09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

99. mál, iðnaðarnám

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu minni og okkar alþýðuflokksmanna til þessa máls, eins og hún hafði verið í hv. Nd. og eins og hún er hér í hv. Ed. Það er rangt hjá hv. þm. S.-Þ., að við höfum aðra afstöðu hér en í hv. Nd. Þar voru gerðar mikilsverðar breyt. á frv., frá því sem það var fyrst flutt. Þær till. voru ekki einungis fluttar af Aþfl.mönnum, heldur og af einum sjálfstæðismanni, og eru það samskonar till., sem við hv. 3. landsk. flytjum hér og ég tel vera mikið til bóta. Okkur er ljóst af því kappi, sem þetta mál er flutt með, að það muni eiga að knýja það í gegn, svo ekki er um annað að gera en að reyna að fá það bætt, þar sem ekki mun vera hægt að koma í veg fyrir, að það verði samþ. Úr því að hv. þm. S.-Þ. er farinn út úr d., ætla ég ekki að fara að deila á hann og benda á þær villur, sem koma fram í þessu máli. En ég vil lýsa því yfir fyrir mína hönd og hv. 3. landsk., að við munum taka aftur brtt. okkar til 3. umr. Mun ég reyna að ná saman fundi í iðnn. fyrir þann tíma, ef hægt væri að ná samþykki um einhverjar aðrar brtt., sem mættu verða til bóta á þessu frv.