10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

138. mál, mæðiveiki

Steingrímur Steinþórsson:

Það er ekki að undra, þó að miklar umr. verði um þetta mál eins og öll saga þess er og eins og það nær til margra manna hér á landi. — Ég vil taka það fram út af því, að hv. þm. V.-Sk. sagði, að það væri leitt, hvað seint málið kæmi inn í þingið, að þetta stafar af því, að það hefir verið reynt að undirbúa frv. sem allra bezt, bæði í mþn. og landbn., að það var ekki hægt að ganga frá því fyrr, svo að mér finnst ásakanir hv. þm. ekki hafa við eins mikið að styðjast í raun og veru eins og kann að virðast við fyrstu sýn. En málið var í fyrstu undirbúið af n., sem skipuð var fulltrúum allra aðalflokka þingsins, og auk þess af landbn. þingsins, svo að flokkarnir gátu alltaf vitað, hvað málinu liði. Þetta er sú afsökun, sem landbn. hefir, en það er síður en svo, að ég undrist það, þó að þessar aðfinnslur komi fram.

Ég vil taka það fram, að ég er fylgjandi landbn. um frv., og fylgi ég því óbreyttu, en þetta má ekki skilja svo, að ég sé að öllu leyti sömu skoðunar og aðrir í n. Ég hefi dálitla sérstöðu og er ekki að öllu leyti samþykkur ummælum hv. frsm. né ummælum í grg. Ég er svo fjarri hugmyndinni um niðurskurð nú, að ég get ekki fallizt á ummæli hv. frsm. Ég skal ekki fara út í forsögu málsins, en eftir þau 3 ár, sem pestin hefir geysað, erum við í raun og veru engu nær því að vita um eðli hennar og uppruna. — Hv. þm. Ak. heldur því fram, að hér sé um áður þekktan sjúkdóm að ræða, en við vitum bara það, að pestin grípur um sig meir og meir. Við höfum gert tilraunir til að reisa varnarvirki gegn henni, en þær hafa misheppnazt. Nú erum við að reyna frekari varnarvirki, en von mín er því miður veik. Hv. frsm. sagði, að sumir þm. hefðu ekki trú á varnir. Það er satt, mín trú er mjög takmörkuð. Ef það er t. d. rétt, sem tilgátur hafa heyrzt um, að mýs geti flutt veikina, eru girðingar lítils virði. En þrátt fyrir þetta fylgi ég samt varnarplaninu, því að hér er um svo stórkostlegt alvörumál að ræða, að ég álít, að verði að reyna það.

Ég álít, að niðurskurður sé svo alvarlegt skref í þessu máli, að hv. flm. séu naumast búnir að gera sér grein fyrir því. Það var eitt sinn rifizt um það á Alþ., hvort ætti að skera niður sauðféð til þess að hefta útbreiðslu fjárkláðans. En það hefir farið svo, að niðurskurðarmenn þeirra tíma hafa orðið til athlægis, en þeir, sem þá héldu fram lækningum, höfðu rétt fyrir sér. Ég er enginn spámaður, en það vil ég segja, að eins og nú horfir, finnst mér ekkert vit að setja löggjöf um niðurskurð, hvorki í stærri eða minni mælikvarða, og von mín er sú, að síðar verði niðurskurðarplan þeirra, sem fylgja því nú, skoðað jafnfráleitt og þá var.

