23.02.1938
Sameinað þing: 4. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, fjárlög 1939

*Magnús Jónsson:

Ég get byrjað þessa ræðu mína á sama hátt og allar fyrri ræður mínar við þetta sama tækifæri, með því að benda á, að enn hefir hæstv. fjmrh. tekizt að bera fram hæstv. fjárlfrv., sem komið hefir fram á Alþ. Ef þetta er leiðinleg endurtekning, þá stafar hún einungis af þessari miklu leiðinlegri og skaðlegri endurtekningu hæstv. ráðh., að stofna sí og æ, ár frá ári, til aukinna útgjalda, hvað sem tautar, hvernig sem ástandið er í landinn og hvernig sem landslýðurinn stynur undir afleiðingu eyðslunnar, sköttunum. Mér er tjáð, að þessi hæstv. ráðh. sé nú rúmlega þrítugur að aldri, svo að ef honum auðnast að ná sæmilega háum aldri, sem ég vona, að hann geri, og þjóðin fær að búa að eyðsluhæfileikum hans, sem ég vona, að ekki þurfi að verða, þá er ekki örvænt um, að fjárl. verði orðin sæmilega há, þegar fer að liða á síðari hluta þessarar aldar. þ.e.a.s. ef við fáum þá enn að fara með okkar eigin fjármál, sem ég tel hæpið undir hans leiðsögn.

Að þessu sinni er hækkunin frá síðastu fjárl.frv. miklu gífurlegri en síðast. Þá var t. d. hækkunin á rekstrarreikningi ekki nema rúmlega 1/4 úr milljón, eða 248383 kr. En nú hefir jafnaðarupphæðin á rekstrarreikningi hækkað úr 15826040 kr. upp í 17335700 kr., eða um fulla hálfa aðra milljón kr. Rekstrarafgangur er nú áætlaður 1193392 kr., á móti 487100 kr. síðast, eða rúmum 700000 kr. hærri. En samt sem áður er ætlazt til, að h. u. b. álíka upphæð, eða um 700000 kr., fari í aukin útgjöld ársins, og er það laglegt svar við þeirri almennu kröfu, að útgjöld ríkisins verði færð verulega niður.

Þrátt fyrir hinar geysiháu áætluðu tekjur vantar þó enn skv. frv. 61025 kr. upp á það, að ríkissjóður geti svarað öllu, sem af honum verður krafizt á árinu 1939. Inn- og útborganir, eða jöfnuður á svonefndu sjóðsyfirliti er 880000 kr. hærri nú en á síðasta fjárlfrv.

Það er því ýkjulaust hægt að segja, að hér sé enn hæsta fjárlfrv., sem sízt hefir hér á landi, og það svo um munar. Allri ógætni síðasta þings, bæði í útgjöldum og skattaálagningu, er haldið í háspennu. og þó aukið við töluverðu. Af fjármálayfirliti því, sem hæstv. fjmrh. las nú upp, má sjá, að tekjur ársins 1937 hafa farið allverulega fram úr áætlun, eða um rúmlega 2 millj. Að vísu er mjög erfitt að fylgjast með í svona hörðum upplestri talna, og þó enn erfiðara að raða þeim tölum eða vinna úr þeim alveg fyrirvaralaust. En svo mikið hefir maður þó heyrt, að nú er augljós orðin sú firra hæstv. ráðh., sem hann ber sí og æ fram á Alþ. og utan þess, að skattahækkanir hans séu ekkert annað en uppbót á rýrnun ýmsra tekjustofna. Margir og flestir tollar, eða ef til vill allir, stórhækka ár frá ári, ekki aðeins á hverri tolleiningu, heldur líka heildartollurinn, heildarbyrðin. Fer nú þessi hæstv. ráðh. vonandi að verða svo gamall og svo mikill maður, að hann kannist við þetta, kannist við tölurnar, sem hann sjálfur stofnar til, skrifar og les upp. Hann hefur nú upp tekjur á rekstrarreikningi 1931 18 millj. kr. Þær voru við sama tækifæri gefnar upp af honum fyrir 1936 16 mill. kr., og 1934 voru þær gefnar upp 14,3 millj. kr. Ef þetta er ekki hækkun, og hún ekki lítil, á þessum sambærilegu tekjum, þá þýðir ekki lengur að fara með tölur. Þetta er 3,6 millj. kr. hækkun á heildartekjunum, eða hvorki meira né minna en yfir 27% eða meira en fjórðungshækkun á 4 árum. Og þó eru ýmsir liðir, sem ekki hafa hækkað. Mér vinnst ekki tími til að athuga hér sérstaklega, hvað mikið innflutningstollarnir hafa hækkað, en þeir eru fremstir í þessari hækkun. Verður hægt að halda þessu til skila, þó að seinna verði.

