30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

99. mál, iðnaðarnám

*Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð. Hv. 1. landsk. sagði næstsíðast, þegar hann talaði, að iðnfulltrúar, tilnefndir af iðnn. Alþ., hlytu að vera pólitískir menn, að vegna þessa kosningafyrirkomulags hljóti þeirra till. að verða eitthvað litaðri en till. þeirra fulltrúa, sem kjörnir myndu vera eftir brtt., sem þann flytur ásamt hv. þm. Ak.

En hvernig mætti þetta nú verða? Ég hefi áður leitt óyggjandi rök að því, sem hv. 7. landsk. hefir ekki reynt að mótmæla einu einasta orði, hvaða viðhorf þessir iðnfulltrúar samkv. hans till. myndu hafa til úrskurða, enda er ekki hægt að mæla á móti því, að till. er það áskapað, að ef meistara og sveina greinir á, hlýtur sá ágreiningur að halda áfram yfir á iðnfulltrúana, og þá er það einn maður, sem úrskurðar, og þá er það aðeins viðhorf þessa eina manns, sem ræður.

Ég hefi áður bent á það og leitt nokkrar líkur fyrir því, að það sé hætt við, að viðhorf þessa eina manns mótaðist að nokkru leyti af því viðhorfi, sem atvmrh. á hverjum tíma kynni að hafa til þessara mála. Sú dómsniðurstaða í þessu efni, sem fengin er með þessu móti, myndi undir flestum kringumstæðum vera ákaflega veik. En svo er mikill munur á því, sem hv. 7. landsk. viðurkennir ekki heldur, að einmitt þessir menn, sem eiga að úrskurða um þessi mál, hafa ekki það sjónarmið eingöngu, sem fulltrúar sveina og meistara myndu hafa. Þeir eru að því leyti öðruvísi. Þeir eiga að gera öðrum mönnum grein fyrir sínu starfi. Það eru iðnn. Alþ., sem tilnefna þá. Þeir eiga að gera grein fyrir sínum till. til atvmrh., og hann síðan fyrir þinginu. M. ö. o., þessir menn hafa allt aðra húsbændur yfir sér heldur en iðnfulltrúarnir, eftir till. hv. 1. landsk. Þeir hafa iðnfélögin sem húsbændur hvert frá sínu sjónarmiði, og það er aðeins einn maður, sem þyrfti að gera grein fyrir sínum till. til atvmrh., og þarna er höfuðmunur á. Og það veit ég. að hv. 7. landsk. finnur, enda hefir hann ekki leitazt við að hnekkja þessu. Það er ekki heldur hægt.

Einmitt þessi atriði, sem ég hefi hér gert að umtalsefni, ættu að vera nóg til þess, að menn ekki samþ. hans till. í þessu máli, nema ef Alþ. er svo hugarhaldið, að það ástand, sem nú er í iðnaðinum og ekki bendir til neins góðs, haldi áfram.

Hv. 7. landsk. vék að því, að það væri hætt við, ef þessir menn ættu að úrskurða þessi mál, að þeir hefðu ekki eins mikinn kunnugleika á þessum málum og fulltrúar sveina og meistara, sem myndu skilja betur hvorir annan, ef þeir ættust við.

Það kann að vera áferðarfagurt að bera þetta fram, ef ekkert kemur fram, sem bendir í gagnstæða átt, en ef litið er til þess, sem þegar er komið á daginn, er þetta ekki eins áferðarfagurt. Nú deila þeir svo, að það er um ekkert samkomulag að ræða í sumum iðngreinum, og það er svo fjarri því, að það sé samkomulag um, að sumar iðngreinar komi ekki af sínum störfum, þó að unnin sé eftirvinna í fyllsta mæli. Og það hafa ekki verið teknir nemendur í 4 ár í sumum iðngreinum, og meistarar kvarta sárlega. Nú líða stundum margar vikur svo, að ekki er hægt að fá verk unnið, vegna þess, hve þeir eru fáir, sem að þessu starfa.

