11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

138. mál, mæðiveiki

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil segja um hv. síðasta ræðumann, að mér virtist eftir ræðu hans, að hann færi lítið skakkar með það af ræðu minni, sem hann ekkí heyrði, en það, sem hann hlustaði á sjálfur. Ég hefi aldrei sagt það, að ég væri á sama máli og dýralæknarnir. Ég sagði, að svo gæti farið, að veikin kæmi upp í kjördæmi hv. 1. þm. N.-M. Ég hefi látið í ljós, og hv. þm. veit það vel, að ég hallast frekar að skýringu rannsóknarstofu háskólans um uppruna veikinnar en að skýringu hinna, og það er á móti betri vitund, að hv. þm. heldur því fram, að ég hafi sagt hitt. En ég vil segja, að þótt mitt álit sé þannig, þá vil ég ekki bregða fæti fyrir, að málið sé einnig rannsakað frá hinni hliðinni, og því er ég meðmæltur, að elzta dýralækni landsins gefist kostur á að athuga þetta mál, og ég tel vel farið, að komið er á leið með að gera það.

Hv. síðasti ræðumaður hélt því fram, að ég hefði sagt, að það mætti síðar girða línuna milli Kollafjarðar og Ísafjarðar. Ég hélt því fram, að þótt þessi girðing væri ekki ákveðin í þessum 1., þá væri heimild fyrir ráðh. að setja hana upp, ef það væri talin nauðsyn, og benti á 27. gr. frv., sem ótvírætt veitir ráðh. þetta vald. Ef nauðsyn er talin, getur hann eftir till. framkvæmdarn. gert hverja þá ráðstöfun, sem talin er nauðsynleg til að hindra útbreiðslu veikinnar. Ég er búinn að sýna fram á, að þær girðingar, sem þegar á að gera, koma til með að kosta ein 300 þús. Því vil ég ekki, að lögfestar séu fleiri girðingar en þegar eru komnar, því að ég tel það frekar til þess að gefa mönnum undir fótinn, svo að þeir noti sér það og setji e. t. v. upp girðingar um þörf fram. Ég tel ekki, að nein vandræði muni af hljótast, þótt ekki sé farið að breyta frv. og hrekja það milli d., og ég sé ekki, að neinn skaði sé skeður, þótt brtt. þær, sem fyrir liggja, væru steindrepnar.