Nálega það eina, sem enn hefir heyrzt frá hæstv. ríkisstjórn hér á Alþ., eru frv. um framlenging skatta og tolla. Það er rétt eins og stjórnin sé að segja á þessu fallega rósamáli sínu: „Hvað sem öllu líður og hvernig sem allt veltist, þá er eitt víst, og það er, að við viljum engum byrðum létta af fólkinu. Skattarnir skulu haldast í háspennu, hvað sem annars gerist“. Ég verð að segja, að mér finnst þetta ekki lítil brjóstheilindi, að bera þetta fram, eftir að ráðh., þegar hann var að semja frv., hlýtur að hafa verið búinn að sjá útkomu ársins 1937, búinn að sjá, að ekki þurfti að ganga svona langt í álögunum. Og ég verð líka að segja, að á haustþinginu, a. m. k. seinni parti þess, hlýtur hæstv. fjmrh. að hafa verið farinn að sjá, hvert stefndi. Innflutningur ársins, sem hér hefir haft mest áhrif á, hlýtur að hafa verið kominn það vel í ljós, að hann hefði getað fengið nægar skýrslur til að sjá, að tekjurnar voru að fara langt fram úr áætlun. En samt lætur hann samþykkja síðustu tollahækkanirnar, nýja tolla á svo að segja öllum lífsnauðsynjum og stórum hækkaða tolla af öðrum notaþörfum almennings, og fullyrðir frammi fyrir öllum þingheimi, að þessa þurfi til þess að bæta upp rýrnun þá, sem innflutningshöftin orsaki á tollunum. Hann hlýtur þó á síðasta mánuði ársins að hafa verið farinn að sjá, að innflutningurinn varð hvorki meira né minna en 10 millj. kr. hærri 1937 en 1936, eða um 51 millj. í stað 41 millj., hvorutveggja talið eftir bráðabirgðartölum hagstofunnar.

Ég býst nú við, að ráðh. svari því, að tekjurnar skaði ekki ríkissjóð. Það verði nógar holur til að stinga þessum krónum í. Og ég efast ekki um það. En getur verið nokkurt vit í því að innheimta hærri gjöld en þarf til að standast hin gífurlegu útgjöld í árferði eins og nú hefir verið, þegar bæði sveit og sjávarsíða eru komnar á kreppuhjálp og sjálf bæjar- og sveitarfélögin sömuleiðis? Getur það undir slíkum kringumstæðum verið nokkurt vit, að halda fyrst öllum útgjöldum í háspennu og innheimta auk þess með köldu blóði stórfé í umframtekjur? Og bera svo fram frv., sem fer fram á að spenna bogann bara þeim mun hærra, sem hin aukna tekjuvon getur frekast leyft?

Ráðh. hafa nú eins og á undanförnum árum flutt ræður sínar í útvarpi eftir áramótin og sagt landsmönnum skoðun sína á ástandinu. Ég skal nú ekki fara hér að svara þeim, enda eru þetta hér um bil alltaf sömu ræðurnar, en ég vil þó aðeins víkja nokkrum orðum að þeim hvorum um sig.

