálsir eftir sem áður. Ef á að sýna togarafélögunum þá tilhliðrunarsemi og gefa þeim svona sérréttindi, þá má ekki minna vera en ríkisstjórnin geti haft þann íhlutunarrétt, að öruggt sé, að þau ekki beinlínis reyni að vinna skemmdarverk íslenzkum atvinnuvegi, með því að leggja óþarflega snemma togurunum og hafa vertíðina sem allra skemmsta. Það nær ekki nokkurri átt. Ég vona þess vegna að hv. þm. geti orðið sammála um að samþ. þessa brtt.