30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

99. mál, iðnaðarnám

*Frsm. (Emil Jónason):

Iðnn. hefir athugað frv. og gert við það nokkrar smávægilegar brtt., sem hún ber hér fram í samráði við hv. flm. frv., svo að ég geri ekki ráð fyrir, að um þær brtt. geti orðið neinn verulegur ágreiningur.

Þessar brtt. fara í þá átt, að fella úr frv. það ákvæði, að þessir iðnaðarfulltrúar skuli vera ráðuneytinu til aðstoðar um öll iðnaðarmál, heldur skuli þeirra starfssvið vera bundið sérstaklega við iðnnema og þau mál, sem þeim tilheyra.

Í öðru lagi er því slegið föstu með brtt., að þar, sem samkomulag hefir orðið milli sveina og meistara um tölu iðnnema, kaup og kjör, geti iðnaðarfulltrúarnir ekki raskað því samkomulagi. Þetta eru aðalbreyt. á frv.

Þá hefir verið tekin hér upp ein viðbótartill., sem n. er líka sammála um, að meistarar skuli greiða sjúkrasamlagsgjöld fyrir nemendur sína. meðan á námstímanum stendur, enda séu þeir þá undanþegnir að veita nemendum þau hlunnindi, sem sjúkrasamlagið lætur í té.

Loks er hér smávægileg brtt. við 3. gr. frv., að í stað orðanna: „einhvern iðnaðarfulltrúa“ komi: tveir iðnaðarfulltrúar.

Ég vil geta þess, að mér virðist brtt. á þskj. 384, frá flm. frv., að öllu leyti falla saman við brtt. n., hvað það snertir, að iðnaðarfulltrúunum skuli ekki falin önnur störf en þau, sem heyra til nemendafjölgun.

Tvær aðrar brtt. hafa komið fram. Önnur er frá mér og hv. þm. Ak., og fer hún í þá átt, að gera nokkra breyt. á skipun þessara iðnaðarfulltrúa. Í frv. er gert ráð fyrir, að þeir skuli tilnefndir af iðnn. Alþingis sameiginlega og kosnir hlutfallskosningu, ef nm. komi sér ekki saman, m. ö. o., fulltrúarnir eiga að vera kosnir pólitískri kosningu. Á þennan hátt er engan veginn tryggt, að iðnaðarmenn eða menn, sem kunnugir eru þeim málum, verði fengnir til þessa starfs. Valið verður pólitískt. Með brtt. okkar hv. þm. Ak. höfum við viljað koma í veg fyrir, að svo megi verða. Þar er svo fyrir mælt, að einn fulltrúanna skuli skipaður samkvæmt tilnefningu Iðnráðs Reykjavíkur, sem saman stendur af meðlimum frá öllum iðnfélögum í Reykjavík; annar samkvæmt tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna, sem saman stendur af öllum iðnfélögum utan Reykjavíkur; og sá þriðji án tilnefningar. Með þessu er tryggð íhlutun um val fulltrúanna frá öllum starfandi iðnfélögum í landinu, þar sem þau eru öll, að ég ætla, meðlimir í þessum samböndum. Þessi brtt. er svo ljós, að ég þarf ekki að fara um hana fleiri orðum. Ég vona, að hv. þdm. geti gengið inn á hana, því að ég held, að það sé fullvíst, að verði iðnaðarmenn sjálfir kvaddir til að gera út um þessi mál, séu meiri líkur til þess, að komizt verði að heppilegri niðurstöðu.

Þá er hér enn ein brtt., sem ég vil ekki fara út í að ræða, býst við að hv. flm. geri það. En það er skemmst af að segja, að þetta er nýtt frv., sem ekkert kemur þessu máli við. Verði þessi brtt. samþ., yrði að taka málið upp að nýju. því að þá yrði litið eða ekkert eftir af því frv., sem hv. 1. þm. Árn. flytur. Vildi ég gjarnan, að við fengjum að taka afstöðu til þessa frv., áður en búið er að snúa því algerlega við frá því, sem áður var.