Atvmrh. heldur á hverju ári sömu ræðuna, þar sem hann lýsir tapi Spánarmarkaðsins og telur það vera að þakka hinni snilldarlegu stjórn sinni, að íslenzka ríkið hefir komizt yfir þann örðugleika án þess að fara um koll. En hvað hefir ríkisstjórnin gert í þessu efni, sem einstaklingurinn hefði ekki gert, og það til muna betur? Það þýðir ekki í því sambandi að tala um fiskimálanefnd, fiskhjalla, frystihús og síldarverksmiðjur, því að allt þetta var ýmist að koma, að frumkvæði útflytjendanna sjálfra, eða þá það var á döfinni. Um það ber frv. hv. þm. G.-K. um fiskiráð frá 1934 skýrasta vottinn, því að í grg. þess var nákvæmlega talið upp og vandlega rætt, áður en fiskimálanefnd varð til, jafnvel í heilabúi hæstv. ráðh., allt það sem henni hefir síðan tekizt að skrifa upp eftir honum og fálmað í að framkvæma með ærnum kostnaði fyrir ríkissjóð. Það er rétt eins og hæstv. atvmrh. haldi, að hér hafi aldrei neinn tekið hendinni til, fyrr en hann og fiskimála- . nefnd byrjuðu að fást við þessi mál. En staðreyndirnar segja býsna mikið annað. Um aldamótin var útflutningur sjávarafurða eitthvað um 5 millj. kr., og var allt selt milliliðum, aðallega í Danmörku, öðrum Norðurlöndum og Bretlandi. En á áratugnum 1920–1930 var þetta orðið 54–58 millj., eða meira en 11 sinnum meira. Hvernig hafði þetta skeð? Hvernig hafði verið mögulegt að gera úr garði alla þessa vöru, ná henni úr höndum milliliða og ryðja henni braut á heimsins bezta markaði? Þetta hafði allt verið gert af útflytjendunum sjálfum, 58 millj. Það er ekki eins og nú, þegar fiskimálanefnd ætlar að rifna yfir nokkrum hundruðum þúsunda, sem hún nær sölu á. En það var tvennt, sem hér skildi á milli: Annað var, að það voru ekki prentuð stóreflis nefndarálit og lofrit á opinberan kostnað um þessi afrek, og hitt var, að það var allt unnið á kostnað þessara manna sjálfra. Helzti stuðningur ríkisins var sá, að leggja ríflegt útflutningsgjald á þessa vöru, sem var verið að ryðja braut fyrir á erlendum markaði. Nú er aftur á móti ekki hjallkofi reistur eða smávara lögð í dósir, svo að ekki sé það básúnað í blöðum, skýrslum og útvarpi. Ég skal svo ekki í þessu sambandi tala um það, að mjög mikið af starfi n. hefir verið beinlínis til ills, svo sem afskipti hennar af ísfiskssölunni til Bandaríkjanna eða þá hin hneykslanlega meðferð hennar á Póllandsfiskinum á sínum tíma. Fyrsta ár n. virðist starfsemi aðallega hafa verið fólgin í því að hefja launin, og þau voru ekki skorin við neglur, því að formaðurinn hafði fyrir þetta aukastarf sitt laun eins og embættismenn í hærri launaflokkunum. En þetta er nú eitt af því stærsta, sem þessi hæstv. ráðh. hefir til að hæla sér af, og það, sem hann telur hafa bjargað þjóðinni, að hann skipaði þessa n. til þess að ausa í hana fé ríkisins og til þess að þvælast fyrir samtökum framleiðendanna.

