11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

138. mál, mæðiveiki

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er orðinn naumur tíminn, en málið er stórt og viðamikið. Ég skal samt reyna að vera stuttorður. Þetta mál hefir verið rætt mikið í hv. Nd., og hv. 1. þm. N.--M. hefir útskýrt það hér. Ég vil fyrst taka það fram, að landbn. beggja d. komu sér saman um það ágreiningslaust, að af þeim styrk, sem er í fjárlögum til mjólkurbúa, renni fé til þess að styrkja rjómabú á pestarsvæðinu. Í fjvn. kom einnig fram það sama.

Þá kem ég að þeim brtt., sem ég get ekki fallizt á. Fyrst er fjölgun girðinga eftir 5. gr. Nú horfir girðingamálið svo, að girðingar, sem þarf að gera eru.:

Þjórsárgirðing .................... …50 þús. kr.

Héraðsvatnagirðing ............... 50 — –

Vatnsskarðsgirðing, styrkur ....... 10 — –

Girðing milli Steingrímsfjarðar og

Þorskafjarðar ........................... 25 — —

Viðhald eldri girðinga .................10 — —

Auk þessa hefir komið til mála að styrkja ýmsar girðingar, t. d. á Snæfellsnesi 10 þús. kr., í Flóa 10 þús. kr., á Reykjanesi 10 þús. kr., á Kili 8 þús. kr., þá Drangajökulsgirðing 4 þús. kr., og loks til línunnar milli Kollafjarðar og Ísafjarðar 10 þús. kr. Þetta er svo mikil upphæð, að ég sé ekki, að ástæða sé til að halda lengur áfram. Ég sé ekki, að fjárhagur ríkissjóðs sé svo öflugur nú, að rétt sé að lögbinda fleiri girðingar, þar sem líka er heimilað samkv. l. að styrkja með 35 au. á metra slíkar girðingar eins og frá Kollafirði til Ísafjarðar, en það er mun meira en efnið kostar komið á hafnarstað. Það er talið, að efnið verði 25–28 au. á metra, og þá eru eftir h. u. b. 10 au. fyrir verkinu og flutningnum. Það virðist ekki vera óbærilegt fyrir héruðin að leggja það fram sjálf. Ennfremur er eitt, sem sýnir, hvað það er ónauðsynlegt að láta málið nú hrekjast á milli d. Í 27. gr. frv. segir svo: „Ráðherra er heimilt eftir till. framkvæmdanefndar, að gera hverja þá ráðstöfun, er hann álítur nauðsynlega, til þess að hindra útbreiðslu veikinnar og útrýma henni“. Hér er sem sé heimild fyrir ráðh. til þess að láta setja upp girðingar, ef þörf er á. En þegar búið er að lögfesta þetta, er það heimtað, hvort sem þess þarf eða ekki. Er ekki rétt að gefa mönnum undir fótinn um að eyða sem mestu.

Þá vil ég snúa mér að brtt. á þskj. 5611, um nýjan kafla um heimild til fjárskipta. Ég verð að segja, að þetta er mjög erfitt mál að leysa, og ég skal játa, að það hefir ekki verið fjarri mér að telja fjárskipti rétt. En síðan ég hefi fengið meiri kynni af pestinni, hefi ég horfið frá því. Hér er ekki sá grundvöllur, sem við getum fótað okkur á. Fyrst og fremst vitum við ekki, hvort girðingar varna útbreiðslu veikinnar. Það hefir jafnvel heyrzt sú kenning, að mýs beri hana, en það mega vera þéttari girðingar en nú eru til þess að mýs sleppi ekki í gegnum. Við vitum ekki, hvort hagar, hey eða hús eru smitandi. Í þriðja er uppi deila á meðal sérfræðinga. Einn segir, að þetta sé útlend pest, sem færist yfir eins og smitandi faraldur; annar segir, að hún sé af innlendum uppruna, og þarna komi jafnvel saman fleiri pestir, og því verði veikin svo mögnuð. Öll þessi óvissa dregur úr áhuga mínum um að vilja hafa fjárskipti strax. Reynsla af rannsóknum er engin, og tilraununum í Heggstaðanesi er ekki svo langt komið, að hægt sé að byggja á þeim niðurskurð í haust. Þess vegna skorum við sumir landbúnaðarnefndarmenn á stj. að láta fram fara frekari tilraunir. Ef fjárskiptin misheppnast og pestin fer um allt landið, erum við búnir að eyðileggja þann hluta fjárins, sem mest hefir mótstöðuafl, og getum átt á hættu að útrýma sauðfjárstofninum íslenzka.

Það er mjög á reiki, hvar menn vilja byrja. Hver togar í sinn skækil, en bændur eru áreiðanlega ófúsir til að skipta um stofn núna. Ég held ekki, að það sé rétt, að sú reynsla fáist í sumar, að við getum skorið úr því, hvort fjárskipti eigi að fara fram í haust. Ef við ættum það víst, að fjárskiptin heppnuðust, væri betra að ganga strax að því, en að fara að leggja í þann millj.kostnað eins og í pottinn er búið, treysti ég mér ekki til að vera með, og ég legg fastlega á móti því, að það verði samþ.