30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

99. mál, iðnaðarnám

*Jón Pálmason:

Ég bað hæstv. forseta um athugasemdartíma af því, að ræða kunningja míns, hv. 7. landsk., var á þá leið, að ég sé mér ekki annað fært en að leiðrétta þær missagnir, sem hann kom með í sambandi við mínar till. Í fyrsta lagi er það algerlega rangt hjá honum, að það, að fella niður orðin „1/2 klst. tvisvar á dag“ úr l., svipti burt þeim tíma, sem þar sé um að ræða, því að það stendur eftir sem áður í 1., að það skuli vera 9 klst. vinnutími á dag, að frádregnu kaffihléi. Það er því aðeins um það að ræða, að það skuli vera lögbundið, að kaffihlé sé 1/2 klst. í einu, og hvorki meira eða minna. Ég vil láta það vera á valdi hlutaðeigandi nemenda og meistara, hvort kaffitíminn sé 1/2 klst. 3 stundarfjórðungar, 20 mínútur o. s. frv. Hér er því um aukaatriði að ræða.

Hitt, að það sé verið að auka böndin, en ekki svipta þeim af, með mínum till., er gersamlega rangt, því að þær miða að því, að það sé á valdi meistara og viðkomandi nemenda, hve margir eigi að fá lærdóm í þessari og þessari grein, því að eins og þessi hv. þm. veit a. m. k., og ég hygg, að flestir hv. þm. hafi athugað, þá eru í iðnaðarnámsl. ákvæði um það, hvaða kostir það eru, sem nemendurnir eiga við að búa hjá meisturunum, ekki einasta hvað vinnutíminn sé langur, heldur og hvað námstíminn sé langur, hvað kaupið sé á hverjum tíma o. s. frv. Öll þau atriði eru ákveðin í l. Það er því gersamlega rangt hjá hv. 7. landsk., að það sé verið að auka böndin með þessum till. mínum.

Hitt vænti ég, að allir geti séð, að það er til þess að auka frelsið, þegar svo er stillt til, að ekkert stéttarfélag geti útilokað unglinga frá því að læra þá iðn, sem þeir óska að leggja fyrir sig. Viðvíkjandi hinu, að það sé ólíku saman að jafna, meistaranámi og skólakennslu, þá er í þessu tilfelli ekki neinn munur þar á annar en sá, sem hv. 7. landsk. talaði um, að ríkið rekur aðra kennsluna, en einstakir menn hina.

Ég verð að halda fast við það, að ég get ekki annað fundið en að það sé sambærilegt, að stéttarfélag, t. d. kennarafélagið, læknafélagið og lögfræðingafélagið, ætti að hafa það á valdi sínu, hve margir bættust við í þessari og þessari grein. eins og það sé á valdi stéttarfélags, hve margir fá að læra viðkonumdi iðn. — Meira skal ég svo ekki um þetta segja.