Hæstv. fjmrh. virðist vera hæstánægður með ástandið. Hann hefir náð, að því er hann segir greiðslujöfnuði við útlönd í tvö ár. Að vísu skyggir það nokkuð á, að það virðist ekki mikil blessun í þessu búi, því að hvernig sem greiðslujöfnuður fæst á pappírnum, þá harðnar alltaf gjaldeyrisskorturinn, líkt og um vexti ríkisins sjálfs, sem hækka, þó að skuldirnar lækki. Þetta er nú að verða svo alvarlegt mál, að enginn veit, hvenær boginn brestur. Innflytjendur fá innflutningsleyfi sín og gjaldeyrisleyfi, en þegar svo á að borga og kaupmaðurinn kemur með peningana, þá er ekki hægt að standa við gjaldeyrisleyfin, og kröfurnar eru endursendar. Fullkomnar skýrslur eru ekki enn fengnar um, hve mikil brögð eru að þessu, en svo mikið er þó komið af skýrslum, að sýnilegt er, að hér er um mjög stórfelldan hlut að ræða. Það er nú þegar komið í ljós, að milli 30 og 40 firmu hafa þannig komizt í greiðslufall á yfir 1 millj. kr., sem full gjaldeyrisleyfi voru fyrir. Má nærri geta, hver áhrif þetta hefir á viðskipti landsmanna og kjör þau, er menn komast að. Annarsvegar er þess krafizt, að kaupmenn útvegi sér eins mikinn gjaldfrest og mögulegt er, en á hinn bóginn eru þeir neyddir í vanskil við þá sömu menn, sem þeir eiga að fá lánstraust hjá. Það er meira að segja svo, þó að ekki liggi fyrir um þetta nægilega góðar skýrslur, að jafnvel hin opinberu fyrirtæki eru komin í stórkostleg greiðsluvandræði, og engum getum þarf að því að leiða, hvaða áhrif það hlýtur að hafa á lánstraust og álit landsins erlendis, því að það mun verða erfitt fyrir erlenda fjármálamenn að gera mikinn mun á ríkisfyrirtækjunum og ríkissjóði sjálfum. Mætti kalla það einstaka heppni, ef greiðslufall hjá opinberum fyrirtækjum yrði ekki af erlendum fjármálamönnum lagt út sem einskonar fyrirboði þess, að hagur ríkissjóðs sjálfs væri á mjög veikum fæti.

Ég get því miður ekki farið út í hina eftirtektarverðu skýrslu hæstv. fjmrh. um það, hvernig á því stendur að þessir stórkostlegu erfiðleikar eru nú fyrir hendi í gjaldeyrisverzluninni, þrátt fyrir það að hann sýndi fram á, að greiðslujöfnuður við útlönd hefði verið betri og verzlunarjöfnuður hagstæðari hin síðari árin heldur en fyrra tímabilið, sem hann nefndi, þó að það sé að nokkru leyti augljóst. Hæstv. fjmrh. hefði annars vel getað tekið til samanburðar tímabilið frá 1921 til 1934 í stað þess að taka það frá 1925 til 1934 og talað þá um tímann frá því er Framsfl. hóf sína skuldapólitík. Það er auðsjáanlegur munur á þessum tveim tímabilum. Skuldasöfnunin léttir vitaskuld gjaldeyrisverzlunina á fyrra tímabilinu, en gjaldeyrisörðugleikar síðara tímabilsins stafa af því, að þá er tekið fyrir hina sívaxandi skuldasöfnun. En vextir og afborganir skulda er þá orðið ríkissjóði þungt á skauti. Þetta er m. ö. o. nákvæmlega það sama, sem borið hefir verið fram af mér og mörgum öðrum bæði á stjórnmálafundum utan þings og hér á hæstv. Alþ., að þetta ákaflega öra áframhald í framkvæmdum, sem hafa mikinn kostnað í för með sér, og þessi ógætilega fjármálastefna gæti mönnum kannske líkað vel í bili, en hlyti fyrr eða síðar að leiða til stöðvunar framkvæmda. Nú hefir hæstv. fimrh. í fyrsta skipti boðað landslýðnum öllum, að þessi stöðvun mundi koma og stæði nú fyrir dyrum. Hann sagði að svo væri nú ástatt, að það yrði að draga að sér höndina um hinn öra vöxt iðnaðarins, eins og hann orðaði það. Það fer að koma á daginn, að ógætileg fjármálastjórn, bæði þess opinbera og eins hitt, að hlaða um of undir stórstiga aukningu iðnaðarins, hefnir sín fyrr eða síðar, þó að hið síðarnefnda sé notalegt, meðan á því stendur. Það er lítil huggun fyrir þjóðina, ef hún á að stranda þarna algerlega. Og hæstv. ráðh. getur svo náttúrlega komið eftir á með sínar skýringar á því, hvernig á þessu hafi staðið. Og augljóst er líka, hve alvaran er margvísleg á þessu sviði. Maður getur ímyndað sér, hvaða áhrif þetta hefir á lántökur erlendis til nauðsynjafyrirtækja, eins og t. d. hitaveitunnar hér í Reykjavík og virkjun Laxár í Þingeyjarsýslu. Það fer að verða miður álitlegt fyrir erlenda menn að lána okkur, þegar þeim nægir ekki lengur að tryggja sér það, að fyrirtækin, sem þeir lána til, séu góð og lántakinn skilvís, ef gjaldeyrisástandið er þannig, að lántakandanum er varnað að greiða lánið. Og eitthvað er bogið við þessar öru framkvæmdir, sem hæstv. ráðh. sagði nú, að orsökuðu þessa kreppu, ef fyrirtæki þau, sem þyngja gjaldeyrisástandið, hafa ekki getu til þess að létta það að sama skapi. Þá er ekki skynsamlega til þeirra stofnað.