Hv. þm. Borgf. gerir ráð fyrir niðurskurði, en lagði mikið upp úr því, að hann stæði á allt öðru stigi en hv. þm. N.-M., þar sem hann vildi reyna niðurskurð á litlu svæði, en hv. þm. N.-M. í stórum stíl. Þeir eru nú samt á sama stigi, þessir hv. þm. Hvorutveggja eru heimildarlög, sem heimila niðurskurð, ef vissum skilyrðum er fullnægt. Hv. þm. Borgf. vill skera í Borgarfirði á ákveðnu svæði, en hinar till. gera ráð fyrir niðurskurði á öðrum svæðum. Engum dettur í hug, að það sé viturlegt að skera í suðurhluta Borgarfjarðar og halda svo ekki áfram að hreinsa til. Sá grundvöllur er svo í lausu lofti, að þm. geta ekki samþ. slíkt sem grundvöll, er fara skuli eftir. Og að ekki megi flytja ósýkt fé inn í sýkt héruð, er svo barnalegt ákvæði sem mest má vera, þegar enginn veit, á hvern hátt veikin smitar. Hitt hefi ég þegar tekið fram, að þrátt fyrir ótrú mína á vörnum, verður enn að gera tilraunir í þá átt, því að við höfum ekki annan öruggari grundvöll að byggja á. Ástandið er þannig í sveitunum, að ekki er um annað að ræða en að rétta bændum einhverja hjálparhönd. Að þessu hefir starfað n. fyrri partinn í vetur, að finna reglur fyrir þeim stuðningi, og út af orðum hv. þm, V.-Sk. um, að ekkert sé vitað enn, hverjir fái þann styrk, verð ég að segja, að það er fulldjúpt tekið í árina hjá honum, því að n. er búin að úthluta styrknum eftir ákveðnum reglum. Þess er ekki að vænta, að fyrir liggi grg. um það nú þegar.

Ég ætla ekki að bera fram neinar ádeilur í þessu máli, það bætir ekki úr. En það er vitað, að sú stofnun, sem haft hefir með höndum rannsóknir á fjárpestinni, hefir ekki náð verulegum árangri. Þó hefir það fengizt greinilega skjalfest, að það er ekki svipað því allur fjárstofninn í nokkrum héruðum, sem drepst. Sumir stofnar sýkjast litið, aðrir meira. Það er út af fyrir sig mikils virði að vita þetta, því að áður héldu menn, að veikin strádræpi. Eftir að hafa fengið þessa vitneskju, er ég enn meir á móti hugmyndinni um niðurskurð. Þá mun það rétt vera, að veikin fari hægar yfir nú en í fyrstu. Er því síður ástæða til að grípa til örþrifaráða.

Ég skal játa það og viðurkenna með hv. þm. Ak., við of lítið hefir verið gert að því að nota sérkunnáttu dýralæknanna. Ég álít, að það hefði átt að gera strax. En það hefir nú æxlazt svo, að Rannsóknarstofa háskólans hefir haft þessar rannsóknir áfram, án þess að samvinna væri milli hennar og dýralæknanna. Það er mjög óheppilegt, í stað þess að fá þessa aðilja til að starfa saman. En ég verð að segja, að mér finnst það of óákveðið, hvað hv. þm. Ak. vill láta gera. Hann heldur því fram, að hægt sé að losna við veikina. En hvað vill hann láta gera? Ég er því mjög fylgjandi, að hv. þm. Ak. fái tækifæri og möguleika til að gefa sig við athugunum á veikinni. Mér finnst bara, að hann taka þetta um of sem tilfinningamál, án þess að benda á leiðir til úrræða. Það er hans veika hlið í þessu máli.

Ég mun láta hér staðar numið. Mér finnst skiljanlegt, að skoðanir manna í þessu máli séu mjög á reiki, og trúað gæti ég, að engir tveir menn hér í hv. d. væru sömu skoðunar, þar sem við í raun og veru erum að fálma okkur áfram í myrkri. Ég hefi, eins og ég hefi tekið fram, ekki getað fundið, að kyndlar hv. þm. Ak. hafi lýst okkur verulega. Hann segir bara, að það sé vitleysa, sem gert sé. En ég vil stuðla að því, að hann geti beitt sér, og vona, að hann geti orðið sá stóri spámaður, að honum takist að kveða niður pestina. Ég er frv. n. samþykkur eins og það liggur fyrir, þó að ég hafi að sumu leyti dálitla sérstöðu.