02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

34. mál, atvinna við siglingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér er nokkuð kunnugt um þá óánægju, sem risið hefir upp í kjördæmi hv. þm. Borgf., á Akranesi, út af ákvæðum l. um þessi efni, því að þótt hv. þm. telji, að sú óánægja hafi mest bitnað á skrifstofustjóra atvmrn., þá get ég fullvissað hann um, að ég hefi ekki farið varhluta af þeim umkvörtunum, og ég verð að segja það, og það veit hv. þm., að það hefir verið reynt að létta svo undir með Akranesi sem hægt er samkv. gildandi l. Hv. þm. veit vel, og hann dróst á það, að í l. er engin undanþága til fyrir stj., og að sjálfsögðu er ekki hægt að víkja frá l. Hinsvegar var hlutazt til um það, að haldið var á síðasta hausti námskeið fyrir vélstjóra á Akranesi, einmitt fyrir ósk Akurnesinga og hv. þm. kjördæmisins, svo að þeir gætu komizt hjá aukakostnaði, sem hlytist af því að sækja vélstjóranámskeið til Reykjavíkur, og þetta var einmitt gert með tilliti til þess, að á síðasta vetri þurfti að fá allmarga vélstjóra í plássið annarsstaðar að. Þetta námskeið var haldið á Akranesi, og seinasta þing samþ. að veita 2000 kr. til þess. Ég verð að segja, að mér finnst dálítið einkennilegt, að einmitt eftir að Akurnesingar eru a. m. k. búnir að fá svo bætt úr vélstjóraskortinum heima fyrir, að mjög lítið hlýtur að vanta til þess, að nógir menn fáist á bátana, þá skuli eiga að breyta l. aftur og afnema þetta ákvæði. Mig furðar á því, að hv. þm. Borgf. skyldi ekki koma auga á þetta fyrr, vegna þess að á seinasta þingi voru til meðferðar l. um heimild handa ríkisstj. til þess að veita undanþágu frá ákvæðinu um vélstjóra á gufuskipum, sem stunda síldveiðar að sumrinu til, og þessi l. voru samþ. á síðasta þingi, eins og hv. þm. veit, og ef hann hefði talið nauðsynlegt, þá hefði verið hægt fyrir hann að fá svipað ákvæði viðvíkjandi vélbátunum, en ástæðan fyrir því, að það var ekki gert, ætla ég að hafi m. a. verið sú, að einmitt þá var ráðizt í að halda námskeið fyrir vélstjóra á Akranesi, og með því bjóst ég við, að leyst væri úr þessum vandræðum plássins.

Ég held, að það sé ekki fleira í sambandi við ræðu hv. þm., sem ég þarf að taka fram. Ég vildi aðeins benda á þetta í sambandi við það, sem hann hafði um sérstöðu Akurnesinga í þessu efni að segja.