Þetta er sem sagt það sældarástand í viðskiptalífinu við önnur lönd, sem hæstv. fjmrh. hefir komið til leiðar. Þessi er nú útkoman á því máli, sem hann hefir talið vera mál málanna og telur, að sér hafi tekizt bezt að eiga við, nú er það að keyra fast.

Þá eru hæstv. forsrh. og fjmrh. vafalaust stoltir af lausn sinni á einu af stórmálum landbúnaðarins, á mjög stóru svæði landsins. þar sem er mjólkurmálið á verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þar er nú komin, fyrir aðgerðir stjórnarflokkanna, sú kompásskekkja, að það mál fer allt í strand, ef svo er fram haldið sem nú. Eins og spáð var af mér og fleiri á síðasta þingi, og reynt að koma í veg fyrir, hefir nú verð mjólkurinnar verið hækkað í útsölu. Hefir það verið básúnað mjög út, að þetta hafi verið gert eftir kröfu framleiðenda hér í nánd við Reykjavík. En þetta er gert aðeins til að breiða yfir sjálfa orsökina. Orsökin er vitanlega sú, að með hinni óhóflegu framleiðslu í skjóli verðjöfnunargjaldsins, þyngir svo á sjálfri neyzlumjólkinni, sem ber verðjöfnunargjaldið, að framleiðendurnir standast ekki. Þeir heimta þá og fá hækkun á verðinu. Við það kippir úr neyzlunni, og kemur þá verðjöfnunargjaldið á enn minni framleiðslu neyzlumjólkur og því meira á hvern lítra. Þarf þá að hækka verðið enn, og svo koll af kolli.

Hér stefnir þróunin í alveg öfuga átt, svo augljóslega að furða er, að sæmilega greindir menn sjái ekki þetta. Ég veit nú reyndar, að þeir hljóta að hafa séð það og beint ákveðið þessa hækkun á móti betri vitund, eingöngu af kjósendadekri og til kjósendakaupa. Ráðstafanirnar verða að miða í þá átt, að mjólkurneyzlan aukist, þannig að sem mest verði selt af mjólkinni sem neyzlumjólk, svo að mjólkurverðið í heild verði sem hæst á hvern lítra. Og ég verð að játa, að ég sé ekki, hvernig það verður gert með öðru móti en því að sjá um, að hlutfallið milli neyzlumjólkur og vinnslumjólkur haldist innan skynsamlegra takmarka.

Ég vil svo minnast ofurlítið á pólitíska útlitið, eins og það er nú í þingbyrjun. Ég verð að segja, að oft hefir það verið bágborið, en sjaldan eða aldrei eins og nú, og virðist siðleysi stjórnarflokkanna og lítilsvirðing á sönnu lýðæði aldrei hafa komizt jafnlangt og nú.

