19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

99. mál, iðnaðarnám

*Jón Pálmason:

Ég vildi segja nokkur orð við hv. 7. landsk. út af ræðu hans áðan. Hann taldi það byggt á misskilningi, að líkja því saman, að takmarka nemendafjölda í skólum með fyrirskipun þeirra nemenda, sem fyrir væru, og þeirri takmörkun, sem hér hefir verið gerð í löggjöfinni um iðngreinar. En þetta er vel sambærilegt, þótt á öðrum stöðum sé verklegt nám, en á hinum bóklegt. Það út af fyrir sig er rétt, að það er ekki hægt að þvinga meistara til að taka fleiri nemendur en þeir óska sjálfir eftir. En ég fullyrði, að það eru margir meistarar í iðngreinum, bæði hér og annarsstaðar, sem myndu gjarnan vilja taka fleiri nemendur en þeir hingað til hafa átt kost á. En það eru þessi bönn, sem framkvæmd hafa verið samkvæmt iðnlöggjöfinni, sem hafa orsakað það, að mjög erfitt er að koma nemendum í þessa og þessa iðngreinina. Það er þess vegna alls ekki rétt af hv. 5. þm. Reykv. að tala um óánægju hjá báðum aðiljum með frv. Ég fullyrði, að það hefir verið mjög rík óánægja hjá ýmsum, sem hafa kennslu með höndum í iðngreinum, með gildandi lög um iðnnám. Og þess vegna leiðir það af sjálfu sér, að eftir því sem rýmkað verður á þeirri löggjöf, eftir því fyrr fellur það nærri skoðun þeirra, sem vilja frelsi á þessu sviði. Hinsvegar er þess að geta, að með því að takmarka réttindi þeirra, sem kennslu stunda í þessu efni, sem allra minnst, þá verður hlutaðeigandi kennari miklu fúsari til að taka nemendur. Af því, sem ég hefi fengizt við að koma nemendum að iðngreinum, þá er mér kunnugt um, að margir hefðu viljað vinna fyrir lakari kjör en lögbundið er, ef þess hefði verið kostur. Viðvíkjandi því, sem hv. 7. landsk. talaði um, að kaupkröfupólitík hefði ekki orðið til að skapa atvinnuleysi í landinu, þá geri ég ráð fyrir. að flestir sjái - því að það er eins ljóst eins og nokkur hlutur getur verið —, að einmitt kaupkröfupólitíkin verkar meir en nokkuð annað í þá átt, að draga fólk frá framleiðslu sveinanna í kaupstaðina, í hið alkunna atvinnuleysi þar. — Þá var hv. þm. að tala um, að það myndu fleiri fá vinnu, ef þeir ynnu fyrir ekki neitt. Til slíks orðalags gaf ég ekki tilefni, og finnst mér það ósamboðið jafnprúðum manni eins og hv. þm. venjulega er. En ég geri mikinn mun á, hvort menn hafa hóflegt kaup eða heimtaðar eru 20—30 krónur á dag, eins og í þeim ýmsu iðngreinum, sem hér um ræðir. Og slíkar kaupkröfur hljóta alltaf að skapa atvinnuleysi, og ég get ekki talið það nokkuð of mælt, þótt það sé kallað okur á vinnu. Og undirstaðan undir þessu fyrirkomulagi er fagfélagsskapurinn og löggjöfin, sem hann byggist á og meðal annars er bundin við það, að loka iðngreinunum, eins og gert hefir verið síðustu árin.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði hér um, að svo sem vænta hefði mátt, hefðu sjálfstæðismenn fundið lyktina af þessu frv., því að við vildum vinna að því, að hér væri atvinnuleysi í landinu. Þetta er einmitt algerlega að snúa við réttu og röngu, því að flokkur þessa hv. þm. og hans skyldmenna í pólitískum skilningi lifa beinlínis á því, að sé sem allra mest atvinnuleysi og vandræði í atvinnumálum í þessu landi. Því að hluturinn er sá, að eftir því sem þvingunin er meiri og kaupið heimtað hærra, eftir því verður minni atvinna og atvinnuleysið tilfinnanlegra. Að öðru leyti skal ég ekki svara þessum hv. þm. nánar um þessi atriði, því að þess gerist ekki þörf, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ljóst mál fyrir þeim mönnum, sem sjá og skilja þá aðstöðu, sem er nú að skapast, og þá meðal annars fyrir áhrif þess flokks, sem þessi hv. þm. er fulltrúi fyrir.