19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

99. mál, iðnaðarnám

*Emil Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð. Ég skal ekki fara mikið út í almennar umr., en get þó ekki látið hjá liða að benda hv. þm. A.-Húnv. á, að það er nokkuð ólíku saman að jafna, að nemendur í Kennaraskólanum ættu að ákveða, hvað margir kæmu í skólann, eða sveinar, í iðngreinunum hafi ákvörðunarrétt um það, hvað margir nemendur fái aðgang að iðngreinunum. Þetta stafar af kennslufyrirkomulaginu, sem er ólíkt á þessum 2 stöðum.

Iðnaðarkennsla getur farið fram á tvennan hátt. Það getur verið skólakennsla, og þá ráða sveinarnir engu um það, hvað margir fá inngöngu í þann skóla. Þá er það ríkisvaldið, sem ákveður tölu nemenda. Í öðru lagi getur kennslan verið meistarakennsla, og þá eru það einkafyrirtæki, sem taka að sér kennsluna. Það hlýtur þá að vera undir vilja þeirra einstaklinga komið, hvað marga nemendur þeir taka. Um það er ekkert hægt að fyrirskipa af iðnn. Alþ. Það er ekki hægt að þvinga þá til að taka svo og svo marga nemendur. Þetta er höfuðmunurinn á þessum tveimur kennsluaðferðum. Með þessu vildi ég hafa svarað fullyrðingum hv. þm. A. Húnv.

Ég get í sambandi við þetta komið að einu atriði, sem ég vildi svara hv. flm. Hann taldi, að slíkt réttarfar sem hér tíðkaðist mundi hvergi annarsstaðar tíðkast, að ólíkir aðiljar, eins og sveinar og meistarar, vildu tryggja íhlutunarrétt sinn til að hafa áhrif á það, hvað margir lærðu ýmsar iðngreinar. Þetta er að nokkru leyti sami misskilningurinn eins og kom fram hjá hv. þm. A.-Húnv. Hér er ruglað saman meistarakennslu og skólakennslu. Hér er nú meistarakennsla. Ef þess vegna Alþ. vill fara að ráða því, hvað margir fái að læra iðn, þá verður það að koma á fót nýrri skólastofnun og taka málið frá annari hlið en það hér er gert. Ég er alveg sannfærður um, að þótt þetta frv. verði samþ., þá hefir það engin áhrif á þessa hluti. Það heldur eftir sem áður áfram að vera samningsatriði milli meistara og sveina, hvað marga nemendur skuli taka.

Það er víst, að sveinunum finnst það ekki þýðingarminna, hversu margir eru teknir inn í iðnina, en hitt, hvað kaupgjaldið sé. Þess vegna hlýtur það að vera tekið inn í kaupsamninga, hversu margir nemendur skuli vera teknir á hverjum tíma. Þeir hafa aðstöðu til að geta ráðið þessu.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að að vísu væri erfitt að komast að í iðnir núna, en ráðið til þess að bæta úr því væri ekki það, sem í þessu frv. fælist, heldur hitt að auka atvinnuna fyrir iðnaðarmenn. Þetta er rétt svo langt sem það nær. En það vill nú svo einkennilega til, að einmitt sú iðngreinin, sem hefir ekki átt við sérstakt atvinnuleysi að búa — það eru rafvirkjarnir — hefir orðið til að beita þessu ákvæði órýmilega. En það er náttúrlega svo með öll l., að það geta verið einhverjir, sem vilja nota sér þau í hag meira en góðu hófi gegnir. En ég er ekki trúaður á, að þessum l. muni yfirleitt verða beitt harkalega af iðnaðarmönnum. Þess vegna er ég á því, að það sé ekki á þessu stigi málsins þörf á að afgr. þetta frv., heldur sjá hverju fram vindur. Ég get fullvissað hv. flm. um það, að við erum ekki á neinn hátt lausir við vandkvæði þessa máls, þó að þetta frv. verði samþ.

Ég mun, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, styðja að því, að þetta mál verði athugað í n. og reynt að finna ráð við þeim agnúum, sem reynzt hafa á l., hvort sem farin verður þessi leið eða önnur. Ég skal viðurkenna, að þessi agnúi er hér á l. og að það er nauðsynlegt að reyna að ráða bót á honum á einn eða annan hátt.