Fyrir síðustu kosningar sögðu stjórnarflokkarnir sundur með sér bæði í stjórn og á þingi. Ráðh. beggja flokka, annarsvegar forsrh. sjálfur, fyrir hönd Framsfl., og hinsvegar atv.- og utanríkismálaráðh., fyrir hönd Alþfl., lýstu því þá hátíðlega yfir í útvarpsumr.— á Alþ. sjálfu frammi fyrir allri þjóðinni og sendu hvor öðrum tilbærilegan tón.

En allt reyndist þetta vera tóm skröksaga og blekkingar. Ágreiningsmálin voru óleyst, en stjórnin sat, rétt eins og þetta hefðu verið drengir í aurkasti á götunni, sem enginn tekur mark á. Svo komu kosningarnar og sýndu þegar óheilindin, því að flokkarnir blönduðu þar blóði eins og beztu vinir og það allt niður í kommúnista. Hér í Reykjavík gaf Framsókn t.d. sósíalistum um 400 atkvæði til þess að reyna að koma Sigurjóni Ólafssyni inn á þing fyrir Reykjavík, og sannaðist það nú við bæjarstjórnarkosningarnar, þegar þessi 400 atkv. komu af afréttinni aftur og heim til Framsfl. Eftir þingkosningarnar var svo uppsögnin höfð að engu. Hún var aðeins ætluð til að blekkja kjósendur, og það tókst vel fyrir Framsókn, því að hún fékk aukið fylgi upp á loforðið um að skilja við sósíalista og kommúnista. En fyrsta verkið á eftir var svo að treysta samvinnuna á ný og slá með því kjósendahóp sinn beint í andlitið. Og eru kjósendur Framsfl. þá geðlausari en Íslendingar eru almennt, ef þeir þola foringjum sínum og þingmönnum þetta lengi!

Svo komu bæjarstjórnarkosningarnar. Þá var þetta allt saman kórónað með því, að allir þrír flokkarnir, Framsfl., Alþfl. og Kommfl. höfðu kosningabandalag þar, sem það var talið nauðsynlegt. Og milli Framsfl. og Alþfl. komst ekki hnífurinn. En Alþfl. og Kommfl. runnu beinlínis saman í einn flokk með öflugum samningum. Þegar svo þessi flatsæng reyndist ekki sigurvænleg, vildu foringjar sósíalista ganga frá öllu saman. Hefir út af því orðið árekstur í flokknum svo harður, að Alþfl. er gersamlega klofinn. Skal ég engan dóm leggja á þessi ágreiningsmál innan Alþfl. eða spá neinu um það, hvernig þeim átökum muni lykta. En það liggur opinberlega fyrir, að flokkurinn er klofinn, og að sá hlutinn, sem þingmenn flokksins, að einum undanteknum, fylgja, hefir orðið algerlega undir á félagsfundum, svo að jafnvel hinn þaulreyndi og mikilsvirti forseti Alþýðusambandsins hefir verið rekinn úr stærsta félaginu innan alþýðusambandsins og óvirtur þar á fundi, og hvorki þingmenn sósíalista né ráðherra þeirra hafa getað komið nokkru tauti við eða haft nema mjög takmarkað fylgi.

Hvað gerir nú bændaflokkurinn, Framsfl.? Fyrir liggur þetta þrennt:

1. Að flokkarnir sögðu sundur með sér bæði í stjórn og á þingi fyrir kosningarnar, og ágreiningsmálin, sem þá urðu þeim að skilnaði, standa óleyst.

2. Að síðan hafa allir foringjar og þingmenn Alþfl. gert sig bera að því að vilja ganga í bandalag við kommúnista og eru sama sinnis enn, þó að þeir hafi með litlum drengskap verið með kattarþvott frammi fyrir landslýðnum. Þeir sýndu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, að þeir eru til í samvinnu við kommúnista, hvenær sem þeir halda, að þeir hafi gagn af því.

