30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

99. mál, iðnaðarnám

*Frsm. (Emil Jónsson):

Það var aðallega eitt atriði, sem ég vildi svara, úr ræðu hv. þm. A.-Húnv. Hann talaði um, að það hefði verið rangt hjá mér, að í till. hans væri farið fram á að lengja vinnutímann. Það stendur skýrt í þessum brtt., að fella skuli niður ákvæðin um kaffitíma, tvær hálfar klukkustundir á dag. Í lögunum, sem nú gilda, er vinnutíminn ákveðinn 60 st. á viku. Þegar ég bar fram það frv. upphaflega, stóð í því, að vinnutími skyldi ákveðinn 48 st. á viku. Við vildum gera þá tilraun og álítum það nógu langan vinnutíma fyrir unglinga, en það var fellt. Hinsvegar náðist samkomulag um 9 stunda vinnudag með því móti að kalla það 60 st. vinnuviku — 10 st. á dag —, en draga síðan kaffitímana frá. Ef ákvæðin um það eru felld niður, þýðir það ekkert annað en að kaffitímarnir verða ekki reiknaðir með í þessum 60 st. og raunveruleg vinnuvika lengist úr 54 í 60 stundir.

Þá brá hv. þm. sér á leik. Hann sagði það væri stefna í íhaldsátt að svipta böndum af atvinnulífinu og auka frelsi. Þá væri vel, ef stefna Íhaldsins væri einmitt aukið frelsi; þá mundi ég fylgja því. En er það að auka frelsi að lengja vinnutímann? Er það að auka frelsi að gefa alveg meisturunum á vald, hve marga nema þeir taka og með hvaða kjörum? Ætli unglingnum, sem leitaði þannig á náðir meistarans, fyndist það meira frelsi en nú? Eða er það frelsi, ef þeim er vísað í hóp atvinnuleysingjanna um leið og þeir útskrifast frá meistaranum, svo að hann geti ráðið sér nýja nema? — Nei, í núverandi árferði þýðir slíkt frelsi ekki annað en að hert er á böndunum á almenningi, en ekki losað.

Hv. þm. minntist á, að takmörkun iðnnemafjöldans væri hliðstæð við það, ef lokað væri tveim eða þrem deildum háskólans, læknisfræði, lögfræði og guðfræði, eða mönnum meinað kennaranám. Þetta er mesta firra. Af hverju? Af því, að ríkið heldur uppi þeirri kennslu, en meistararnir iðnaðarnáminu, um leið og þeir geta notað nemana í stað annars vinnukrafts. — Iðnkennsla gæti vel farið fram á annan hátt í e. k. skóla, þar sem ekkí væri sama þörf á takmörkunum. Ef ríkissjóður kostaði þá kennslu, gæti hið opinbera ráðið því, hve marga skólinn rúmaði. En meðan meistarar sjá um kennsluna, ráða þeir kjörum nemanna að miklu leyti, og verður ekki hjá því komizt að setja þeim ýmiskonar aðhald. Hvorki Alþ. ríkisstj. geta á nokkurn hátt skipað þessum mönnum fyrir verkum. Þeir eru á engan hátt háðir ríkisvaldinu. Þetta eru þeirra einkamál. — Þetta er munurinn á því að hafa skólakennslu og meistarakennslu. Ef ríkisstj. vildi taka þann sið upp að fara að gefast upp við þessa meistarakennslu og taka upp skólafyrirkomulagið, þá væri henni það vitaskuld heimilt. En ég álít, að það sé alls ekki heppilegt. Það ber þess vegna að sama brunni með það, sem þessi hv. þm. sagði, að væri að svipta böndunum af og auka frelsið um leið. hlaut að fara eins og ég bjóst við, að það væru hrein öfugmæli, því að í stað þess að auka frelsið, er það skert, og í stað þess að losa böndin, er hert á þeim, ef hans till. verða samþ.