Ég vil líka benda hv. 7. landsk. á, að það kemur ekki til úrskurðar þessara iðnfulltrúa. ef samkomulag ríkir á milli meistara og sveina; þá ræður það. Og hverju er þá sleppt? Ekki neinu. Aðeins getur komið til úrskurðar, ef fulltrúa sveina og meistara greinir á, og er þá ekki bezt, að sá úrskurður falli þannig, að þeir, sem hann felldu, væru ekki eingöngu litaðir af þessum sjónarmiðum.

Hv. þm. benti á, að af því að það væri talað um það í frv., að hafa hlutfallskosningu á iðnfulltrúum af hálfu iðnn., benti það til þess, að hér yrði um pólitíska kosningu að ræða. Ég held ekki, að hv. þm. myndi, frá sínum málstað, draga þetta fram, því að þetta er sá kostur frv., sem sjálfsagt er að hafa. Þetta tryggir það, að ólík sjónarmið, sem kunna að vera í iðnn., fái notið sín, þegar till. er gerð um val fulltrúa, Hann ætti þess vegna að fagna þessum ákvæðum, og ég veit, að hann gerir það við nánari athugun heldur en að hafa á móti þeim.

Ég þarf svo litlu við þetta að bæta, því að þetta er kjarni málsins. Ég hefi áður víkið að till. hv. þm. A.- Húnv. og tel, að þær eigi alls ekki að ná samþykki. En ég vil beina því til þeirra manna, sem vilja, að þessi mál séu í heilbrigðum farvegi, að það muni vera varlegast fyrir þá að fallast á frv. með þeim breyt., sem n. stendur óskipt að, og till., sem ég hefi leyft mér að bera fram um niðurfellingu á einum málslið 1. gr., og láta frv. ganga þannig til Ed.

Það má líka glöggt sjá á ræðu hv. 5. þm. Reykv., að hann sér það við ákvæði míns frv., að sjónarmið annars aðiljans fái þar ekki til fulls notið sín. Hann hefir ekki gert það að umtalsefni, að annaðhvor aðilinn hlyti endilega að ráða, eftir uppástungu frv., ef það sýndi sig, yrði það vafalaust stutt stund. Hann vill halda því ástandi, sem nú ríkir, að sveinafélögin geti ráðið því með neitunarvaldi, hvort nemendur verði teknir, og hrýs ekkert hugur við því. Það er hreinasta fásinna að láta slíkt ástand haldast.

Og ég vil beina því til hv. 5. þm. Reykv., eins og ég gerði við I. umr. málsins, að það er síður en svo, að hann sé með þessu móti að tala máli almennings hér í Reykjavíkurbæ og í öðrum byggðarlögum, þegar frá liður. M. ö. o., það er engin sanngirni, að slík málsmeðferð sé höfð á jafnþýðingarmiklu máli eins og þessu, sem grípur jafnmikið inn í atvinnulif þjóðarinnar eins og þetta mál gerir.

Ég hefi áður að því vikið, að þessi mál á ekki að útkljá öðruvísi en leitað sé álits sveina og meistara. Ég álít sjálfsagt, að það fyrirkomulag sé viðhaft, og þá vænti ég þess, að sá úrskurður, sem felldur er, þegar aðiljana greinir á, verði eins réttlátlega felldur og mögulegt er.

Ég vil því beina því til hv. 7. landsk., vegna þess að okkur ber ekkert á milli í þessu nema um fyrirkomulagsatriði, um tilnefningu á iðnfullfrúum, að hann ætti ekki að halda sinni till. til streitu, því að ég veit, að fyrir honum vakir ekki annað en að skynsamlega sé farið með þessi mál.

Ég þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en vænti þess, að þessi hv. d. afgr. það á þann hátt, að allir megi vel við una, og það gerir hún með því að samþ. þær brtt., sem iðnn. öll stendur að, og þá brtt., sem ég hefi borið fram, en samþ. ekki fleiri brtt. af þeim, sem fyrir liggja.