3. Að klofningurinn í Alþfl. hefir alveg bersýnilega gert það að verkum, að þingmenn flokksins, að Héðni Valdimarssyni kannske einum undanteknum, eru með minni hluta að baki sér. Engar líkur eru til þess, að neinn þeirra næði kosningu, ef þeir ættu nú að leita til kjósenda. Það væri mjög gaman að prófa þetta.

Þegar þetta allt er athugað, þá skyldi maður halda, að sá snefill af sómatilfinningu væri hjá leiðtogum Framsfl., að þeir neituðu að byggja stjórn landsins á samvinnu við þetta þinglið. En allt, sem fram er komið, bendir þó í aðra átt, og vil ég nefna hér þetta sem dæmi. Í þingbyrjun kusu framsóknarmenn eins og áður Jón Baldvinsson fyrir forseta sameinaðs þings. Og þó að samkomulag hafi verið um það að kjósa varaforsetana af öðrum þingflokkum, þá getur það ekki verið ástæðan til þess að kjósa Alþfl.þingmann í virðingarmestu stöðu þingsins, heldur hlýtur hver maður að líta á það sem vott samstarfs. Sama kom svo fram í kosningum í nefndum, sem eru óbreyttar í þessu efni.

Hin svokallaða miðstjórn Framsfl. var svo kölluð saman og hún er látin samþykkja, — ja, hvað halda menn? Jú, auðvitað það, að leita enn samvinnu við sósíalista. Og svo er því hnýtt við, að afneitað sé sambandi eða samvinnu við kommúnista. Verður sú afneitun heldur föl og kinnfiskasogin á svipinn, þegar hún er knýtt við ályktun um það að ganga í flatsæng með flokki, sem er enn glóðvolgur úr flatsænginni við þessa sömu kommúnista, sem verið er að afneita.

Núna alveg nýlega barst hingað fregn um það, að utanríkismálaráðhr. Breta hefði sagt af sér út af ágreiningi innan ráðuneytisins um meðferð eins máls. Forsrh. taldi þó ágreining þennan ekki vera mjög alvarlegan. En svona er nú lýðræðið og þingræðið túlkað í Englandi, og svona viðkvæm er þessi stóra þjóð fyrir fullu velsæmi á æðstu stöðum. Við Íslendingar getum ekki kinnroðalaust borið þetta saman við velsæmið á okkar hæstu stöðum. Hér er ágreiningur um meginmál þjóðarinnar. Viðkomandi ráðh. rífast á Alþ. frammi fyrir allri þjóðinni og segja sundur með sér og flokkum sínum. En að þeim detti í hug að taka afleiðingum þessarar framkomu, kemur ekki fyrir þessa pólitískt ósiðuðu menn. Og þegar svo sósíalistar ganga í fullkomið bandalag við kommúnista, er miðstjórn Framsfl. kölluð saman til þess að látast afneita kommúnistum, en leita um leið samstarfs við sósíalista. í fullri vitund um, að það eru menn, sem hafa ekki einu sinni kjósendavilja bak við sig — meðfram vegna samningamakksins við Framsókn.

Það er að verða ljósara og ljósara, að það er engum flokki hér á landi trúandi í opinberum málum nema Sjálfstfl. Hann einn hefir stjórnað landinu vel og farsællega. Hann einn hefir bent á úrræðin. Hann einn hefir frá upphafi verið samfelldur heilsteyptur flokkur, óklofinn og eindreginn. Menn, sem honum tilheyra, hafa borið hita og þunga dagsins í atvinnu og framkvæmdum þjóðarinnar, en hinir hafa aðeins sprottið upp í skjóli ríkisfyrirtækja og sérréttinda. Og þessir síðustu viðburðir á því pólitíska sviði ættu að fara að nægja til þess að opna augu landsmanna fyrir því, að þeir eiga að fela Sjálfstfl. einum völdin og forsjá landsins mála.