10.05.1938
Neðri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

138. mál, mæðiveiki

Bergur Jónsson:

Ég á hér brtt., aðra á þskj. 517, sem ég flyt ásamt 3 öðrum hv. þm., en hina á þskj. 526.

Aðalbrtt. að efni til er fyrri brtt. á þskj. 517. Hún gengur í þá átt, að bæta inn í 5. gr. frv. sem aðallínu línu frá Kollafirði í Gufudalssveit til Ísafjarðar við Ísafjarðardjúp. Ég sé í grg. frv., að mæðiveikinefndin hefir sent landbn. frv., þar sem lagt er til, að aðallínurnar á Vestfjörðum séu 2, og önnur þeirra væri frá Kollafirði til Ísafjarðar. Landbn. hafa hinsvegar ruglað fram og aftur með þetta. Stundum hefir verið talað um, að aðallínan fyrir Vestfirði væri frá Kollafirði til Ísafjarðar, stundum frá Þorskafirði til Steingrímsfjarðar, stundum frá Kaldalóni í Þaralátursfjörð. Eins og frv. er nú, er gert ráð fyrir aðeins einni aðallínu á Vestfjörðum, sem sé milli Steingrímsfjarðar og Þorskafjarðar. Ég tel engan vafa á, að þetta sé algerlega ófullnægjandi fyrir sauðfjárræktarhéruð, sem eru, að því er maður bezt veit, ósýkt af mæðiveikinni. — Ég tók eftir því í ræðu hv. frsm. landbn. við 1. umr., að hann sagði út af I. kafla frv., að aðaláherzluna yrði að leggja á að verja þá hluta landsins, sem væru ósýktir. Þetta er rétt. En það er ekki í fullu samræmi við þessa skoðun, að vilja ekki koma upp 2 fullgildum varnargirðingum fyrir Vestfirði, þar sem vitað er með þeirri vissu, sem annars er hægt um það að fá. að veikin er alls ekki komin þangað. Ég álít, að það hljóti að vera yfirleitt aðalatriðið í þessu máli, að leggja höfuðstyrkinn í að verja eins fullkomlega og hægt er þá landshluta, sem ekki hafa orðið fyrir sýkingu ennþá. Við sjáum það á fjárl. nú, að gert er ráð fyrir, að ríkissjóður verji 385 þús. kr. til stuðnings bænda á því svæði þar sem mæðiveikin hefir geisað. Ennfremur á bjargráðasjóður að leggja fram 48 þús. kr. og héruðin 54 þús. kr. Það sér hver maður, hvort sem litið er til Vestfjarða eða austurhluta landsins — til þessara tveggja aðalstaða á landinu, þar sem er nokkurnveginn vitað, að sýkin er ekki ennþá komin —, að þar er um svo geysilega mikið verðmæti að ræða, ef sýkin kemur þangað. að þó að ekki sé litið á annað en það fé, sem ríkið og aðrir yrðu að leggja fram til styrktar mönnum á þessu svæði, yrði sá kostnaður margfaldur á við það, sem leggja yrði fram til að auka varðlínurnar eins og við leggjum til í brtt. okkar.

Ég skal geta þess viðvíkjandi línunni milli Kollafjarðar og Ísafjarðar, að það er gert ráð fyrir, að hún sé 25 km. löng og kosti um 22500 kr. Ef veitt er hámarkið til þessarar línu, eins og gert er ráð fyrir í grg. frv., þá yrði það um 8750 kr., eða m. ö. o. mismunurinn á því, sem ríkissjóður yrði að leggja fram, yrði 13–14 þús. En hvaða upphæð er það móts við það verðmæti, sem væri í voða, ef veikin kæmi verulega yfir á Vestfirði?

Eftir því sem segir í grg. frv., þá er fjártalan í þessum héruðum sem hér segir:

Í Vestur-Barðastrandarsýslu .....13759

Í Ísafjarðarsýslu ...................... 32189

Á Ísafirði .................................... 519

Samtals:I6467 Svo er í þeim hluta Austur-Barðastrandarsýslu, sem girðingin mundi vernda, Múla- og Flateyjarhreppi, 3256 fjár, eða samtals 49725. Þá er einnig nokkur hluti Gufudalshrepps þarna í, svo að samtals er þá það fé, sem þessi girðing mundi verja, rúmlega 50 þús. Má sjálfsagt telja þennan fjárstofn ca. 800 þús. til 1 millj. kr. virði. Það sjá allir, að það er að spara eyrinn og eyða krónunni, að vilja ekki leggja fram þennan 14 –15 þús. kr. styrk til Ísafjarðarlínunnar sem aðalvarnarlínu, heldur en að ríkissjóður og aðrir hlutaðeigendur þurfi síðar að leggja fram hundr. þús. til þess að bæta fyrir þau verðmæti, sem þannig geta farið forgörðum. Ég vil geta þess, að á Vestfjörðum er aðstaðan slík, að það er ómögulegt fyrir bændur að hafa nema sauðfjárbúskap. þar sem enginn markaður er fyrir mjólk eða aðrar afurðir kúaræktar. Það er því alveg kippt fótunum undan búrekstri manna, ef þeir missa fjárstofninn. Það geta verið skiptar skoðanir um, hvort hægt sé að verja með þessum girðingum, en verði þær eingöngu til að tefja svolitið útbreiðslu sýkinnar, er það líka mikill ávinningur. Ég vona, að hv. þm. átti sig á, að hér er um skyldu að ræða af hálfu fjár. veitingavaldsins til að gera allt, sem mögulegt er, til að hjálpa þessum stóra landshluta, og samþ. aðalbrtt. okkar á þskj. 517. Auk þess höfum við borið fram varatill., um að setja þessa línu sem aukavarnarlínu, sem framkvæmdanefnd. sem ætlazt er til, að skipuð verði eftir frv., má setja upp.

Þá hefi ég borið fram eina brtt. til, um að orða um 3. lið í 5. gr. Ég legg til að þar standi: Milli Steingrímsfjarðar og Berufjarðar. Ég held, að það sé fullvíst, að eigi sé um aukinn kostnað að ræða, þó að línan sé látin ná til Berufjarðar. En með því að fara örlítið austar, kemur um 2000 fjár í viðbót, allt úr Reykhólasveit, og veit ég ekki betur en að þau svæði séu algerlega ósýkt. Ætti því undir öllum kringumstæðum að vera hægt að fá þeim sanngjörnu óskum framgengt, að samþ. þessa till.

Það er ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en ég vona, að aðaltill. á þskj. 517 verði vel tekið, en ef svo ólíklega til tekst, að hún verði drepin, þá verði vat. samþ.