11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

103. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð

*Frsm. (Ólafur Thors):

Fjhn. hefir orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. Öllum nm. er ljóst, að það er út af fyrir sig ekki æskilegt að þurfa að grípa til þessara úrræða til að afla bæjarsjóði Hafnarfjarðar tekna. Hinsvegar verður ekki hjá því komizt, að hann fái nýjan tekjustofn, ef hann á að missa af útsvörum útgerðarfyrirtækjanna, sem þaðan eru rekin. En svo er komið, eins og á allra vitorði er, að bæjarstj. telur sig tilneydda að veita útgerðinni þá tilslökun, vegna þess, hvað illa hún er stödd. Sem sagt, þó að fjhn. sé ekki með öllu ánægð með þennan nýja skattstofn, sér hún sér ekki annað fært en leggja til, að frv. verði samþ.

Í nál. segir, að n. muni e. t. v. bera fram brtt. við 3. umr. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að n. muni ekki gera það, eftir að hafa talað við hv. þm. Hafnf. og hv. 7. landsk. Þeir hafa báðir lýst yfir, að þeir muni í framkvæmdinni sjá svo um, að sá tilgangur verði tryggður, sem fyrir n. vakti, að námsmenn, sem daglega þurfa að fara milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og aðrir sem líkt stendur á fyrir, yrðu undanþegnir þessum skattauka. Telur n., að þetta fullnægi þeim tilgangi, sem fyrir henni vakti.